133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 við 3. umr. Ég held að aldrei verði of oft farið í gegnum það hvert er lögformlegt hlutverk fjáraukalaga. Ég hef reyndar flutt þessa ræðu held ég við hverja umræðu um fjáraukalögin um það hvernig eigi að nota fjáraukalög og hvaða lögformlega stöðu þau hafa. Mín skoðun er sú að meðferð og beitingu fjárreiðulaga hafi hrakað undanfarin ár. Við erum æ meir að færast yfir í svokölluð ráðherrafjárlög, þ.e. að ráðherrarnir, ríkisstjórnin og einstök ráðuneyti taka sér fjárveitingavald, ákveða útgjöld og ákveða málaflokka sem eru jafnvel í uppáhaldi hjá þeim og síðan er það fjárlaganefndar svo sem að fara í gegnum það eftir því hvernig atvikast en þingið stimpli ákvarðanir sem ráðherrarnir hafa í rauninni löngu ákveðið.

Í lögum um fjárreiður ríkisins er kveðið á um hvernig fara skuli með ákvarðanir á útgjöldum, hvernig þær eru ákvarðaðar og hvernig fjárlögum er síðan framfylgt. Þar er líka skýrt kveðið á um hver hin lögformlegu verkaskipti framkvæmdarvaldsins og Alþingis eru hvað varðar meðferð fjármuna ríkisins og þeirra ákvarðana sem Alþingi tekur. Að sjálfsögðu er hin lagalega hlið þannig að það er Alþingi sem á að hafa lögformlegt ákvörðunarvald og ráðherrarnir eiga að fara eftir þeim ákvörðunum en þetta virðist hafa snúist við. Þetta virðist í æ fleiri atriðum hafa snúist við þannig að það eru ráðherrarnir sem taka ákvarðanirnar og Alþingi er síðan notað til þess að stimpla þær.

Tökum t.d. meðferð fjáraukalaga. Eins og við þekkjum eru fjárlög samþykkt fyrir næsta ár. Við stöndum nú frammi fyrir að samþykkja fjárlög fyrir árið 2007, þau eru að koma núna inn til 3. umr. og komu í byrjun desember. Það eru fjárlög íslenska ríkisins gagnvart árinu 2007. Við fengum reyndar frumvarp til fjárlaga ekki hér inn í þingið fyrr en í byrjun október. Á þingsetningardag var fjárlagafrumvarpinu dreift á þinginu. Þremur dögum seinna áttum við að taka það til efnislegrar umræðu á þinginu. Þessu var reyndar dreift til fulltrúa í fjárlaganefnd sem trúnaðarmáli í upphafi þingsetningardags, það er það fyrsta sem þingið fær að sjá af frumvarpinu. Síðan á að taka það til efnislegrar umræðu þremur dögum seinna, og sér hver heilvita maður að þó að þingmenn séu upp til hópa miklir andans atgervismenn er það samt ofætlan að halda að þeir geti almennt sett sig inn í þessi mál til hlítar á þremur dögum þannig að hægt sé að taka eðlilega efnislega umræðu áður en málið fer til fjárlaganefndar þar sem frumvarpið er meðhöndlað. En tíminn er skammur því að 2. umr. fer gjarnan fram um mánuði eða innan við mánuði síðar og svo 3. umr. einum og hálfum mánuði eða tveimur mánuðum síðar. Þinginu er því á tveimur mánuðum ætlað að afgreiða fjárlögin á þennan hátt. Þetta eru náttúrlega alveg óþolandi vinnubrögð.

Í haust kom fjárlaganefnd danska þingsins í heimsókn til okkar. Þegar við lýstum fyrir þeim þeim vinnubrögðum sem hér tíðkuðust við svokölluð ráðherrafjárlög, þ.e. þegar ráðherrarnir ráða og Alþingi er bara afgreiðslustofnun að stórum hluta fyrir ráðherrana, þá blöskraði dönsku þingmönnunum. Þeir sögðu að slík vinnubrögð mundu ekki líðast þar. Þar er fjárlagafrumvarp kynnt mönnum og fjárlaganefnd tveimur mánuðum fyrir þingbyrjun og fer þá í gang vinna og gagnasöfnun af hálfu fjárlaganefndar. Þegar því er dreift á þinginu eru þingmenn undirbúnir undir efnislegar umræður í þinginu og síðan fer það aftur í vinnslu. Vinna þingsins með fjárlagafrumvarp, þá á ég við alls þingsins, stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna, tekur því a.m.k. um hálft ár. Hér er þessu rubbað af. Enda sjáum við hvernig afraksturinn verður.

Frumvarpi til fjáraukalaga er einungis ætlað að taka á skyndilegum atriðum sem koma upp innan ársins, sem alltaf geta gerst, enda segir í lögum um frumvarp til fjáraukalaga sem við erum að fjalla um, í 43. grein, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Síðan koma forsendurnar:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.“ — Valdi ófyrirséð atvik.

„Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana en getur í 1. mgr. skal jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.“

Það er ósköp skýrt kveðið á um þetta. Ég vildi gjarnan heyra ábyrgðaraðilana, formann og varaformann fjárlaganefndar, hv. þingmenn Birki Jón Jónsson, fyrir hönd Framsóknarflokksins, og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, fara yfir það hvernig þeim finnist þeim lögum hafa verið framfylgt þegar við erum að meðhöndla fjáraukalögin. Hefur lögum verið framfylgt um að aðeins skuli koma með á fjáraukalög heimildir fyrir því ef upp koma ófyrirséð atvik? Eða ef Alþingi hefur samþykkt lög í millitíðinni sem kveða á um útgjöld, gerðir hafa verið kjarasamningar sem ríkið er aðili að, sem krefst breytinga? Aðrar heimildir eru ekki á fjáraukalögum sem slíkum. En þetta virðist vera allt öðruvísi nú.

