133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. „Þetta eru einfaldlega vanefndir af hálfu ríkisstjórnarinnar á því sem lofað var,“ segir Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, á heimasíðu ASÍ í dag um það frumvarp sem hér á að fara að greiða atkvæði um. Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„„Ríkisstjórnin lofaði því í sumar við endurskoðun kjarasamninga, að tekið yrði á vanda þess fólks sem missir nú stóran hluta vaxtabóta sinna – eða jafnvel allar bæturnar – fyrir þær sakir einar að fasteignamat hækkar milli ára. … Niðurstaðan eins og hún stefnir í að verða er með öllu óviðunandi og kemur ekki til móts við vanda þeirra þúsunda sem nú fá skertar eða engar vaxtabætur. … Það er ekkert hægt að lýsa þessari niðurstöðu öðruvísi en svo að hér sé um hreinar vanefndir að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar“, sagði forseti ASÍ að lokum.“

ASÍ lagði upp með að íbúðarkaupendur yrðu nokkurn veginn jafnsettir og ef ekki hefði komið til hinna miklu hækkana á fasteignamati. Það er langt í frá að íbúðarkaupendur séu jafnsettir eftir þær breytingar sem hér á að gera að lögum.

Það er ástæða til að átelja einnig vinnubrögðin í þessu máli, samráðsleysið við ASÍ og að þeir séu ekki virtir svara um að fá nauðsynleg gögn í málinu til að geta lagt fram tillögur og hugmyndir að breytingum. Svona vinnubrögð hljóta að hafa eftirmála í samskiptum ASÍ og ríkisstjórnarinnar þegar ekki er hægt að treysta samkomulagi sem gert er við ríkisvaldið.

Við í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar tökum undir þær ákúrur sem ASÍ hefur sett fram á ríkisstjórnina. Við vísum allri ábyrgð á niðurstöðu þessa máls á ríkisstjórnina og áteljum harðlega að fjöldi fólks sem væntir leiðréttinga og greiðslu vaxtabóta muni annaðhvort fá litlar eða engar greiðslur á vaxtabótum í desember eins og lofað hafði verið.