133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er leitt til þess að vita að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir skuli ekki vera betur að sér um barnabótakerfið en svo að hún viti ekki að núverandi ríkisstjórn hefur staðið að breytingum sem miða að því að sjö ára börn og yngri fái ótekjutengdar barnabætur. Það er leitt til þess að vita að hv. þingmaður skuli ekki vita það en þannig eru svokölluð barnakort sem hv. þingmaður talaði um að sjálfsögðu að hluta til komin til framkvæmda.

Í annan stað nefndi hv. þingmaður að hún áttaði sig ekki á því hvert Framsóknarflokkurinn stefndi í vaxtabótakerfinu. Ég bendi hv. þingmanni á fjárlagafrumvarp fyrir árið 2007 þar sem gert er ráð fyrir að vaxtabætur verði rúmir 5,5 milljarðar kr. Þær eru á þessu ári, á fjárlögum ársins í ár, 5,1 milljarður kr. Nú er verið að bæta þar í um 300 millj. kr. Stefnan er sú að við erum að auka við vaxtabæturnar.

Hins vegar getur hv. þingmaður fundið heppilegt ártal til þess að bera sig saman við. Við getum farið aftur til ársins 1991 ef við viljum eða ársins 1997. Menn velja sér alltaf hentug viðmið. (Gripið fram í.) Ég vil benda hv. þingmanni á að í fjárlögum fyrir árið 2007 aukum við verulega til vaxtabótakerfisins og hvað barnabæturnar varðar vil ég minna á að á árunum 1991–1995 var kjararýrnun í samfélaginu. Hvað gerði ríkisstjórn kratanna þá? Jú, hún skerti barnabæturnar, sló Íslandsmet í að skerða barnabætur. Tölurnar tala sínu máli.

Kaupmáttur er að aukast hér á landi. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir getur reynt að halda því fram að við séum á annarri leið en kaupmáttur fjölskyldnanna er aukast, það eru miklar skattalækkanir fram undan og mikil kaupmáttaraukning. Við ætlum að halda áfram á þeirri leið. En ekki veit ég, hæstv. forseti, hvert hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vill stefna í þeim efnum.