Þess vegna skiptir máli að fjárlögin sjálf séu mjög vel unnin. Lítum aðeins á hvernig þetta var fyrir ári þegar við vorum að afgreiða fjárlög fyrir þetta ár. Veltum fyrir okkur vinnubrögðunum.

Tökum Háskólann á Akureyri. Fyrir lá að fjárveiting til Háskólans á Akureyri væri allt of lág, það lá fyrir þá. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn Frjálslynda flokksins fluttum tillögu á Alþingi fyrir ári um að bæta þyrfti a.m.k. 100 millj. kr. inn í rekstrargrunn Háskólans á Akureyri, það lægi alveg fyrir. Það var fellt. Þingmaður Norðausturkjördæmisins, Birkir Jón Jónsson, honum þótti jú leitt að geta ekki orðið við þessu, en þetta lá alveg fyrir.

Ekki vildum við á miðju ári stöðva Háskólann á Akureyri, ekki vildum við það. Þá er komið með á fjáraukalögum núna að hækka fjárveitingar til Háskólans á Akureyri um nánast þær upphæðir sem við lögðum til fyrir ári. Svo koma þingmenn, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og hæla sér af því að hafa hækkað þessi framlög og þetta sé ofboðslegt góðverk. Þetta eru slæm og léleg vinnubrögð. Þetta lá allt fyrir þá.

Við skulum taka fleiri dæmi, Landspítala – háskólasjúkrahús. Fyrir lá fyrir ári að það fjármagn sem veitt var þá á fjárlögum þessa árs til Landspítala – háskólasjúkrahúss væri allt of lágt miðað við að sjúkrahúsið ætti að halda óbreyttri starfsemi, það lá alveg fyrir. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingmenn Samfylkingar og þingmenn Frjálslynda flokksins lögðum til á Alþingi fyrir ári að fjárhagsgrunnur Landspítala – háskólasjúkrahúss fyrir árið 2006 yrði hækkaður um a.m.k. 1 milljarð kr. Það var fellt af þingmönnum Framsóknarflokksins og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta lá samt alveg fyrir.

Hvað gerist nú við fjáraukalög? Jú, auðvitað varð að koma til móts við rekstrarvanda Landspítala – háskólasjúkrahúss og nú er lagður til 1 milljarður kr. á fjáraukalögum þessa árs til að gera það. Það lá fyrir fyrir ári síðan. Svo koma hv. þingmenn og segja: Ofboðslegt góðverk erum við að gera, að veita 1 milljarði meira til Landspítala – háskólasjúkrahúss en var á fjárlögum ársins. Þeir ættu frekar að skammast sín fyrir léleg vinnubrögð og biðjast afsökunar á vinnubrögðum sínum (Gripið fram í: Nei.) því að þetta lá allt fyrir. Slík vinnubrögð eru ekki einu sinni lagalega heimil.

Svona getum við rakið hvert dæmið á fætur öðru um hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn fer á svig við lög í fjárlagaafgreiðslunni.

Framhaldsskólarnir. Fyrir ári síðan lá fyrir að 250–300 millj. kr. þyrfti til viðbótar til framhaldsskólans, það lá fyrir. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins fluttum um það tillögu að slík upphæð kæmi inn á fjárlög ársins eins og eðlilegt var og allt lá fyrir. Nei. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins felldu það fyrir ári síðan. Þetta lá fyrir. Á öllum tillögum frá menntamálaráðuneytinu og frá framhaldsskólanum lá fyrir að fjármagn vantaði inn í framhaldsskólann á þessu ári. Lögum samkvæmt átti að verða við þeirri beiðni, nema þá að lögin kvæðu á um að það yrði eitthvað skorið niður, að stofnunum yrði skipað að skera niður. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2006 fór meiri hlutinn því ekki að lögum.

Í fjáraukalagafrumvarpinu núna erum við náttúrlega eðlilega tilneydd til að koma með nákvæmlega þær fjárupphæðir inn í rekstur framhaldsskólans, en það lá fyrir. Svo koma þeir hv. þingmenn, Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar og hæla sér af því að vera að bæta þarna í, vera að gera þarna góðverk. Vissulega má segja að það sé góðverk að draga þarna í land það sem löngu var vitað en þarna er verið að fara á svig við lög. Þarna er ekki verið að fara í raun að lögum um fjárreiður ríkisins. Þarna er verið að fara eftir handahófskenndum vinnubrögðum við fjárlagagerð.

Ég get nefnt fleiri slík dæmi sem við munum nú heyra og höfum heyrt í ræðum í haust, sérstaklega hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, formanni fjárlaganefndar, þar sem verið er að hæla sér af því verið sé að auka fjármagn til hinna og þessara verkefna á fjáraukalögum, verkefna sem nánast öll voru fyrirsjáanleg fyrir ári síðan, nánast öll sem þingmenn stjórnarandstöðunnar bentu á, annaðhvort í einstökum nefndum eða hér á þingi, fluttu um það tillögur að fjárlögin eins og þau lágu fyrir gætu ekki staðist. Þær tillögur voru hins vegar felldar þá, þó að allt væri ljóst.

Nú koma þessir þingmenn og hæla sér af því að hafa verið neyddir til að draga stofnanir og verkefni að landi, af því að fjárlögin voru röng og þau voru röng frá byrjun. Þeir ættu frekar að skammast sín og biðjast afsökunar á lélegum vinnubrögðum við fjárlagagerðina frekar en að vera að hæla sér af lélegum vinnubrögðum, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur gert, hæla sér af því að hafa staðið gegn því eða ekki fylgt því eftir og neitað að samþykkja fyrir ári auknar fjárveitingar til Landspítala – háskólasjúkrahúss sem þá lágu fyrir, hæla sér svo af því í dag að koma með sömu upphæð.

