133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjármálafyrirtæki.

386. mál
[15:01]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Frumvarpið mælir fyrir um hvernig staðið verður að innleiðingu á breyttum reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja sem teknar eru upp á Evrópska efnahagssvæðinu með breytingum á tveimur tilskipunum, nr. 2006/48 og nr. 2006/49.

Reglurnar eru byggðar á staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli sem gefinn var út í júní 2004 og uppfærður í nóvember 2005. Hann kemur í stað eldri staðals um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja sem að stofni til er frá 1988. Gert er ráð fyrir að þessar nýju reglur verði innleiddar í lög og reglur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins með gildistöku hinn 1. janúar 2007.

Sú leið hefur verið valin í frumvarpinu, eins og reyndar víðar, að meginatriði breytinganna verða lögfest, verði frumvarpið að lögum, en útfærslum og tækniatriðum er vísað í reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.

Tilgangur þess að lögbinda ákveðið lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja sem þó ákvarðist af umfangi starfseminnar helgast af því að fjármálafyrirtæki þurfa að geta þolað talsverð fjárhagsleg áföll án þess að lenda í greiðsluþroti. Reglur Basel-nefndarinnar hafa það að markmiði að samræma reglur milli aðildarríkja nefndarinnar hvað varðar starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Á Evrópska efnahagssvæðinu hefur frá upphafi verið farin sú leið að láta Basel-reglurnar gilda um öll fjármálafyrirtæki hvort sem starfsemi þeirra er alþjóðleg eða bundin við eitt land.

Markmiðið með breytingunum er einkum að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við þannig að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Þetta er gert með tvennum hætti: Meginreglur eru annars vegar ítarlegri en áður og auk þess geta stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta.

Ákvæði um eigið fé eru í 84. og 85. gr. laganna. Í þremur fyrstu málsgreinum 84. gr. eru ákvæði um lágmark eigin fjár sem lagt er til að breytist nokkuð þannig að nýjar málsgreinar koma í stað eldri. Síðari hluti greinarinnar er einkum skilgreining á eigin fé í þessu samhengi og leggur frumvarpið til nokkrar breytingar á henni. Lagt er til að hugtakið eiginfjárgrunnur verði notað í 84. gr. í stað hugtaksins eigin fjár en þetta hefur í för með sér breytingar á nokkrum öðrum lagagreinum. Breytingar eru lagðar til á 85. gr. sem fjallar um liði sem draga þarf frá eigin fé áður en það er borið saman við lágmarkið. Þá er lögð til breyting á 17. gr. vegna innleiðingar á ákvæði tilskipunar 2006/48 um fullnægjandi innri ferla við mat á áhættum og eiginfjárþörf fjármálafyrirtækis og breyting á 28. gr. vegna lagfæringar á undanþáguákvæði um hámark á virkum eignarhlutum en það ákvæði hefur áhrif á hvaða liðir dragast frá eiginfjárgrunni skv. 84. og 85. gr. laganna.

Eins og áður kom fram er reiknað með að þessar nýju reglur komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu hinn 1. janúar nk. Mikilvægt er því að frumvarp þetta verði að lögum fyrir áramót.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.