133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[17:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er einn af þeim alþingismönnum sem er hlynntur því að skattar séu allmiklir. Ég vil frekar greiða fyrir almannaþjónustuna í gegnum skattkerfið en beint sem einstaklingur. Ég vil frekar borga með sköttum fyrir heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustuna almennt en gera það í sjúklingagjöldum, skólagjöldum o.s.frv. Þess vegna staðnæmist ég að sjálfsögðu þegar ég sé þann tekjumissi sem hið opinbera verður fyrir.

Sé hins vegar um það að ræða að raða í forgangsröð skattkerfisbreytingum sem hafa ívilnanir í för með sér þá væri þessi breyting mjög ofarlega á lista hjá mér. Ég er hlynntur þessu máli en langar að gera grein fyrir sjónarmiðum mínum til þess og hvers vegna ég er hlynntur því.

Lífeyrisþegar sem borga í samtryggingarsjóði njóta ákveðinna ívilnana. Iðgjald til lífeyrissjóðs er þannig undanþegið skatti og að því leyti frábrugðið því sem gerist þegar við leggjum inn á bankareikning eða leggjum fé til hliðar á einkareikningum. Um nokkur ár var það fyrirkomulag að greiðslur úr lífeyrissjóðum nutu ákveðinna ívilnana en síðan var því breytt þannig að menn fóru í hinn endann og afléttu sköttum af iðgjöldum. Ég var mjög mótfallinn því á sínum tíma og benti m.a. á að þeir sem börðust fyrir þessum skattaívilnunum, sem var þá fullorðið fólk, eldri kynslóðin, nyti ekki ávaxtanna af baráttu sinni. Það væru hinir yngri sem kæmu til með að gera það. Ég styð þetta ekki á þeim forsendum að um tvísköttun sé að ræða eða annað af því tagi og hef efasemdir um mikinn samanburð við einkareikninga eða bankareikninga hvað þetta snertir.

Ástæðan fyrir því að ég er hlynntur þessari hugsun er sú að ég tel æskilegt að ívilna eldri borgurum, fullorðnu fólki og draga mörk á milli elstu kynslóðarinnar og hinnar yngri. Það er meginástæðan fyrir því að ég er þessu hlynntur. Í annan stað get ég sætt mig við ákveðna mismunun í þágu samtryggingarsjóða. Mér finnst ekki óeðlilegt að þeir búi við góðan kost. Þá horfi ég til þess og ítreka að ef maður leggur inn á bankareikning þá er sú greiðsla náttúrlega skattlögð, það eru tekjur sem hafa verið skattlagðar. Greiðslur sem fara inn í lífeyrissjóði eru undanþegnar skatti. Iðgjaldið er undanþegið skatti þannig að því er ekki alveg saman að jafna. Þar er hin ástæðan fyrir því að ég er hlynntur þessari hugsun, að mér finnst að samtryggingarlífeyrissjóður eigi að búa við ákveðna ívilnun.

Það sakar náttúrlega ekki að geta þess að ýmsir ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu, þar á meðal BSRB sem ég kem aðeins nærri, hafa ályktað í þessa veru. Samband lífeyrisþega innan BSRB hefur tekið málið til umfjöllunar og hefur lýst stuðningi við þessa hugsun. Þótt ég sé ekki í þessum stóli að tala sérstaklega fyrir hönd samtakanna þá vísa ég til þess að á nýafstöðnu þingi BSRB var samþykkt ályktun sem er í samræmi við þessa tillögu til þingsályktunar.