133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:56]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki tefja framgang þessa ágæta máls en það skiptir auðvitað máli að afstaða Sjálfstæðisflokksins liggi fyrir í málinu. Hér hefur talað einn þingmaður sjálfstæðismanna og hann er meira að segja einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum.

Hv. þm. Pétur Blöndal kom hér en ég hef ekki greind til þess að skilja afstöðuna sem hv. þingmaður var að lýsa. Hv. þingmaður sagðist algjörlega vera á móti þessum sjóði af rökum sem hann tiltók. Hins vegar sagðist hann vera hlynntur frumvarpinu. Ber þá að skilja það svo að hv. þingmaður ætli fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að samþykkja frumvarpið en vera samt á móti efni þess?