Það verður aldrei lag á fjárlagagerð íslenska ríkisins með þeim vinnubrögðum sem við höfum nú staðið frammi fyrir, hvorki í ár né á undanförnum árum með þessu ráðherraríki og þingmenn ríkisstjórnarinnar lyppast niður á Alþingi fyrir kröfum ráðherranna. Það er það sem við erum að sjá þegar verið er að kynna þetta fjáraukalagafrumvarp.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt það til að öll fjárlagavinnan verði endurskoðuð, það gangi ekki svona vitleysisgangur eins og við upplifum hér. Hann gengur hvorki upp gagnvart því að hér sé haldið uppi eðlilegri stjórnsýslu og utanumhaldi um fjármál ríkisins, um gjöld og tekjur, né gagnvart stofnununum. Ég hef lagt til gjörbreytingu á þessu, að grunnforsendur fjárlaga verði lagðar fram að vori, það verði eitt síðasta verk vorþings að ríkisstjórnin leggi fram ákveðnar grunnforsendur fjárlagafrumvarps síns fyrir næsta ár. Sú vinna væri í gangi. Um hana gæti verið tekin ein prinsippumræða um vorið þar sem ræddar væru forsendur og áherslur fjárlaga fyrir næsta ár. Síðan kæmi það aftur til vinnslu seinni parts sumars og nefndin sjálf fengi frumvarpið til vinnslu og meðferðar, Alþingi yrði styrkt hvað varðar efnahagslega ráðgjöf, stofnuð yrði efnahagsskrifstofa Alþingis sem væri sjálfstæð og óháð framkvæmdarvaldinu. Þingmenn og nefndir gætu notið styrks þessarar efnahagsskrifstofu til þess að undirbúa og fara yfir á eigin forsendum einstaka þætti sem lúta að fjárlagagerðinni. Við höfðum Þjóðhagsstofnun á sínum tíma sem hafði hluta af þessum verkefnum. Einhvern tíma kom hún ekki með rétta spá eða réttar niðurstöður fyrir yfirvaldið, og í samræmi við gerræðislegar ákvarðanir þessarar ríkisstjórnar líkaði forsætisráðherra ekki umsögn Þjóðhagsstofnunar vegna þess að hún laut ekki beint boðvaldi hans og ríkisstjórnarinnar og Alþingis — og hún var lögð niður. Flutt var frumvarp á Alþingi þar sem meiri hluti þingmanna náttúrlega lúffaði eins og alltaf, meiri hluti ríkisstjórnarinnar, og Þjóðhagsstofnun var lögð niður, eina tækið sem Alþingi hafði þá til að leggja mat á fjárlagaforsendur á eigin grunni.

Ég ætla ekki að gera lítið úr efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, hún er sjálfsagt hið besta mál, en það er greinilegt að fjármálaráðuneytinu veitir ekki af enn betri ráðgjöf hvað fjármálastjórn ríkisins varðar. Hún er fyrst og fremst hluti af framkvæmdarvaldinu, hluti af fjármálaráðherra sem leggur svo sín mál inn í þingið. Við vitum alveg hvernig framkvæmdarvaldið vinnur. Það er í sjálfu sér engin ráðgjafarnefnd fyrir Alþingi. Þetta tel ég vera mestu grundvallarþörf sem við þurfum að bregðast við, styrkja Alþingi þannig að Alþingi geti á eigin forsendum unnið fjárlagafrumvarp, lagt mat á efnahagsforsendur og gjaldaforsendur í miklu ríkari og betri mæli en við núna höfum möguleika til, ekki síst þegar við höfum meiri hluta sem gerir lítið annað en að hlýða boðvaldi ráðherranna.

Ég hef lagt til að við komum með fjáraukalagafrumvarp að vori, þá sé farið yfir hvaða breytingar hafi orðið yfir veturinn, hvaða frumvörp hafi verið samþykkt til breytinga á gjöldum. Þá má endurskoða tekjuáætlun ef þannig er. Eitt síðasta verk þingsins að vori væri að yfirfara fjárlög ársins og koma með nauðsynlegar breytingar sem þarf að gera og það sé þá þingið sem taki þá ákvörðun þannig að framkvæmdarvaldið geti fylgt henni eftir. Síðan komi þá fjáraukalagafrumvarpið aftur að hausti.

Sjáið hvað þetta er vitlaust og löglaust, það er að koma desember og við erum að fjalla um heimildir til viðbótarútgjalda á þessu ári og það er einn mánuður eftir. Við erum að fjalla um milljarðaútgjöld sem hafa að sjálfsögðu dreifst á þetta ár. Skuldbindingar vegna þeirra hafa dreifst á þetta ár. Fjárlög næsta árs verða afgreidd eftir viku. Meginhluti af því sem hér er verið að taka ákvörðun um hefði annaðhvort átt að tilheyra fjárlögum næsta árs eða verið ákveðinn með fjárlögum á sínum tíma. Umgengni stjórnvalda, ríkisvalds og meiri hluta fjárlaganefndar, og meiri hluta Alþingis sérstaklega sem styður þessa ríkisstjórn, um fjármál ríkisins finnst mér ekki boðleg. Ég ítreka það að í mörgum dráttum er farið á svig við lög um fjárreiður ríkisins, enda hefur Ríkisendurskoðun — sem er ein af fáum stofnunum sem enn fær að starfa óháð á vegum Alþingis — ítrekað bent á að framkvæmd fjárlaga sé ekki alltaf lögum samkvæmt. Ekkert hefur hins vegar verið gert til bóta.

Ég get þess vegna, frú forseti, ekki annað en farið í þetta í byrjun til að alþingismenn átti sig á því þegar hv. formaður fjárlaganefndar lýsir fjálglega að hér sé lagt til til viðbótar, og til viðbótar þar, á fjáraukalögum, allt vafalaust hin bestu verkefni eða að meginhluta, en að meginhluta verkefni og fjármagn sem var vitað um og átti að koma inn á fjárlög þegar þau voru samþykkt fyrir ári. Við vitum það öll hér. Samt hefur meiri hlutinn ekki döngun í sér til að fylgja því eftir að þannig sé unnið og lúffar fyrir ráðherravaldinu í þeim efnum.

