133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[14:14]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hlynntur vaxtabótakerfinu. Stjórnarandstaðan er það. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnarflokkarnir hafi líka sagt sig vera hlynnta því. Annars væru þeir varla að gera þær breytingar sem hér er um að ræða. Hv. þingmaður hefur reyndar ekki enn svarað skýrt hér í dag hvort hann vilji leggja af vaxtabótakerfið í heild sinni. Hann svarar því kannski á öðrum vettvangi eða hefur kannski gert það áður.

Það er mjög sérkennilegt í málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals að umræðan um velferðarkerfið fer alltaf að snúast um heimsreisur og jeppakaup og annað slíkt. Það er mjög sérkennilegt að þingmaður sem veit mætavel eða ætti að vita mætavel hver staða ýmissa hópa í okkar samfélagi sé, komi alltaf með röksemdir gegn hluta velferðarkerfisins á þeim nótum að menn séu að kaupa sér jeppa og heimsreisur.

Mig langar að upplýsa hv. þingmann um að 30.000 Íslendingar lifa á 100 þús. kr. eða minna. Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa af 110 þús. kr. og minna og margir af miklu minna. Námsmenn fá námslán sem er langt undir lágmarksframfærslu. Þetta eru hópar sem ekki kaupa neina jeppa. Þetta eru ekki hópar sem kaupa heimsreisur. Við búum til okkar velferðarkerfi væntanlega með það að markmiði að geta aðstoðað þá sem þurfa á aðstoð að halda og þetta eru hópar sem þurfa það. En það er sérkennileg lenska hjá þingmanninum að setja allt í samhengi við hina ofurríku sem væntanlega í huga þingmannsins hafa alltaf það að markmiði að misnota velferðarkerfið.

Auðvitað er hægt að finna dæmi þess að menn misnoti velferðarkerfið. En það er ekki röksemd í sjálfu sér gegn tilvist velferðarkerfisins, langt í frá. Staða í samfélagi okkar kallar á velferðarkerfið, öflugt vaxtabótakerfi sem tekur á skuldugum almenningi. Það nær ekki nokkurri átt að tala um jeppakaup og heimsreisur í sömu andrá og vaxtabótakerfið vegna þess að þeir hópar sem ég taldi hér upp (Forseti hringir.) standa ekki í jeppakaupum sem þingmanninum er svo tíðrætt um.