133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

breyting á lögum á sviði Neytendastofu.

378. mál
[15:25]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu sem er á þskj. 415.

Frumvarp þetta er tvíþætt. Annars vegar miða breytingar þær sem lagðar eru til að því að unnt verði að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Hins vegar eru lagðar til breytingar á tveimur lagabálkum sem nauðsynlegt er að gera vegna lagabreytinga sem gerðar voru á síðasta þingi þegar framkvæmd faggildingar var færð frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu með lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og þegar lög um vog, mál og faggildingu voru felld úr gildi með lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Áfrýjunarnefnd neytendamála var sett á stofn með lögum nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda, á árinu 2005. Til áfrýjunarnefndar neytendamála er nú hægt að skjóta stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og annarra laga sem heyra undir Neytendastofu og hafa að geyma heimild til málskots. Slíka málskotsheimild er nú að finna í lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, lögum um neytendalán og lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Í frumvarpi því sem nú er mælt fyrir er lagt til að málskotsheimild til áfrýjunarnefndarinnar verði sett í öll önnur lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á, þ.e. lög um alferðir, lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, lög um rafrænar undirskriftir og lög um vörur unnar úr eðalmálmum. Jafnframt er lagt til í frumvarpi þessu að orðalagi áfrýjunarheimilda í lögum um neytendalán og lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu verði breytt til samræmis við orðalag heimildarákvæða þeirra sem lagt er til í frumvarpi þessu.

Breytingin er lögð til þar sem mikilvægt er talið að unnt sé að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar til æðra stjórnvalds, en margar ákvarðanir Neytendastofu varða einstaklinga sem neytendur og er því mikilvægt að þeir hafi aðgang að ódýrri, skilvirkri og einfaldri leið til að fá ákvarðanir stofnunarinnar endurskoðaðar.

Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði í þá lagabálka sem ekki hafa slík ákvæði nú þess efnis að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.