Það er þó alveg skylt að geta þess sem gott er í þessu sambandi. Við höfum tekið þessa orðræðu í fjárlaganefndinni. Í umfjöllun einstakra nefndarmanna eru menn meira sammála um þessa grunnnálgun sem reynist þó erfitt að koma yfir í reynd. Ég vil sérstaklega nefna hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem hefur þó helst, bæði í nefndinni og á Alþingi, tjáð sig um að vinnubrögðin séu ekki ásættanleg. Og ég met það. Þess vegna tel ég eitt hið brýnasta mál þegar við nú ræðum hér þessi fjáraukalög, síðustu fjáraukalög þessarar ríkisstjórnar — vonandi kemur hún aldrei aftur — að fara yfir vinnubrögðin og hverju þarf að breyta og hvað ný ríkisstjórn, laus við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, mun þá hafa sem sín höfuðmarkmið. Ég mun leggja það til að Alþingi verði styrkt og því gert kleift að vinna betur á eigin forsendum að þessum fjárlagamálum en nú er.

Ef hv. þm. Birkir Jón Jónsson fer aftur að hæla sér af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn gerir við fjáraukalagafrumvarpið get ég lesið upp tillögurnar sem við fluttum fyrir ári. (Gripið fram í.) Þá getum við lesið upp tillögurnar sem við fluttum við fjárlagaafgreiðsluna fyrir ári sem hv. þingmenn felldu en sem nú koma að stórum hluta hér inn. Ég held að við ættum að huga að því að þetta eru fyrst og fremst dæmi um léleg vinnubrögð sem við erum að takast á við.

Ég ætla að fara, frú forseti, í nokkra þætti í þessu frumvarpi. Ég ætla fyrst að velta upp málefnum sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnananna. Má ég rifja upp í því sambandi að þegar við afgreiddum fjárlög fyrir ári mótmælti ég því að fjárlögin yrðu afgreidd út úr nefnd vegna þess að það var ekki tekið á fjárhagsvanda öldrunarheimila, hjúkrunarheimila og margra heilbrigðisstofnana. Ég lét bóka það sérstaklega þá. Ég man líka að ég krafðist þess að frumvarpið yrði tekið í nefnd fyrir 3. umr. til að taka á málefnum þessara stofnana. Því var hafnað af þessum ríkisstjórnarmeirihluta þó að það væri vitað að það vantaði hundruð millj. kr. inn í rekstrargrunn þessara stofnana, hjúkrunarheimilanna, öldrunarheimilanna, margra heilbrigðisstofnana, og þannig afgreiddi meiri hlutinn þetta mál fyrir ári með gríðarlegu fjárhagslegu gati og fjárvöntun fyrir þessar stofnanir, enda hefur þetta verið eitt aðalumræðuefnið í sumar og tekist á um fjárhagsvanda hjúkrunarheimila og öldrunarheimila. Allt þetta lá fyrir í fyrra en ekki var tekið á því.

Það lá því ljóst fyrir að það yrði að koma til einhver bragarbót á málefnum þessara stofnana við afgreiðslu á fjáraukalögum. Það var ekki hægt að láta stofnanirnar ganga fram óbreyttar. Það verður að segjast að tillögurnar sem ríkisstjórnin kom með í fjárlaganefnd hvað fjárhagsvanda þessara stofnana varðaði voru ekki burðugar. Örfáar stofnanir voru teknar út úr og kynntar við 2 umr. fjáraukalaga eins og við munum eftir. Það virtist hafa verið beitt handahófskenndri aðferð um það að þessi stofnun skyldi fá eitthvað, skuldir skyldu klipptar af þessari stofnun en ekki hinni, það virtist fullkomlega handahófskennd aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar, bar meira keim af framboðs- eða prófkjörsmálum einstakra ráðherra en að tekið væri á málaflokknum í heild.

Það var þó samhljóða álit fjárlaganefndar við 2. umr. fjáraukalaga að við svo búið mætti ekki standa. Að því áliti stóðu saman bæði meiri hluti og minni hluti hvað það varðaði að ekki gengi það upp eins og ríkisstjórnin ætlaði að gera tillögur um að afgreiða hjúkrunarheimili, öldrunarheimili og heilbrigðisstofnanir í landinu. Það eru örfá skipti sem það hefur opinberast innan fjárlaganefndar að meiri hluti og minni hluti hafa sagt að svona lagað gengi ekki þegar ríkisstjórnin ætlaði að skilja mikinn fjölda og meginþorra heilbrigðisstofnana og öldrunarheimila, sérstaklega á landsbyggðinni, eftir með mikinn skuldahala og rekstrargrunn sem engan veginn var í takt við skuldirnar. Lengra náði að vísu samstarfið ekki þannig að meiri hlutinn kemur nú við 3. umr. með nokkra leiðréttingu á skuldum þessara heilbrigðisstofnana en þó er fjarri því að á málunum sé tekið. Þetta er meira yfirklór en að á málefnunum sé tekið. Ég vil láta meiri hlutann njóta sannmælis, að þarna sé viðleitni, en því fer fjarri að á vandanum hafi verið tekið.

Hvaða þýðingu hefur það að láta stofnanir fara með halla yfir næstu áramót, að burðast með halla þegar vitað er að þær hafa enga möguleika á að greiða þann halla upp af einhverjum framlögum ríkisins til almenns rekstrar? Sérstaklega hefur Heilbrigðisstofnunin á Akranesi verið í umræðunni og ég ætla að gera hana að umtalsefni á eftir, bara sem dæmi. Það er hægt að taka fleiri, en Heilbrigðisstofnunin á Akranesi er stofnun sem hefur verið í mjög góðum rekstri og með öfluga starfsemi. Fyrir ári gerði hún samning um sértækar liðskiptaaðgerðir, stofnun sem býr yfir mikilli fagþekkingu og möguleikum. Á síðasta ári og þessu hefur hins vegar rekstrargrunnur hennar ekki staðið undir starfseminni sem þar hefur verið. Ekki vegna þess að stjórnunin þar sé eitthvað verri, síður en svo, það er viðurkennd góð stjórnun, heldur vegna þess að rekstrargrunnurinn og framlög af hálfu ríkisins eru ekki í takt við starfsemina sem hún hafði þó beðið um og við vorum sammála um að skyldi veitt.

