133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:48]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu var Umhverfisstofnun stofnuð með sameiningu nokkurra ríkisstofnana, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, veiðistjóraembættisins og hreindýraráðs auk verkefna á sviði dýraverndunarmála. Markmiðin voru skýr í upphafi, og þau voru einföld í sjálfu sér eins og ævinlega þegar verið er að sameina stofnanir, þ.e. að einfalda og styrkja stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari og þar með auka réttaröryggi, að efla faglega þætti sem falla undir Umhverfisstofnun og stuðla að hagkvæmni í rekstri. Loks var talið að þessi sameining mundi auðvelda að ná fram stefnumiðum sem stjórnvöld hafa sett um framkvæmd umhverfismála.

Nú hefur það gerst að umhverfisráðuneytið óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun að embættið tæki út stjórnsýslu og fjárhagsumhverfi stofnunarinnar. Þetta var gert að beiðni forstjóra Umhverfisstofnunar. Mér finnst það eitt að stofnunin sjálf eða forstjóri hennar hafði frumkvæði um beiðni sem þessa skipta miklu máli og sýna þann vilja sem er þar á bæ. Í skýrslunni er bent á margt sem betur má fara og farið hefur verið yfir það hér af nokkrum hv. þingmönnum. Ég treysti hæstv. umhverfisráðherra fullkomlega til að vinna að framgangi þessara mála eins og gert er ráð fyrir og tillögur Ríkisendurskoðunar benda á að hluta. Mér finnst þetta einfaldlega vera verkefni sem þarf að vinna og ég treysti ráðherra til þess.