133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:18]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar en auk mín eru á þessu áliti hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Ellert B. Schram, Jón Bjarnason og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Virðulegi forseti. Við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að útgjöld ríkisins verði enn aukin um tæplega 380 millj. kr. að viðbættum þeim rúmlega 19 milljörðum sem þegar hafa verið samþykktir eftir 2. umr. Að stærstum hluta er um að ræða 200 millj. kr. framlag til að mæta rekstrarhalla ýmissa heilbrigðisstofnana. Þá eru einnig millifærðar 360 millj. kr. af fjárlagaliðnum Öldrunarstofnanir, almennt sem er nr. 08-401, á ýmis hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir, einnig til að mæta rekstrarhalla. Verður það að teljast nýbreytni að óskað sé sérstaks samþykkis í fjáraukalögum til að millifæra fjárheimildir með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess að í ríkisreikningi er gerð sérstök grein fyrir millifærslum fjárheimilda innan ársins og þarf 10 blaðsíður í reikningnum til að gera grein fyrir þeim öllum. Sjálfsagt væri full þörf á því að fjárlaganefnd yrði gerð nánari grein fyrir ýmsum millifærslum þar. Fjöldi millifærslnanna sýnir svo ekki verður um villst að á liðnum árum hefur myndast sérstakt fjárveitingavald innan framkvæmdarvaldsins sem rýrir þá yfirsýn sem nauðsynlegt er að Alþingi hafi yfir fjárveitingar.

Frú forseti. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er nú gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins 2006 verði tæpir 45 milljarðar kr. en fjárlög ársins 2006 gerðu ráð fyrir tekjujöfnuði að fjárhæð tæplega 20 milljörðum kr. Tekjujöfnuðurinn hefur því ríflega tvöfaldast á árinu og nú er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði tæplega 380 milljarðar kr. sem er 13,3% hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Gjöldin eru nú áætluð tæplega 335 milljarðar kr., 6,2% meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Gera má ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs verði meiri en hér er áætlað vegna þess að fjölmargar stofnanir eiga í rekstrarvanda sem ekki hefur verið tekið á af hv. Alþingi og benda bráðabirgðatölur til þess að mun fleiri stofnanir hafi um mitt ár 2006 verið komnar 10% fram úr fjárheimild en voru í lok árs 2005. Það er líka sérkennilegt að þurfa að horfa upp á það ár eftir ár hvernig fjáraukalögin eru notuð til að bæta tilteknum stofnunum uppsafnaðan rekstrarhalla en ekki er bætt úr rekstrarhalla annarra. Sumar stofnanir virðast eiga mun greiðari aðgang að fjáraukalögum en aðrar. Leiðréttingarnar eru því tilviljanakenndar og ekki að sjá að fylgt sé neinum reglum í þeim efnum.

Frú forseti. Eitt af stærstu vandamálunum við fjárlagagerð undanfarinna ára er skortur á upplýsingum um fjárhagsstöðu stofnana ríkisins, bæði þeirra sem eiga við rekstrarvanda að stríða og hinna sem virðast alltaf hafa nægt fé milli handanna. Er þetta m.a. gert að umtalsefni í nefndaráliti sem sömu hv. þingmenn stóðu að en var nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr. um fjáraukalögin.

Í greinargerð með frumvarpi til fjárreiðulaga er sérstaklega fjallað um tilgang fjáraukalaga. Segir þar m.a. að með frumvarpinu sé mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga. Þannig er gert ráð fyrir því að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög snerust þannig fyrst og fremst um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar eftir atvikum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.“

Ef litið er til síðustu ára kemur í ljós að aldrei hefur verið gengið um lokafjárlög og fjárlög á þann hátt sem lögin gera ráð fyrir.

Í 7. gr. fjárreiðulaganna segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra skal leggja endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins árs fyrir Alþingi eigi síðar en tveimur vikum eftir að þing kemur saman að hausti.“ — Þá segir enn fremur í 45. gr. að, með leyfi forseta, „með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., [skuli] fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar“.

Nú er liðinn nær einn og hálfur mánuður frá því að leggja átti fram frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2005 en hvergi bólar á því. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að ríkisreikningur fyrir árið 2005 kom út í júlí á þessu ári og því hefði átt að vera nægur tími til að leggja frumvarpið fram.

Lokafjárlögin eru mjög mikilvæg. Þar á að leita heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar á milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem farið hafa fram úr fjárheimildum ársins. Enn fremur skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs. Þessu er ekki fylgt nú fremur en áður.