Núna er lagt til að hallinn verði minnkaður um 10 millj. kr. þó að vitað sé að hann er um 40 millj. Við höfum allar tölur upp á það. Við höfum líka sannfærst um að reksturinn sé í góðu lagi, starfsemin líka o.s.frv. Ef eitthvað er vildum við frekar færa þangað aukin verkefni en hitt. Þeir sem hafa komið á sjúkrahúsið á Akranesi ættu að geta verið sammála um það. En þá er afgreiðslan sú að í staðinn fyrir að taka á þessum málum eins og raunveruleikinn kallar á eru í þessu frumvarpi veittar 10 millj. kr. til að lækka skuldir Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi þótt vitað sé að hallinn er tæpar 40 millj.

Svona er það með fleiri heilbrigðisstofnanir sem við fjöllum hér um. Tekinn er hluti af uppsöfnuðum halla en þær látnar áfram bera halla sem verður þeim að fótakefli í frekari rekstri. Ekki viljum við fara að skera þá starfsemi niður, eða er það?

Mig langar til að ræða aðeins betur um sjúkrahúsið á Akranesi. Dæmið þar er svo hróplega ósanngjarnt. Ég er með frétt hérna úr Skessuhorninu frá 6. janúar 2006 og í henni stendur, með leyfi forseta:

„Samið um 18 biðlistaaðgerðir á Akranesi.

Jón Kristjánsson heilbrigðismálaráðherra hefur gert samning við Heilbrigðisstofnunina á Akranesi um 18 biðlistaaðgerðir á árinu 2006. Er það hluti af samningi við fjórar heilbrigðisstofnanir um 600 aðgerðir. Samningurinn er gerður til að stytta biðtíma sjúklinga sem bíða eftir tilteknum læknisaðgerðum og stofnanirnar sem í hlut eiga eru Landspítali – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, St. Jósefsspítali í Hafnarfirði og Heilbrigðisstofnunin Akranesi.“

Þarna er byggð upp sérhæfð þekking til að takast á við liðskiptaaðgerðir en þegar kemur að fjármagninu til að halda úti þessari starfsemi er annað upp á teningnum. Er að furða þótt bæjarstjórnin á Akranesi hafi óskað samhljóða eftir fundi með fjárlaganefnd aftur til að skoða þessa meðferð. Samkvæmt frétt í Skessuhorninu 29. nóvember sl. er staðan svona, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn Akraness óskar fundar með fjárlaganefnd vegna SHA.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða í gær að fela forseta bæjarstjórnar að hafa forgöngu um að óska eftir fundi ásamt yfirmönnum Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar (SHA) á Akranesi með formanni og varaformanni fjárlaganefndar Alþingis á næstu dögum. Á fundinum verði farið fram á að endurskoðuð verði sú ákvörðun fjárlaganefndar að veita ekkert af fjáraukalögum til SHA.“

Á Akranesi eins og á mörgum öðrum stofnunum er mikill metnaður. Þarna hafa félagasamtök verið að gefa tæki. Nýlega voru Lionsklúbbarnir, að mig minnir í Borgarfirði og á Akranesi, að gefa sjúkrahúsinu tæki til að styrkja samkeppnisstöðu og möguleika sjúkrahússins. Það var líka verið að safna fyrir sneiðmyndatæki til að gefa á sjúkrahúsið á Akranesi og ég held að það sé komið. En þegar við heyrum frá fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins segja þeir: Nei, við viljum ekki að það sé neitt sneiðmyndatæki sem kalli bara á aukinn rekstur.

Manni er spurn: Eigum við ekki að taka þessa heilbrigðisumræðu um leið og við tökum hér fjárlagaumræðu heilbrigðisstofnananna? Það er í peningum sem stefnan skýrir sig. Það dugar ekkert að skrifa undir samninga sem síðan er ekki staðið við, heldur haldið aftur af fjárveitingum.

Tökum sem dæmi, af því ég þekki svo vel til, heilbrigðisstofnanirnar á Hvammstanga og Blönduósi. Þar var skorið niður. Á árinu 2005 var skorinn niður reksturinn til beggja stofnananna, um 6 millj. kr. á Hvammstanga og um 12 millj. á Blönduósi, reyndar 5 millj. á Patreksfirði. Ég þekki vel til á þessum stofnunum.

Ég gagnrýndi þetta þá mjög hart sem varð til þess að veittar voru úr potti ráðuneytisins árið 2005 til þess að lina þessar svokölluðu hagræðingarkröfur 2 millj. til Hvammstanga og 8 millj. til Blönduóss upp í þessar 12 millj. sem voru skornar af. En árið 2006 var þessi niðurskurður látinn koma til framkvæmda að fullu. Ég minnist þess að fyrir ári þegar við ræddum fjárlög fyrir þetta ár gagnrýndi ég þetta og spurði hvort þetta ætti að vera raunin, hvort þetta væri sú sparnaðar- og hagræðingaraðgerð sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir, að skera niður framlög til lítilla sjúkrahússtofnana eins og á Hvammstanga, Blönduósi og Patreksfirði, og reyndar Bolungarvík þá líka.

Þá sagði þáverandi formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson — ég hef það ekki hér alveg orðrétt — en hann mótmælti því að þessi niðurskurður væri í gangi og vísaði til þess að á vegum heilbrigðisráðuneytisins væru óskiptir liðir sem ættu að renna til þessara stofnana og að þessi niðurskurður kæmi ekki til framkvæmda. Það hefur ekki staðist. Þessi niðurskurður er kominn til framkvæmda. Fyrir árið 2006, miðað við fyrir tveimur árum síðan, óverðbætt, er búið að skera niður á Hvammstanga um 6 millj. og á Blönduósi um 12 millj. Menn taka enga umræðu um hvort þetta sé vilji Alþingis en hann speglast svo sem í því þegar meiri hlutinn samþykkir þetta.

