133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Innrásin í Írak var viðbjóðslegt glæpaverk sem kostað hefur hundruð þúsunda manna lífið. Hundruð þúsunda, ef ekki milljónir, búa við örkuml, milljónir eru á flótta, landið logar í borgarastyrjöld. Það er liðið þrjú og hálft ár.

Ég hef oft skoðað þetta mál, m.a. í gögnum Alþingis, og mig langar til að minna á það að í febrúar árið 2003 þegar rúmur mánuður var í innrás lagði þingflokkur Vinstri grænna fram þingsályktunartillögu. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem við á að leita skuli allra leiða til að afstýra innrás í Írak, þar á meðal að veita vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna nægan tíma til að ljúka störfum sínum. Komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skal Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né verði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum.“

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga fór inn í utanríkismálanefnd og sást ekki aftur. Meiri hlutinn í utanríkismálanefnd, og þar voru m.a. tveir hv. þingmenn sem sitja í salnum núna, báðir eru ráðherrar í dag, hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason og hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson, ætti kannski að gefa okkur skýringar á því hvernig stóð á því að þessi þingsályktunartillaga fékkst ekki rædd í þinginu þótt nægur tími væri til að gera það á þessum örlagaríku dögum í aðdraganda þessarar innrásar.

Hvað gerði það að verkum að málið fékkst ekki rætt á Alþingi þrátt fyrir einlægan vilja stjórnarandstöðuflokkanna til að gera það? Við hljótum öll, bæði við sem erum hér á þingi og íslenska þjóðin, að gera kröfu um það að við fáum skilyrðislaus svör við þessari spurningu.