Það er athyglisvert að þau lokafjárlög sem lögð hafa verið fram á undanförnum árum hafa ekki efnislega uppfyllt ákvæði fjárreiðulaganna. Þetta höfum við gagnrýnt í stjórnarandstöðunni á hverju einasta ári. Þar hefur m.a. hvorki verið gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum né veittar skýringar á geymdum fjárheimildum. Það má því velta því upp hvort frumvarp sem efnislega uppfyllir ekki skilyrði þeirra laga sem það byggir á sé tækt til þinglegrar meðferðar á Alþingi.

Það eru önnur atriði sem eru mikilvæg þegar kemur að umfjöllun um frumvarp til fjáraukalaga. Má þar t.d. nefna að aldrei er þess getið í skýringum hvort útgjöld sem leitað er heimilda fyrir séu þegar til fallin eða hvenær áætlað sé að þau falli til. Hins vegar hefur það gerst að leitað hefur verið eftir heimildum til útgjalda í fjáraukalögum þar sem beinlínis er tekið fram í skýringum að meginþungi útgjaldanna falli ekki til fyrr en á næsta ári. Þetta eru auðvitað ekki tæk vinnubrögð samkvæmt fjárreiðulögunum.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi um atriði sem ekki eiga heima beinlínis í fjáraukalögum. Ég vil í fyrsta lagi nefna að það vekur athygli að það er óskað eftir 15 millj. kr. framlagi vegna athugunar á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og á Reykjavíkurflugvelli. Það kemur fram í skýringum að með fjáraukalögum 2005 voru veittar 18 millj. kr. til verkefnisins en það vekur líka athygli að þetta viðfangsefni er hvorki í fjárlögum ársins 2006 né í fjárlögum ársins 2005 en fær aukafjárveitingu bæði árin. Þetta mál ætti með öllu eðlilegu að hafa komið inn í fjárlög á þessum árum en ekki sem viðbótarfjárveiting.

Þá vil ég í öðru lagi nefna að óskað er eftir 150 millj. kr. framlagi til að standa undir hlutdeild ríkissjóðs í áföllnum kostnaði vegna undirbúnings að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Þetta viðfangsefni hefur beinlínis verið falið í heimildargreinum fjárlaga undanfarinna ára og samið um útgjöld sem aldrei hafa komið til efnislegrar meðferðar í fjárlaganefnd.

Þá vil ég í þriðja lagi nefna að lagt er til að veitt verði 120 millj. kr. viðbótarframlag á nýju viðfangsefni undir fjárlagaliðnum 02-982, Listir og framlög, til að standa straum af útgjöldum við menningarsamninga. Hér er gott dæmi um ný útgjöld sem ekki eiga heima í fjáraukalögum. Þau eru ekki ófyrirséð þar sem þau byggja á meðvitaðri ákvörðun um gerð þessara samninga. Eðlilegast hefði verið að ræða þá í umræðu um fjárlög fyrir árið 2007.

Frú forseti. Annað dæmi sem ég vil nefna er að landbúnaðarráðuneytið óskar eftir 354,5 millj. kr. framlagi til að styrkja byggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála sem reistir verða í samvinnu við hestamannafélög. Frú forseti. Þetta eru án efa ágæt verkefni en þetta eru ekki ófyrirséð útgjöld þar sem ákvörðunin lýtur að styrkjum til þessara félaga og hefði auðvitað átt að kynna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007.

Fleira mætti nefna sem dæmi um fjárveitingar sem ranglega eru tilfærðar í fjáraukalögum og vil ég nefna líka að t.d. er óskað eftir 1.000 millj. kr. framlagi vegna umferðaröryggis á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða framkvæmdir sem munu bæta verulega umferðaröryggi, eins og segir í frumvarpinu. Svo mörg voru þau orð. Ekki er gerð nánari grein fyrir þessum framkvæmdum, hvort þær séu hafnar, hvenær áætlað sé að þeim ljúki og hvort öll útgjöldin falli til á þessu ári. Það má líka nefna að það er lagt til að Fjarskiptasjóður fái 500 millj. kr. á árinu 2006 í stað ársins 2007. Þá vil ég spyrja: Hvaða kostnaður hefur fallið til og mun falla til núna til áramóta sem veldur því að það þarf að færa þessar 500 millj. frá fjárlögum 2007 yfir á árið 2006?