Svo kemur mönnum á óvart þegar þessar stofnanir safna halla. Ef menn vilja endurskilgreina þjónustuhlutverk þessara heilbrigðisstofnana ættu þeir ekki að byrja að taka þá umræðu áður en peningarnir eru skornir niður? Hvammstangi hefur t.d. sóst eftir því að fá ákveðin sérverkefni og hefur verið veitt vilyrði fyrir því. Hins vegar hafa engir peningar komið. Á Blönduósi var tekin í notkun endurhæfingarstöð sem vitað var að mundi krefjast fjármagns. Þangað hafa engir peningar komið.

Svona getum við farið, frú forseti, hringinn í kringum landið þar sem gengið er á þessar litlu stofnanir. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, hefur lýst því, a.m.k. í fjárlaganefnd, að hann sé ekki sammála þessum vinnubrögðum. Engu að síður er þetta veruleikinn og við höfum lýst yfir óánægju þar. Ég er alveg heiðarlegur og segi að hv. þingmaður hefur gert það.

Raunveruleikinn er eins og einhver maskína sem gengur yfir. Það eru þessar litlu stofnanir, hvort sem það er elliheimili eða heilbrigðisstofnanir úti um land, sem verða að taka á sig stefnu ríkisstjórnarinnar um að skera niður þjónustu. Þó að í þessu fjáraukalagafrumvarpi sé komið að nokkru til móts við þessar stofnanir með því að skera af þeim uppsafnaðan halla sem allir vissu fyrir að mundi safnast upp þegar fjárveitingar voru skornar niður — það vissu allir — hefur Alþingi samt keyrt í gegn niðurskurð gagnvart heilbrigðisstofnunum eins og ég nefndi hér, á Hvammstanga, Blönduósi, Bolungarvík og Patreksfirði. Svo lengi sem þær eru látnar bera stöðugan niðurskurð — er ekki gerð hagræðingarkrafa á þær núna til viðbótar? — geta þær ekki annað en safnað halla eða skorið niður þjónustu. Viljum við það? Viljum við að þessar stofnanir skeri niður þjónustu sína? Ég vil það ekki.

Það er mjög fróðlegt þess vegna, frú forseti, að fara yfir þennan lista sem við höfum hér, um það hvað er lagt til hinna einstöku heilbrigðisstofnana í fjáraukalagafrumvarpi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson formaður fjárlaganefndar montaði sig af að væri verið að gera núna. Það lá fyrir fyrir ári síðan. Það væri miklu nær og réttara að setja þessa peninga inn í rekstrargrunn stofnananna en að pína þær og hengja þær upp og láta þær þjást með skuldahala eins og hér er áfram gert.

Þegar við heyrum fleiri stjórnarþingmenn hæla sér af því hvað lagt sé til á fjáraukalögum til að skera af halla þessara stofnana, sem er í sjálfu sér gott mál, minni ég á að það var það allt saman fyrirsjáanlegt. Þetta er aðeins hluti af vandanum og ætti að koma inn á fjárlög en ekki inn með þessum hætti.

Það verður þess vegna fróðlegt að sjá við afgreiðslu fjárlaga, við 3. umr. hvað kemur inn í rekstrargrunn þessara stofnana til að þær haldi ekki áfram annaðhvort að safna halla eða skera niður þjónustu. Ég hef upplýsingar um það að t.d. á Akranesi vantar að lágmarki 40–50 millj. kr. inn í rekstrargrunn sjúkrahússins á Akranesi til að halda þar óbreyttri starfsemi. Það væri fróðlegt að sjá hvort það kemur inn í fjárlög fyrir næsta ár. Ég veit að þessa stöðu vantar áfram, a.m.k. þessar 12 millj. kr. inn í rekstrargrunn Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi.

Það verður fróðlegt að sjá hvort það kemur inn í rekstrargrunn þessara stofnana við 3. umr. fjárlagafrumvarps. Hið sama er um stofnunina á Hvammstanga. Aðrir þingmenn geta rakið fjárhagsstöðuna hjá Heilbrigðisstofnuninni á Húsavík, á Austurlandi o.s.frv. Þótt hér sé látið að nokkru í standa þær áfram eftir.

Frú forseti. Það er ýmislegt fleira sem má velta fyrir sér hvað standi út af. Af því að það er svo gott að finna það vil ég nefna stofnun sem heitir Veiðimálastofnun. Hún er mjög mikilvæg, hefur eftirlit með vatnalífríki landsins og stundar rannsóknir. Hún aflar gagna til leiðbeiningar um umgengni og nýtingu á ferskvatnsfiski. Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var alveg ljóst að rekstrargrunnur hennar var með þeim hætti að hún þurfti aukið fjármagn í rekstur sinn. Við vissum það. Það var tekist á um þetta í fjárlaganefnd og í landbúnaðarnefnd. Allir nefndarmenn vissu að rekstrargrunnurinn gengi ekki upp. Samt fékkst ekki tekið á málum fyrir ári síðan. Stofnunin er með lögboðin verkefni sem hún getur ekki vikið sér undan að vinna og má ekki lagalega víkja sér undan.

Það er því visst fagnaðarefni að nú skuli vera skorinn af henni þessi uppsafnaði halli og henni þannig gert mögulegt að starfa áfram hvað það varðar. Við höfum ótal gögn og upplýsingar um mikilvægi stofnunarinnar, um möguleika hennar, rannsóknir í ám og vötnum, rannsóknir á veiðinýtingu, rannsóknir varðandi fiskeldi, gagnagrunn, lífríki og umhverfi vatna. Auk þess er komin krafa, þjónustutilskipun Evrópusambandsins vegna þess að við þurfum að geta rannsakað og staðfest efnainnihald og stöðu ferskvatns hér á landi. Þetta vitum við allt. Þetta lá fyrir fyrir ári síðan, við hefðum getað sett það beint inn í rekstrargrunn stofnunarinnar en sem betur fer kemur þetta núna inn á fjáraukalög en átti að koma inn fyrir ári síðan. Það er því í sjálfu sér fagnaðarefni.

