133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:16]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Forseti. Við greiðum hér atkvæði um að lágmark eignaviðmiðunar, að frádregnum skuldum, til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað afturvirkt um 30%. Í meðförum nefndarinnar höfum við hækkað eignaviðmiðun úr 25 í 30% eins og fram hefur komið. Það skiptir miklu máli að við náum að greiða út bæturnar fyrir jól, en aðalatriðið er að við erum að auka útgjöld til vaxtabóta um 590 millj. kr. eða umfram verðlag. Það skiptir máli að við stöndum vörð um vaxtabótakerfið. Það hefur komið fram við meðferð þessa máls að fara þarf í endurskoðun á vaxtabótakerfinu til að vaxtabæturnar skili sér sannanlega til þeirra sem mest þurfa á að halda eða lágtekju- og millitekjufólks. Ég segi já, því að við verðum að tryggja fólki þessar bætur fyrir jólin.