Þá má líka nefna lið sem fellur á aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins, 10 millj. kr., vegna vinnu við gerð frumvarps um fjölmiðla vegna þess að kostnaðurinn hefur verið umfram það sem getur talist eðlilegt að aðalskrifstofan geti borið enda var kostnaðurinn ekki allur fyrirséður. Virðulegur forseti. Það má vel vera að þetta hafi verið ófyrirséð atvik en það verður að skýra fyrir okkur hvernig „eðlilegt“ er skilgreint í þessu samhengi. Ekki koma nægilegar útskýringar með frumvarpinu.

Hins vegar má segja að það er staðreynd að umræður um fjáraukalög vekja oft minni athygli en umræðurnar um fjárlögin. Því er kannski meiri freisting að koma ýmsum málum í gegnum fjáraukalögin en í gegnum fjárlög. Það er ómögulegt að meta ágæti fjárlaga út frá umfangi fjáraukalaga einna og sér. Til þess þarf mun meiri upplýsingar, t.d. frumvarp til lokafjárlaga fyrra árs, skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrstu níu mánuði fjárlagaársins og áætlun um útkomu til áramóta. Án þessara upplýsinga verða bæði fjárlög og fjáraukalög hálfgerð eylönd án innbyrðis tengingar, án upphafs og án endis.

Það hefur margoft komið fram í álitum minni hluta fjárlaganefndar í gegnum árin að hvergi meðal hinna vestrænu ríkja þekkist að framkvæmdarvaldið komist upp með að umgangast fjárlög með þeim hætti sem hér tíðkast. Lítil sem engin virðing er borin fyrir fjárlögum og sú ábyrgð og sú vandvirkni sem nauðsynleg er við framkvæmd þeirra er ekki til.

Þess vegna hafa öll fjárlög þessarar ríkisstjórnar verið marklaus plögg, málamyndagerningar sem leiða af skyldu hverrar ríkisstjórnar til að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Sitjandi ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi hefur ekki viljað gera bót á þeim slælegu vinnubrögðum sem meiri hlutinn hefur vanið sig á. Það verður því verkefni, frú forseti, nýrrar ríkisstjórnar að skapa þann aga og þá festu sem nauðsynleg er í ríkisfjármálum.

Ég hef nú lokið því að gera grein fyrir minnihlutaáliti úr fjárlaganefnd. Eins og fyrr segir rita undir það ásamt þeirri er hér stendur hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Ellert B. Schram, Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Bjarnason.

Frú forseti. Áður en ég lýk máli mínu er atriði sem ég vil taka hér upp vegna þess að í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir 90 millj. til vaxtabóta til viðbótar þeim 200 millj. sem þegar hafa verið samþykktar eftir 2. umr. Þessi upphæð er tilkomin vegna samkomulags sem var gert í sumar, þ.e. ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í tengslum við endurskoðun kjarasamninganna og lofaði því að leiðrétta skerðingu á vaxtabótum sem stór fjöldi heimila í landinu varð fyrir vegna hækkunar á fasteignamati.

Frú forseti. Ég tel rétt að gera þetta mál að örlitlu umtalsefni hér vegna þess að það er auðvitað til algjörrar skammar hvernig á því máli hefur verið haldið. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði ágætlega grein fyrir afstöðu okkar þegar málið var hér til umræðu fyrir helgi en ég tel rétt að koma inn á það núna vegna þess að hér er lögð til hækkun á framlaginu sem er nú þegar alveg ljóst að er ekki nándar nærri nóg. Ríkisstjórnin brýtur samkomulagið sem gert var við ASÍ í sumar. Það var um það rætt að haft yrði samráð við ASÍ um þessar leiðréttingar. Það hefur ekki orðið, og hefur forusta ASÍ margoft gert grein fyrir því og fullyrt að frumvarpið sem samþykkt var hér fyrir helgi, að viðbættum þessum 90 millj. sem hér koma til, sé einfaldlega vanefndir af hálfu ríkisstjórnarinnar á því sem lofað var. Það segir Grétar Þorsteinsson m.a. í yfirlýsingu sem er finna á vef Alþýðusambands Íslands. Þar segir hann að ríkisstjórnin hafi lofað því í sumar við endurskoðun kjarasamninga að tekið yrði á vanda þess fólks sem missti stóran hluta vaxtabóta sinna eða hreinlega allar bæturnar fyrir þær sakir einar að fasteignamatið hafði hækkað á milli ára.

