133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á nýafstöðnum fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sagði formaður flokksins og hæstv. iðnaðarráðherra í ríkisstjórninni m.a.:

„Mikið hefur verið rætt um ákvarðanir íslenskra stjórnvalda á sínum tíma um málefni Íraks. Þær byggðust á röngum upplýsingum, forsendurnar voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um staðfastar þjóðir var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás. Ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni ber ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd Alþingis. Við skulum tala hreinskilnislega um þetta, hvort sem einhver okkar tengdust þessu sjálf eða komu þar hvergi nærri.“

Lýkur þar tilvitnun í ummæli hæstv. iðnaðarráðherra, formanns Framsóknarflokksins. Hæstv. forseti. Þessi ummæli ber að taka alvarlega því að vonandi er þeim ekki ætlað að vera yfirklór í aðdraganda alþingiskosninga til þess eins að kaupa Framsóknarflokknum frið við kjósendur og fá þá til að gleyma framkomu flokksins og forsvarsmanna hans í þessu máli.

Nú hefur formaður Framsóknarflokksins tekið undir með stjórnarandstöðunni um að ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Alþingis og þar með íslensku þjóðarinnar hafi verið ólögmæt, það hafi verið ólögmætt af þeirra hálfu að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak. Þetta er mikilvæg yfirlýsing en við hana verður ekki skilið með þessu móti og ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til formanns Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðarráðherra sem er hér í salnum, hvort þetta mál hafi þegar verið tekið upp í ríkisstjórn og enn fremur spyr ég: Er formaður Framsóknarflokksins og Framsóknarflokkurinn reiðubúinn að styðja þá tillögu sem liggur fyrir þinginu um að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að (Forseti hringir.) ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjamanna og Bretlands í Írak 20. mars árið 2003?