133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:38]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Forseti. Orð formanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi okkar voru skýr. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór rétt með þau og aðrir ættu kannski að gera upp sína fortíð rétt eins og við gerum í þessu máli.

Það liggja fyrir allar staðreyndir sem máli skipta um hvernig þessi ákvörðun var tekin. Jafnframt liggur fyrir það álit lögfræðinga að sú ákvörðun þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra að styðja við innrásina í Írak hafi verið lögmæt. Það er ekki mitt að kveða upp úr með hvort nægilegt samráð hafi verið haft við utanríkismálanefnd og Alþingi í skilningi laga eða ekki en á hinu hef ég skoðun, og hún er sú að það hefði verið hyggilegt og rétt að hafa um þetta víðtækt pólitískt samráð við Alþingi og utanríkismálanefnd. (Gripið fram í.) Það voru a.m.k. pólitísk mistök í mínum augum að meira samráð var ekki haft þessa daga eftir þingfrestun nokkrum vikum fyrir kosningar 2003.

Hvaða lærdóm drögum við af þessari reynslu og hvernig bregðumst við við til að hindra að þessi atvik endurtaki sig í framtíðinni? Við drögum þann lærdóm að við þurfum að treysta þann grundvöll sem utanríkisstefna okkar byggir á. Sjálfstætt ríki sem rekur sjálfstæða utanríkisstefnu þarf fyrst og fremst að geta reitt sig á þekkingu innlendra stofnana og innlendra sérfræðinga og mat þeirra á innlendum hagsmunum við aðstæður sem þessar. Viðbrögð okkar eiga að vera þau að halda áfram þeirri efnislegu umræðu um þessi mál sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hóf á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Við eigum að leiða þá umræðu til lykta að íslensk utanríkisstefna taki aðeins mið af íslenskum veruleika, íslenskum hagsmunum og þeirri hefð sem er Íslendingum allra hefða dýrmætust, að hér býr þjóð sem fer með friði. Við þurfum að stíga ný skref í varnar- og öryggismálum okkar. Það er nauðsynlegt og gott að eiga nána vini og bandamenn í alþjóðlegu samstarfi en hversu góðir sem þeir eru og hversu náið sem samstarfið er getur sjálfstæð þjóð ekki framselt öðrum ábyrgð sína á vanda til eigin ákvarðana.