133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:45]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt þegar menn tala hér í þessum þingsal eða á öðrum vettvangi eins og að Íslendingar hafi verið beinir aðilar að innrásinni í Írak. (Gripið fram í.) Það var auðvitað ekki þannig.

Hvaða ákvörðun var tekin hér fyrir Íslands hönd árið 2003? Hún var í nokkrum þáttum, hún var um að heimila lendingar og flug í íslenskri lofthelgi vegna þessara aðgerða sem er hefðbundin aðgerð og hefur oft verið heimiluð áður við svipaðar aðstæður. Hún var í öðru lagi sú að veita 300 millj. kr. til mannúðaraðstoðar í Írak og til enduruppbyggingar í kjölfar átaka. Hvaða aðili veitti þá fjárveitingu? Skyldi það ekki hafa verið Alþingi Íslendinga? Það var í fjáraukalögum árið 2003. 100 millj. fóru til mannúðaraðstoðar á árinu 2003 og 200 millj. hafa síðan runnið til endurbyggingarverkefna og síðasti hlutinn var í samstarfsverkefni með Össuri til stoðtækjanota í landinu.

Þetta eru þær ákvarðanir sem skiptu máli á árinu 2003. Síðan tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að amast ekki við því að Ísland væri á lista yfir hinar svokölluðu staðföstu þjóðir. (Gripið fram í.)

En Ísland hefur ekki átt beina aðild að þessu stríði og það vita auðvitað allir menn. Það er alveg furðulegt stærilæti í fólki sem telur að íslenska ríkisstjórnin eða Íslendingar skipti það miklu máli í alþjóðlegu samhengi og í sambandi við ákvarðanir af þessu tagi að það hafi haft einhver áhrif á atburðarásina sem þarna varð. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort á að kalla það stærilæti eða minnimáttarkennd (Gripið fram í.) en annað hvort er það, alveg eins og frammíköllin frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni bera vott um.