133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:52]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Eitt af því sem hv. málshefjandi hafði orð á í upphafsræðu sinni voru þvingunarúrræði Umhverfisstofnunar og mig langar að víkja að því í seinni ræðu minni. Ég tek fram að Umhverfisstofnun hefur samkvæmt lögum yfir að ráða þvingunarúrræðum í þeim tilvikum sem sú stofnun fer með beint eftirlit, með sama hætti og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga þar sem eftirlit fellur undir það.

Ég tel þvingunarúrræði Umhverfisstofnunar fullnægjandi. Það verður að hafa í huga að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fer með meginþunga eftirlits á sviði mengunar- og matvælamála og það er aðeins í örfáum tilvikum sem Umhverfisstofnun fer með beint eftirlit, en það varðar innflutningseftirlit með matvælum, eiturefnum og hættulegum efnum og eftirlit með ákveðinni meiri háttar starfsemi svo sem stóriðju. Hins vegar eru tæki Umhverfisstofnunar til þess að taka á málum ef heilbrigðiseftirlit stendur sig ekki lítil sem engin og það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að taka þurfi það mál sérstaklega til endurskoðunar og bent er á að jafnvel komi til greina að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að allt þetta eftirlit verði fært undir ríkið. Að sjálfsögðu þarf að kanna það mál í nánu samráði við sveitarfélögin.

Frú forseti. Ég vil fá að taka það fram vegna ræðu málshefjanda að ráðuneytið hefur lagt á það ríka áherslu að Umhverfisstofnun geti sinnt hlutverki sínu og starfsemin byggist upp í samræmi við þau markmið sem voru sett með stofnun stofnunarinnar árið 2003 og það mun verða gert m.a. á grundvelli þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir. Skýrslan gefur tilefni til þess að skoða betur ýmsa þætti og það var einmitt tilgangurinn með því að fara fram á úttektina að fá utanaðkomandi sýn á það sem betur má fara. Ég tel, frú forseti, að óþarft sé að hlaupa upp til handa og fóta og vera með gífuryrði eða sleggjudóma og það þjóni ekki hagsmunum þessarar stofnunar.