133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afgreiðsla mála fyrir jólahlé.

[10:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að ræða um stjórn fundarins og stjórn þinghaldsins fram undan. Gert er ráð fyrir því að þingi verði frestað í lok næstu viku, á föstudaginn í næstu viku. Fyrir þinginu liggur fjöldi mála. Okkur er sagt í þingnefndum að mörg þeirra verði að klára fyrir áramótin, þau verði að verða að lögum.

Við í stjórnarandstöðunni erum öll af vilja gerð til að ganga til samstarfs við stjórnarmeirihlutann um markvisst þinghald fram undan. Forsenda þess að svo geti orðið er að menn setjist yfir verkefnið, ríkisstjórnin forgangsraði þeim málum sem hún telur brýnast á þessari stundu að fá lögfest í þinginu.

Við höfum óskað eftir því, formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar, að ríkisstjórnin geri okkur grein fyrir því hvaða þingmál það eru sérstaklega sem hún leggur áherslu á. Við höfum engin svör fengið. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hvenær þess sé að vænta að við fáum niðurstöður í þessu efni.