Eitt langar mig til að spyrjast fyrir um sem við höfum fengið upplýsingar um og ekki er tekið á í fjárlagafrumvarpinu. Á fundi með þingmönnum Norðvesturkjördæmisins í Varmahlíð 23. október 2006 komu sveitarstjórnarmenn með nokkur atriði sem þeir vildu ræða við þingmenn. Eitt af því var veiðar á ref og mink og kostnaðarþátttaka ríkisins í þeim efnum. Það er kveðið á um í lögum að sveitarfélögin eru ábyrg fyrir að halda niðri fjölda refa og minka og þau eru skyldug til þess samkvæmt lögum. Flest reyna þau að gera það eins og lög kveða á um. En það er líka kveðið á um að ríkið skuli vera þátttakandi í kostnaðinum og það er kveðið á um hver viðmiðunarþátttaka ríkisins skuli vera, mig minnir að hún sé 40%, ég man það ekki alveg nákvæmlega. En það eru komin mörg ár síðan ríkið hefur staðið við þá kostnaðarhlutdeild þannig að æ stærri og þyngri hluti þessa sameiginlega verkefnis hefur fallið á viðkomandi sveitarfélög.

Sveitarfélögin eru misstór. Sum eru með gríðarleg landflæmi en fátt fólk hlutfallslega þannig að það að halda uppi eftirliti og veiðum á ref og mink er kannski eitt af stærri verkefnum og útgjaldaverkefnum sumra sveitarfélaga. Þarna bregst ríkið. Ég sé hvergi í þessum tillögum fjáraukalaga að verið sé að kom til móts við þessa greiðsluskyldu ríkisins sem ekki er efnd, þ.e. að ríkið greiði sinn hlut í eyðingu refa og minka eins og kveðið er á um.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkið ætti alfarið að bera ábyrgð á að eyða minknum. Minkurinn er aðskotadýr í íslenskri náttúru, hann var fluttur hingað inn á ábyrgð ríkisins á sínum tíma. Loðdýrarækt er sjálfsögð atvinnugrein og núorðið er svo um búið að minkar sleppa ekki lengur út. En sá minkur sem er í íslenskri náttúru í dag er kominn til vegna aðgerða stjórnvalda og það ætti ekki að leggja það á einstök sveitarfélög að bera meginþorrann af kostnaðinum við að halda útbreiðslu hans niðri. Ríkið ætti að mínu mati eitt að bera ábyrgð á kostnaði við að halda niðri og helst eyða minknum úr íslenskri náttúru.

Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Hvað er sett til viðbótar til sveitarfélaganna eða til þess að greiða hlut ríkisins í eyðingu refa og minka? Einn stærsti liður margra sveitarfélaga er kostnaður við þetta verkefni sem þeim er lögum samkvæmt skylt. Í minnispunktum frá sveitarstjórnarmönnum í Skagafirði kemur fram að endurgreiðsla ríkisins vegna refa hafi einungis numið rúmlega 22% fyrir tímabilið 1. september 2005 til 31. ágúst, en mig minnir að það eigi að vera um 40%. Sama hlutfall er með mink. Ég veit að hv. þingmenn, bæði varaformaður og formaður fjárlaganefndar hafa eins og ég fengið fjölmörg bréf frá sveitarfélögum vítt og breitt um landið þar sem þeir benda á að ríkið standi ekki við þann samning og þær skuldbindingar sem gerðar voru um þátttöku ríkisins í þessum kostnaði og þar munar miklu, það munar tugum milljóna. Þetta bitnar harðast á dreifbýlinu, fátækum sveitarfélögum.

Ég vil spyrja hv. þingmenn: Hvar sést þess stað að komið sé til móts við þessa fjárvöntun sem hefur þó legið rækilega fyrir og kemur hart niður á þessum sveitarfélögum? Mér finnst það ekki vansalaust að það skuli einmitt alltaf vera þessi sveitarfélög, dreifbýlið, sveitarfélögin stóru sem eru sniðgengin eða að ríkið skuli fyrst og fremst velja þau til þess að níðast á hvað svona þætti varðar. Þetta eru stórútgjöld hjá sveitarfélögum, t.d. Dalabyggð, Vesturbyggð og svo mætti áfram telja vítt og breitt um landið, stór og víðfeðm sveitarfélög sem samt, lögum samkvæmt og af metnaði, vinna í því að halda niðri ref og mink en ríkið svíkst undan því að standa við skuldbindingar sínar hvað þetta varðar.

Ég óska eftir svörum frá hv. fulltrúum ríkisvaldsins, formanni og varaformanni fjárlaganefndar hvað fjármagn til eyðingar refa og minka varðar. Ég þykist vita og veit að hv. þingmenn vita það líka og hafa fengið um það mörg bréf að þarna vantar tugi milljóna upp á að ríkið standi við sinn hlut hvað það efni varðar.

Annað atriði vil ég líka spyrjast fyrir um. Við fengum ágæta áminningu í áðurnefndu bréfi frá sveitarstjórn Skagafjarðar þar sem spurst er fyrir um tónlistarnámið á framhaldsskólastigi. Ég er reyndar með fyrirspurn hér inni á Alþingi til hæstv. menntamálaráðherra hvað varðar tónlistarnámið en tónlistarnám er hluti af námi við framhaldsskóla og hluti af námskrá. Fram til ársloka 2004 lagði ríkið fram hluta á móti sveitarfélögunum hvað varðaði námskostnað í tónlistarnámi við framhaldsskóla en það hefur ekki verið gert nú í ár, ekkert. Ég þekki margt fólk sem verður að senda ungmenni sín í önnur sveitarfélög í framhaldsskóla, ungt fólk sem vill stunda tónlistarnám, bæði innan framhaldsskólans og einnig sem sjálfstætt nám. Ríkið ber ábyrgð á því að jafnræðis sé gætt hvað varðar nám á framhaldsskólastigi.

