133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:34]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir þremur árum hóf Umhverfisstofnun starfsemi eftir að stjórnarliðar samþykktu hroðvirknislega unnið frumvarp um hana. Alvarlegar athugasemdir og varnaðarorð Samfylkingarinnar þá eru öll að koma á daginn, svo sem að það væri óraunhæft með öllu að ekki fylgdi því kostnaður að steypa saman stofnunum, hvað þá fjórum. Ríkisendurskoðun segir að allt sem stefnt var að hafi meira og minna mistekist, stofnunin þjóni ekki tilgangi sínum.

Þetta er úttekt sem forstjóri stofnunarinnar óskaði sjálfur eftir vegna skorts á fjárveitingum til að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni var ætlað að sinna. Ríkisendurskoðun telur að auknar fjárveitingar hefðu átt að nýtast betur og að Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið hafi ekki haft sameiginlega sýn á forgangsröðun verkefna.

Á þeim þremur árum sem liðin eru frá stofnun Umhverfisstofnunar hafa þrír ráðherrar verið yfir málaflokknum. Það er ekki mikil samfella í nokkru þegar stöðugt er verið að skipta út konum í brúnni, konum sem hafa verið skiptimynt í valdatafli karlanna í ríkisstjórninni. Fyrir það háttalag hafa umhverfismálin og stofnunin liðið. Maður veltir því fyrir sér hvaða tilgangi það þjóni að hlusta hér á útlistingar nýjasta umhverfisráðherrans sem setið hefur stutt í stólnum og á eftir stuttan stans þar, enda voru svörin fátækleg ef nokkur.

Úttekt Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir Umhverfisstofnun en raunar frekar áfellisdómur yfir stjórnvöldum sem komu henni á án nauðsynlegs undirbúnings. Tíðar ráðherrahrókeringar eru lítilsvirðing við þann mikilvæga málaflokk sem umhverfismálin eru og hafa bitnað á honum. Um það vitnar þessi úttekt Ríkisendurskoðunar. Það á ekki að koma sökinni á ástandinu yfir á embættismenn, sem eflaust gera sitt besta við óviðunandi aðstæður, allri ábyrgð á stöðu mála hjá Umhverfisstofnun vísa ég á hæstv. ríkisstjórn.