133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afbrigði um dagskrármál.

[11:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það kemur nokkuð á óvart að hæstv. ríkisstjórn komi með þetta mál svo seint sem raun ber vitni og enn meira á óvart að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki hafið neinar viðræður við stjórnarandstöðuna, eða forseti þá sem verkstjóri slíkra hluta rætt neitt um það hvernig eigi að haga þinghaldinu næstu daga. Ef ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að fá þetta mál afgreitt fyrir jól — sem í sjálfu sér er engin knýjandi nauðsyn á að gera vegna þess að það á ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. mars nk., ef ég veit rétt, og er ekki með neinum beinum hætti tengt áramótunum þannig að þess vegna mætti í sjálfu sér alveg lögtaka það í janúar eða febrúar nk. — ætti hæstv. ríkisstjórn, áður en hún t.d. ætlast til þess að stjórnarandstaðan fari að styðja hér að þetta mál komi á dagskrá með afbrigðum, að sjá til þess að menn væru eitthvað farnir að reyna að kortleggja þingstörfin og hvernig þinginu megi ljúka hér á tilsettum tíma, 8. desember nk.

Nú liggur það fyrir að ýmislegt er við það miðað að þingi ljúki þá, m.a. störf þingnefnda, þannig að það mun skapa mikil vandræði ef ekki verður hægt að standa við þá áætlun. Væntanlega er það ætlun forseta og allra sem að málinu koma að svo verði. Í ljósi þess, frú forseti, að ríkisstjórnin leggur ekkert á sig í þessum málum og hefur ekki beðið um neinar viðræður um þessa hluti finnst mér að stjórnarliðar geti bara sjálfir séð um þessi afbrigði sín.