Hvers vegna er tónlistarnámið undanskilið? Hvers vegna stendur ríkið ekki við sinn hlut hvað tónlistarnámið varðar? Þetta eru ekki háar upphæðir hvað varðar tónlistarnám í framhaldsskólum, þetta eru kannski 50, 60, 70 milljónir, en þetta skiptir það fólk sem stundar slíkt nám gríðarlega miklu máli. Þetta sýnir líka hvaða virðing er borin fyrir tónlistarnámi og reyndar oft öðru listnámi í framhaldsskólum að einmitt það skuli vera valið til þess að skera niður framlög. Það fylgir því heilmikill kostnaður þegar fólk verður að senda börn sín burtu, hvort sem það er í framhaldsskóla á Akureyri eða til Reykjavíkur þar sem hluti af náminu er tónlistarnám, hluti af námskránni er tónlistarnám, en getur ekki farið með eðlilegum hætti innan veggja skólans í heimabyggð. Þetta verða viðkomandi foreldrar að bera. Er eitthvert jafnræði í þessu?

Ég spyr hvort ekki hefði verið lag og hefði ekki verið nær að koma og leiðrétta þessa synd gagnvart íbúum landsins en aftur bitnar þetta sérstaklega á íbúum dreifbýlisins því að mörg sveitarfélög þau sem hafa framhaldsskóla hjá sér reyna að koma í veg fyrir að þetta bitni beint á nemendunum sjálfum, en þeir sem þurfa að senda börnin sín frá heimili í framhaldsskóla verða að taka á sig þennan kostnað. Aftur eru það íbúar dreifbýlisins sem verða að taka á sig stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum fjármálum.

Þó að við séum með fyrirspurn, sem vonandi kemst á dagskrá í næstu viku um það hvað hæstv. menntamálaráðherra hyggist gera varðandi tónlistarnámið, varðandi framhaldsskólanám í tónlistarnámi og kostnað af því, finnst mér allt í lagi að fulltrúar ríkisvaldsins, fulltrúar fjármálavaldsins, meiri hlutinn og Alþingi, hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar svari því: Var ekkert hugleitt að taka kennslukostnað í tónlistarnámi við framhaldsskóla inn í fjáraukalögin til þess að rétta þennan þátt?

Þegar litið er yfir þetta ár er varla hægt að yfirgefa það án þess að ræða um vegamálin og mig langar að koma aðeins að þeim í lokin.

Þó áður, um frétt sem við heyrðum í dag um að Breiðafjarðarferjan Baldur hafi ekki getað lent við Brjánslæk, ferðum í dag hafi verið aflýst. Ég held að þetta sé þriðji eða fjórði dagurinn í röð sem ferðum á milli Stykkishólms og Brjánslækjar er aflýst vegna þess að það þarf að gera smá endurbætur á höfninni í Brjánslæk. Samtímis kom frétt um að ófært væri um Klettsháls þannig að vegurinn að vestanverðu, frá Reykhólum og til Patreksfjarðar væri ófær. Ég spyr: Hefðum við ekki átt að bregðast við núna? Það er alveg ljóst að höfnin við Brjánslæk getur ekki annað því öryggi sem nauðsynlegt er til þess að ferjan geti gengið með eðlilegum hætti á milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Það er ekki kostnaðarsöm framkvæmd sem þarf að ráðast í en það þarf að gera hana. Ef þetta er fjórði dagurinn sem er stopp og Breiðafjarðarferjan Baldur — sem er mjög gott skip — getur ekki lent, er þetta ekki skyndileg uppákoma sem Alþingi ætti að sameinast um að takast á að taka á? Það finnst mér. Endurbætur á hafnaraðstöðunni á Brjánslæk eru ekki beint inni á hraðferð í vegáætlun, í samgönguáætlun. Erindið hefur þó verið kynnt fyrir okkur bæði í samgöngunefnd og í fjárlaganefnd.

Þegar við sjáum fram á að þarna er flöskuháls í samgöngumálum milli heilla byggðarlaga, þ.e. endurbætur á höfninni í Brjánslæk, þá finnst mér það vera mál sem við ættum að taka á. Það er skyndilegt mál, það er mál sem kemur upp nú og við sjáum að verður að leysa ef ekki á að stefna í óefni í allan vetur. Fróðir menn segja mér að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir þó að vetrarlagi sé, þ.e. það sem þarf að gera við höfnina, og ég spyr: (Forseti hringir.) Er þetta ekki mál sem fjáraukalög eiga að taka á, skyndileg þörf til þess að bjarga (Forseti hringir.) samgönguþætti á milli landshluta, frú forseti?

(Forseti (RG): Forseti vill trufla ræðu hv. ræðumanns. Nú er komið að þeim tíma þegar áformað var að gera hálftíma matarhlé og forseti vill spyrja ræðumann hvort hann sé að ljúka ræðu sinni, hvort hann vilji ljúka henni núna á næstu mínútum áður en gert verður matarhlé eða hvort hann eigi enn þá mikið eftir af ræðunni.)

Frú forseti. Ég á nokkra kafla eftir í ræðu minni, málaflokka sem ég vil gera skil og það eiginlega hentar mjög vel að ljúka hér á þessari spurningu sem ég var með, frú forseti:

Eigum við ekki að taka á málefnum hafnaraðstöðunnar á Brjánslæk? Það er mál sem snertir einmitt fjáraukalagavinnu, skyndileg þörf sem er augljós og verður að taka á. Ég held að það sé mjög hæfilegt, frú forseti, að gera hlé …

(Forseti (RG): Er ræðumaður þar með að ljúka fyrstu ræðu sinni eða …)

Nei, að gera hlé, frú forseti.

(Forseti (RG): Hv. ræðumaður ætlar að gera hlé á ræðu sinni og þá verður gert hlé á þessum fundi fyrir matarhlé.)