133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf hættulegt þegar hv. þm. Pétur Blöndal fer að hæla mér og sérstaklega þegar ég fer að hæla honum til baka, þá er eitthvað mjög mikið að. En það sem er gott við hv. þm. Pétur Blöndal er að hann kemur oft skýrt að efninu hvort sem maður er innilega ósammála honum eða ekki. Það breikkar því umræðuna hvort sem hún verður betri eða ekki fyrir bragðið. (GAK: Þú ert skilningsríkur maður.) Já, ég er skilningsríkur.

Ég árétta að ef hinn eini vilji og tilgangur með frumvarpinu er að skýra eignarhaldið, eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á, að þetta hafi verið að ósk sveitarfélaganna að það yrði gert, þá getur Alþingi samt haft sjálfstæða skoðun á því. Þó að sveitarfélög óski eftir einhverju hefur Alþingi hina pólitísku skoðun sína og meirihlutaskoðun á því ef út í það fer. Það eru því ekki einhver algild sannindi þó að einhver annar vilji eitthvað öðruvísi heldur en Alþingi síðan ákveður.

En ef það er hinn einbeitti vilji að skýra eigi eignarhaldið og það verði svona en að öðru leyti starfi sjóðurinn óbreytt áfram og með óbreyttum tilgangi sem félagslegur sjóður, þá á hann að vera það. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér að þá eigi heldur ekki að vera í lögunum, hvort sem við erum með eða á móti einkavæðingu framdyramegin eða bakdyramegin, ef meiri hluti verður fyrir því að breyta sjóðnum í það að einstakir aðilar geti keypt hann upp, komist yfir hann að stórum hluta. Þá yrði bara lögunum breytt á Alþingi í þá veru ef meiri hluti er fyrir því. En viljinn á að vera fullkomlega skýr og einfaldur en ekki neinar bakdyr (Forseti hringir.) í því sambandi.