133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afbrigði um dagskrármál.

[11:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er verið að leggja það fyrir þingið að veita afbrigði fyrir hinum svokallaða matarskatti. Hér er um að ræða mál sem hæstv. ríkisstjórn kynnti strax í upphafi þings að hún hygðist leggja fram. Síðan hefur hún haft allmargar vikur til að færa það í þingtækan búning. Það hefur hins vegar ekki tekist fyrr en í gær þegar þetta mál var lagt fram á útbýtingarfundi. Tilskilinn frestur er ekki liðinn til þess að hægt sé að taka þetta mál á dagskrá. Það er því ekki hægt að ræða þetta mál nema til komi atbeini stjórnarandstöðunnar.

Við höfum lýst því yfir í stjórnarandstöðunni að við erum reiðubúin til þess að rétta fram hönd sátta til þess að hægt verði að ljúka þinghaldi hér á skikkanlegum tíma, og til að undirstrika þann sáttavilja munum við í Samfylkingunni og fleiri í stjórnarandstöðunni greiða því atkvæði okkar að þetta mál verði tekið á dagskrá hér á eftir. Með því undirstrikum við í fyrsta lagi það sem við höfum áður sagt að í þessu máli er margt jákvætt en í öðru lagi undirstrikum við vilja okkar til að ná samstöðu með ríkisstjórninni um að hægt verði að ljúka hér þinghaldi á skikkanlegum tíma. Þessi afstaða okkar er því til staðfestingar.