133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:43]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis sem skoðar líka mál að ósk ráðherra eða stofnana. Ríkisendurskoðun er tæki fyrir þingmenn til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Hún skilar Alþingi úttektum og skýrslum, sem við ræðum eins og núna, en Alþingi tryggir ekki að úrbætur séu gerðar. Ég er að benda á að eftirfylgni skortir.

Þegar gagnrýni og krafa um úrbætur hefur komið fram til ráðherra eða ríkisstofnunar hlýtur Alþingi að þurfa að fá svör við því síðar hvað gert var með þær aðfinnslur. Alþingi á að geta metið hvort málinu sé á einhverjum tíma farsællega lokið. Oft lýkur því ekki, það er í skýrslu uppi í hillum þingmanna og óljóst hvernig með var farið. Því miður er undir hælinn lagt hvernig fyrirspurnum um úrvinnslu máls er svarað á Alþingi síðar. Nefndir þingsins, í þessu tilfelli umhverfisnefnd, ættu að mínu mati að fá það hlutverk að fylgjast með hvernig brugðist er við athugasemdum Ríkisendurskoðunar af viðkomandi ráðuneyti. Það er að mínu mati ófullnægjandi fyrir stofnun eins og Ríkisendurskoðun þar sem fólk hefur unnið af fullum krafti, jafnvel mánuðum saman, og skilað skýrslu sem afdráttarlaust gerir kröfur um úrbætur ef ekkert gerist síðan, og þess eru dæmi.

Þessi skýrsla er því miður ádeila og ég er þess vegna ósammála umhverfisráðherra. Hún er ádeila um vandamál sem snúa bæði að ráðuneytinu og Umhverfisstofnun, um verkefni og forgangsröðun, um að samspil skorti á milli fjárveitinga og verkefna, um skipulagsvanda og stjórnunarvanda, og hér þarf að taka á. En nefndir þingsins eiga að fá veigamikið hlutverk í eftirfylgni, að úttekt leiði til úrbóta.