Frú forseti. Ekkert annað hefur breyst í lífi þessa fólks en það að fasteignamatið hækkaði. Það hefur ekkert meira á milli handanna og það gerði ráð fyrir þessum vaxtabótum við áætlanagerð sína. Það er alveg ljóst að þessar 290 millj. sem núna koma inn til viðbótar eru ekki nóg til að mæta þessum gríðarlegu skerðingum sem þetta fólk varð fyrir. Fjöldi heimila í landinu gerir ráð fyrir bótum vegna loforða ríkisstjórnarinnar í sumar um að leiðrétta þessar skerðingar, fólk gerði hreinlega ráð fyrir því að fá leiðréttingu á þessum vaxtabótum fyrir jól. Það fólk verður fyrir miklu áfalli vegna þess að mjög margir munu ekki fá þessa leiðréttingar. Það eru aldeilis kaldar kveðjur sem þessu fólki eru sendar héðan af hinu háa Alþingi.

Það á þó ekki að koma á óvart, frú forseti, að menn skeri vaxtabæturnar hér niður vegna þess að það er það sem þessi ríkisstjórn hefur markvisst gert á undanförnum árum, og hér sjáum við enn eina birtingarmynd þess.

Frú forseti. Það kemur mér á óvart og það hryggir mig að Framsóknarflokkurinn sé stokkinn á þann vagn með Sjálfstæðisflokknum að eyðileggja vaxtabótakerfið. Þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins standa hér í þessum ræðustól og halda því fram að þeir séu í velferðarríkisstjórn veit ég ekki á hvaða plánetu þeir búa. Velferðarríkisstjórn gerir ekki svona. Hún kemur ekki aftan að heimilunum í landinu eins og verið er að gera hér. Þetta eru engar smáupphæðir, frú forseti, þessar upphæðir geta hlaupið hátt í mánaðarlaun eftir skatt hjá lágtekjufólki í landinu.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með þessa niðurstöðu hjá ríkisstjórninni en segi jafnframt að hún kemur mér ekki á óvart vegna þess að við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið hlynntur þessu vaxtabótakerfi. Hafa deildir innan þess stjórnmálaflokks beinlínis ályktað gegn því þannig að það kemur ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn fari þá leið að eyðileggja vaxtabótakerfið. En að Framsóknarflokkurinn skuli hoppa á vagninn svona auðveldlega með Sjálfstæðisflokknum hryggir mig og sýnir manni að það er ekkert að marka hin stóru orð framsóknarmanna þegar á hólminn er komið, þegar þau eru komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þá lúffa þau í einu og öllu til þess að halda sínum sex ráðherrastólum. Þá er öllum prinsippum varpað fyrir róða.

Frú forseti. Þegar fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, setti á laggirnar fjölskyldunefnd til að skoða stöðu fjölskyldnanna í landinu var blásið í herlúðra og sagt að núna ætti að fara að skoða hag fjölskyldunnar í heildarsamhengi. Þá verð ég að segja, frú forseti, að ef þessar skerðingar á vaxtabótunum eru fjölskyldustefna Framsóknarflokksins krefst ég þess að hv. þingmenn komi hér upp og greini frá því hvað þeir ætli að gera fyrir heimilin í landinu. Það að setja á laggirnar fjölskyldunefnd til að skoða heildstætt mál fjölskyldunnar er eingöngu yfirklór yfir stórfelldan niðurskurð á framlögum til heimilanna í landinu.

Frú forseti. Það hefur verið með hreinum ólíkindum að fylgjast með því á þessu kjörtímabili hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur skorið niður með markvissum hætti vaxtabætur til heimilanna í landinu. Vil ég þá nefna að í rauninni má segja að þeir hafi ævintýralegt hugmyndaflug í þeim efnum. Þá vil ég í fyrsta lagi nefna að sífellt lægri hluti eftirstöðva skulda er lagður til grundvallar við útreikning vaxtabóta. Árin 2003 og 2004 miðuðust vaxtabætur við 7% af eftirstöðvum skulda. Árið 2005 var þetta hlutfall lækkað í 5,5% og síðan í 5% á þessu ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á ekki að ganga nema til hálfs við að vinda ofan af þessari skerðingu og þá á að miða við 6%.

Í öðru lagi voru einungis greidd um 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004, og 95% árið 2005. Þá komum við að því að í þriðja lagi hefur húsnæðisverð hækkað mjög mikið á tímabilinu og langtum meira en eignaviðmið til útreiknings vaxtabóta hefur gert ráð fyrir sem stóð í stað milli áranna 2005 og 2006.

