133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:45]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson velti fyrir sér hvað mundi gerast ef sveitarfélag klofnar upp eða því yrði skipt upp með einhverjum hætti. Ég hygg að með þessa eign sveitarfélaga fari bara eins og um aðrar eignir, sveitarfélögin eiga margar eignir í fasteignum og öðru. Ég geri ráð fyrir að það verði með sama móti farið með þá eign sem er til umræðu, ég svara því þannig.

Skattfrelsi hefur verið hjá lánasjóðnum og það verður áfram. Ég held ég hafi svarað því áðan varðandi almannaþjónustuna.

Ég hvet eindregið til þess að félagsmálanefnd fari vel ofan í þetta mál. Eins og ég sagði í framsögu minni er um að ræða sjóð sem er alfarið í eigu sveitarfélaganna og hefur verið það frá upphafi. Það er ósk eigendanna að fara þessa leið og ég féllst á það, ég tel það góða leið. En ég hvet til þess að menn skoði þetta vel í nefndinni og fái þær upplýsingar sem menn telja sig þurfa þar.