133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006. Eins og þingheimi er kunnugt voru samþykkt á hinu háa Alþingi síðastliðið vor tvö lagafrumvörp um breytingu á starfsemi og skipulagi Flugmálastjórnar Íslands. Markmið þeirra var stofnun opinbers hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur sem Flugmálastjórn hefur annast og hins vegar að skipa málum þannig að Flugmálastjórn Ísland sinni áfram stjórnsýslustarfsemi og þar með eftirlitsstarfsemi.

Ljóst var þegar framangreind frumvörp voru lögð fram að ekki mundi fyllilega nást að ljúka mótun gjaldaákvæðis vegna Flugmálastjórnar Íslands. Lögin voru því samþykkt með almennri gjaldaheimild í 9. gr. laganna.

Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að leggja til nýja skipan varðandi gjaldtöku Flugmálastjórnar með almennum gjaldaheimildum stofnunarinnar. Jafnframt eru felldar niður ýmsar skattlagningarheimildir í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sem ekki er lengur þörf fyrir.

Hafist var handa við að ljúka vinnunni í haust og liggur að baki mikil vinna hjá Flugmálastjórn við að tengja kostnað og eftirlit við drög að gjaldskrá sem nú liggur fyrir.

Gerðar voru nokkrar breytingar á dögunum í samræmi við athugasemdir frá gjaldanefnd fjármálaráðuneytis. Með þessu er lögð til sú grundvallarbreyting að verið er að hverfa frá skattheimtu en taka í stað þess gjöld sem verða kostnaðartengd. Flest gjaldanna sem talin eru upp í frumvarpinu eiga sér fyrirmynd í núgildandi lögum og gjaldskrá. Með að setja fram eitt ákvæði er telur upp gjöld sem heimilt er að innheimta er gjaldtakan gerð eins skýr og gagnsæ og mögulegt er.

Ekki er gert ráð fyrir verulegum breytingum á heildargjaldtöku gagnvart flugrekendum en nokkrar breytingar verða innan gjaldskrárinnar, þ.e. að tilfærsla verður milli einstakra kostnaðarþátta sem taka mið af greiningu á kostnaði sem átt hefur sér stað. Frumvarpið gerir ráð fyrir um 20% hækkun á útgáfu fyrsta lofthæfisskírteinis sem er reyndar skattur. Hafa verður í huga að gjöld og skattar sem kveðið er á um í loftferðalögum hafa ekki hækkað í tíð gildandi laga og í raun ekki frá árinu 1992. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir nýjum gjaldaheimildum vegna eftirlits Flugmálastjórnar með hlutafjárvæddri flugleiðsögustarfsemi, þ.e. vegna Flugstoða ohf.

Frumvarpið var unnið í samstarfi samgönguráðuneytis og Flugmálastjórnar og flugráð hefur fengið frumvarpið til umsagnar og ekki gert við það athugasemdir. Þá var það einnig sent til umsagnar hagsmunaaðila og hafa engar athugasemdir borist frá þeim.

Frumvarpið er aðeins tvær greinar og er í 1. gr. þess kveðið á um gjaldaheimild Flugmálastjórnar. Það er kveðið á um heimild til að innheimta gjöld vegna útgáfu skírteina, starfsleyfa, heimildaeftirlits og vottunar, auk annarrar starfsemi svo sem vegna sérstakrar þjónustu sem óskað er vegna vottunar, viðurkenningar, prófunar eða veitingar heimilda.

Lýst er ítarlega í 1. gr. frumvarpsins hvernig hátta skal heimild Flugmálastjórnar Íslands til innheimtugjalda. Eru það bæði árleg gjöld svo sem vegna árlegs eftirlits og útgáfu skírteina svo og gjöld fyrir einstaka þjónustuþætti svo sem prófgjöld til útgáfuheimilda sem tengjast einstökum atburðum og vegna samhæfingar eða samstarfs við erlend stjórnvöld í þágu eftirlitsskylds aðila.

Eins og fyrr segir eiga flest gjaldanna sem talin eru upp í 1. gr. frumvarpsins sér fyrirmynd í núgildandi lögum og gjaldskrá. Nýmæli í frumvarpinu er heimild til að krefjast innheimtu fyrirframgreiðslu vegna yfirferðar gagna og samskipta svo sem vegna útgáfu starfsleyfis eftirlitsskylds aðila. Er það talið nauðsynlegt þar sem slík vinna er iðulega tímafrek og kann að dreifast yfir langan tíma án þess að tryggt sé að umsækjandi ljúki umsagnarferli.

2. gr. lagafrumvarpsins kveður á um gildistöku og niðurfellingu heimilda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs til innheimtugjalda vegna útgáfu skírteina og flugrekstrarleyfa þar sem þau færast inn í 9. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands. Einnig er mælt fyrir um brottfall annarra gjaldtökuheimilda er varða lendingargjöld og fleira sem einnig hefur verið tekið inn í hið nýja lagafrumvarp.

Virðulegi forseti. Hér verður að öðru leyti ekki farið nánar yfir ákvæði frumvarpsins sem skýrð eru í athugasemd við einstakar greinar þess. Frumvarpið er til þess fallið að gera alla gjaldtöku er varðar útgáfu skírteina, heimildaeftirlit og vottun eins skýra og gagnsæja og mögulegt er.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar og vænti ég góðs samstarfs við þingmenn um að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi. En þess ber að geta að ráðuneytið hefur haft góða samvinnu við samgöngunefnd og farið yfir flest þau frumvörp sem eru á dagskrá þingsins og til meðferðar í þinginu. Ég tel mjög mikilvægt að slík forvinna fari fram og þakka hv. samgöngunefndarmönnum fyrir gott samstarf hvað það varðar.