133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:53]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mat mitt er að frumvarpið, eins og það er lagt fram hér og sem liður í endurskipulagningu þessarar starfsemi, muni styrkja samkeppnishæfni íslenskra flugrekenda. Það fer ekkert á milli mála.

Vegna orða hv. þingmanns þá er alls staðar í veröldinni verið að aðskilja eftirlitshlutverk og þjónustuhlutverk. Við ætlum að gera það um næstu áramót.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið með frumvarpinu er að færa Flugmálastjórn Íslands heimildir til gjaldtöku og fella niður á móti skattlagningarheimildir sem ekki er lengur þörf á í viðkomandi lögum. Gjaldtakan er m.a. vegna vottunar, starfsleyfa, skírteina og eftirlits. Þessi breyting á tekjustofnum Flugmálastjórnar Íslands mun hafa í för með sér óverulegar breytingar á gjaldtöku í heild sinni.“

Síðan segir:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Aðalatriði málsins er að í heild sinni er verið að halda þessu innan þess ramma sem verið hefur en, vel að merkja, það er algerlega nauðsynlegt að stofnunin hafi möguleika á því, og þess vegna eru þessar gjaldtökuheimildir, að bregðast við þegar flugfélög okkar skrá nýjar vélar, að geta hlaupið til fyrirvaralítið og í því hefur sá kraftur sem flugfélögin eru að sýna í uppbyggingu verið falinn, að flugöryggissviðið hefur getað gripið inn í (Forseti hringir.) og sinnt þessari þjónustu fyrirvaralítið og með miklum ágætum.