Frú forseti. Ég krefst þess að fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar komi hér í eitt skipti fyrir öll upp í þennan ræðustól og segi okkur frá því hvað þeir ætla sér með vaxtabótakerfið. Þessi niðurskurður bitnar mjög harkalega á heimilunum í landinu og ekki síst fólki með lágar tekjur og millitekjur og þá helst líka ungu fólki með gríðarlega þunga framfærslubyrði sem missir vaxtabæturnar. Þarna er komið aftan að fólki og við hljótum að krefjast þess að hv. þingmenn sem standa að þessum skerðingum og hafa samþykkt þær á þessu kjörtímabili geri grein fyrir því hvað þeir eru að fara með vaxtabótakerfinu.

Frú forseti. Hver einn og einasti fasteignareigandi sem hefur fengið vaxtabætur finnur það á framlögunum á hverju einasta ári hvernig þau hafa verið skert. Þegar einstaklingarnir fara í íbúðarkaup gera þeir ráð fyrir þessum vaxtabótum og þá er mjög mikilvægt að það liggi fyrir hvernig á að reikna þær út hverju sinni en þessi ríkisstjórn kemur aftan að fólki með alls kyns æfingum og skerðingum sem koma mjög illa niður á þessum hópi.

Frú forseti. Ég verð að nefna það hér að þessi ríkisstjórn hefur markvisst skert framlög til vaxtabóta og má nefna það að á næsta ári, miðað við það fjárlagafrumvarp sem fyrir liggur hér í þinginu, verða útgjöld til vaxtabóta 226 millj. kr. lægri en þau voru árið 2003 að krónutölu. Sé tekið mið af þróun vísitölu neysluverðs frá árinu 2003 til september 2006 eru áætluð útgjöld vegna vaxtabóta tæplega milljarði króna lægri á næsta ári en þau voru árið 2003.

Þegar þessi ríkisstjórn gerir upp þetta kjörtímabil, hvernig hún hefur staðið sig, og stendur frammi fyrir heimilunum í landinu stendur þetta eftir, milljarður í skerðingu á vaxtabótum.

Frú forseti. Þetta eru kaldar kveðjur frá ríkisstjórninni. Þetta er þó staðreynd og þetta er sú staðreynd sem blasir við heimilunum í landinu þegar við göngum til kosninga í vor. Þá er eins gott líka að hv. þingmenn Framsóknarflokksins fari rétt með en komi ekki með aumt yfirklór eins og þeir eru að gera í Íraksmálinu núna. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Þá vil ég í lokin segja að það eru ansi kaldar kveðjur sem ríkisstjórnin sendir Alþýðusambandi Íslands sem fer fyrir stærstum hópi launafólks í landinu. Það eru heldur kaldar kveðjur þegar samkomulag sem gert var í sumar er brotið með þessum hætti. Það verður að segja að svona vinnubrögð hljóta að hafa eftirmála og áhrif þegar það kemur hér berlega í ljós í þessu máli að ekki er hægt að treysta samkomulagi sem Alþýðusamband Íslands gerir við ríkisvaldið. Það er grafalvarlegt mál þegar svo er. Það mun án efa hafa einhverjar afleiðingar. Auðvitað verða aðilar vinnumarkaðarins að geta treyst yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín um þetta öllu fleiri en ég tek undir gagnrýni sem komið hefur frá Alþýðusambandi Íslands og ég átel það mjög harðlega að fjöldi fólks sem væntir þess að fá leiðréttingar á vaxtabótum vegna þess að því var lofað í yfirlýsingum í sumar muni væntanlega fá engar eða mjög litlar leiðréttingar á greiðslum vaxtabóta núna fyrir jólin.

Þetta tel ég mjög alvarlegt mál, frú forseti, og gat ekki látið hjá líða að nota tækifærið til að segja um það nokkur orð í þessum stóli þegar við erum að afgreiða þessa smánarlegu viðbót, þessa pínulitlu viðbót, þessa örflís til viðbótar vaxtabótunum.

Ég vænti þess, frú forseti, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins muni þurfa að standa frammi fyrir kjósendum í vor og svara þeirri spurningu hvers vegna flokkurinn sem lofaði því að hér ætti að efla stöðu fjölskyldunnar og styrkja hana kemur svo aftan að fólki með milljarði í skerðingu á vaxtabótunum á kjörtímabilinu. Ég tel að hv. þingmenn, sérstaklega Framsóknarflokksins, skuldi heimilunum í landinu skýringar á þessu vegna þess að það er staðreynd að ekkert hefur komið út úr þessari fjölskyldunefnd og það eina sem gerist hér í þinginu er að það er kroppað í tekjur fjölskyldnanna, ekki síst ungu barnafjölskyldnanna sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið.