133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við sundurliðun 2 sem samtals nema 377,8 millj. kr. til hækkunar. Auk þess eru gerðar breytingartillögur við 4. gr. frumvarpsins.

Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

Hæstv. forseti. Ég vísa til þeirra breytingartillagna sem hefur verið dreift hér og eru á sérstöku þingskjali. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Birkir J. Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Drífa Hjartardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Dagný Jónsdóttir og Ásta Möller.

Hæstv. forseti. Við 2. umr. fjáraukalagafrumvarpsins kom skýrt fram að meiri hluti nefndarinnar taldi að hann þyrfti meira svigrúm til að fara sérstaklega yfir málefni heilbrigðisráðuneytisins á milli 2. og 3. umr. Tillögur meiri hluta nefndarinnar bera þess merki að við höfum tekið málefni heilbrigðisráðuneytisins sérstaklega til skoðunar og leggjum til að útgjöld til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva verði aukin um 200 millj. kr. á milli umræðna til að mæta greiðsluvanda þeirra stofnana. Jafnframt leggjum við til viðbótar 360 millj. af ónotuðum fjárheimildum til öldrunarstofnana en það er ofan á 500 millj. sem komu frá tillögum ríkisstjórnarinnar við 2. umr. fjáraukalaga.

Hæstv. forseti. Við leggjum mikla áherslu á að þær tillögur sem við höfum lagt fram til að koma til móts við fjárhagsvanda heilbrigðisstofnana, öldrunarstofnana og dvalarheimila í landinu skipta mjög miklu máli. Staðreyndin er sú að margar af þessum stofnunum hafa glímt við ákveðinn greiðsluvanda og það hefði verið mjög erfitt fyrir þessar stofnanir sem sinna svo mikilvægu hlutverki að fara yfir áramót með mikinn skuldahala sem hefði þá leitt það af sér að viðkomandi stofnanir hefðu fljótlega lent í miklum greiðsluerfiðleikum sem hefðu aftur leitt það af sér að þær stofnanir hefðu þurft að greiða dráttarvexti og vanskilagjöld eins og við þekkjum. Það hefur að sjálfsögðu gríðarlega mikil áhrif á rekstur viðkomandi stofnana og því mjög brýnt að koma til móts við þær.

Gerð er grein fyrir því í þingskjalinu hvernig þessum fjármunum er skipt á milli einstakra heilbrigðisstofnana, öldrunarstofnana og dvalarheimila. Við áttum ágætt samstarf í meiri hluta nefndarinnar við starfsmenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í þessari vinnu og það sem hér er lagt fram hefur verið unnið í samvinnu við starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Við 3. umr., lokaumræðu fjáraukalaga fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir því að tæpum 378 millj. kr. verði varið til hækkunar. Þar af leiðir að afgangur ríkissjóðs frá árinu 2006 verður u.þ.b. 44,6 milljarðar og við skilum þar með ríkissjóði með miklum afgangi. Við verjum jafnframt heilmiklum fjármunum aukalega til velferðarkerfisins og til þess að bæta hag almennings í landinu. Í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs er mikið ánægjuefni að geta afgreitt fjáraukalög ársins 2006 með svo miklum afgangi sem raun ber vitni.

Hæstv. forseti. Þar með hef ég lokið máli mínu.