133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var í ræðu minni fyrir matarhlé kominn að kaflanum um samgöngumál og ætlaði einmitt að ræða um hafnaraðstöðu fyrir Breiðafjarðarferjuna og Brjánslæk. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra muni heyra orð mín en núna er held ég fjórði dagurinn í röð sem Breiðafjarðarferjan Baldur getur ekki lent við höfnina í Brjánslæk vegna ókyrrðar og veðurs. Jafnframt er ljóst að ef ráðist verður í nokkrar endurbætur á höfninni við Brjánslæk er hægt að halda uppi þessum ferðum.

Svo háttar til samtímis að vegurinn um Klettsháls sem tengir Suðurfirðina á sunnanverðum Vestfjörðum er líka ófær þannig að þarna er þessi landshluti samgöngulaus. Nauðsynlegar endurbætur á höfninni við Brjánslæk eru ekki á áætlun, en alveg ljóst að þarna þarf að grípa til aðgerða. Hin nýja ferja, Breiðafjarðarferjan Baldur sem hóf siglingar fyrr á þessu ári, er hið besta skip og hefur miklu meiri flutningsgetu en eldri ferja, bæði hvað varðar fólk og flutningabíla, og er þess vegna mikil samgöngubót. Verstöðvarnar eða bæirnir á sunnanverðum Vestfjörðum gátu sent fisk t.d. beint á flug með nokkru öryggi með ferjunni en nú kemur í ljós að það þarf að laga hafnaraðstöðuna á Brjánslæk til þess að hún geti lent þar. Reyndar þarf líka að laga hafnaraðstöðuna í Flatey á Breiðafirði til að hún geti lent þar í slæmum veðrum en fyrst og fremst þarf að laga hafnaraðstöðuna á Brjánslæk.

Ég er með erindi eða minnisblað sem kom til fjárlaganefndar þar sem segir að það að lengja stálþil hafnarinnar um 17 metra, sem mér skilst að sé lágmarksaðgerð, mundi kosta 20–22 millj. kr. Mér hefur líka verið tjáð að hægt sé að ráðast í þessar endurbætur þó að það sé vetur, það sé ekkert bundið við að ráðast í þær að sumrinu, enda vitum við að það er hægt að athafna sig þarna hvort sem það er vetur eða sumar hvað það varðar að bæta þennan viðlegukant sem þarf til. Mér finnst þetta vera alveg hreint ekta mál sem á að taka upp í fjáraukalögum. Þarna kemur upp brýn þörf sem er skyndilega augljós og hafði svo sem verið vitað að það þyrfti að bæta höfnina í Brjánslæk og brýnt að úr þessu sé leyst. Þarna mætti, að mér skilst, ráðast í framkvæmdir með tiltölulega litlum fyrirvara, þetta sé það einföld framkvæmd að ekki þurfi mikinn tæknilegan undirbúning til að ráðast í hana og þarna væri einmitt kjörið mál inn í fjáraukalagaafgreiðslu og þess vegna svo sem inn á fjárlög á næsta ári en í þetta væri hægt að ráðast. Ef Alþingi samþykkti nú þegar í þessari viku eða við afgreiðslu fjáraukalaga heimild upp á einhverja þá upphæð sem þarna er verið að tala um væri kannski hægt að ráðast í þessar framkvæmdir nú fyrir jól. Heill landshluti verður án samgangna eins og við stöndum hér frammi fyrir þannig að ég óska eftir því, frú forseti, að hv. meiri hluti Alþingis og formaður og varaformaður fjárlaganefndar hugleiði hvort þetta sé ekki mál sem við eigum að taka á. Ég hefði líka viljað heyra í samgönguráðherra. Ef hæstv. samgönguráðherra er hérna í húsinu hefði ég gjarnan viljað að hann kæmi hér á eftir, frú forseti, og svaraði því hvað hann hygðist gera til að ráða nú þegar bót á hafnaraðstöðu við Brjánslæk þannig að ferjan geti gengið með eðlilegum hætti, a.m.k. hvað það varðar. Ég óska þess að forseti sjái til þess að þessi spurning komist til hæstv. ráðherra samgöngumála þannig að hann geti svarað henni hér.

(Forseti (RG): Óskar ræðumaður eftir því að leitað sé eftir því að samgönguráðherra komi til fundar?)

Já.

(Forseti (RG): Forseti mun kanna hvort það er mögulegt.)

Þá vil ég aðeins víkja enn frekar að því sem er í fjárlögunum um heimild til samninga. Við höfum fjárlög og lög um fjárreiður ríkisins þar sem kveðið er á um útgjöld til einstakra málaflokka á fjárlögum. Hins vegar eru æ fleiri tilvik þar sem einstakir ráðherrar gera skuldbindandi samninga, meira að segja til nokkurra ára. Ég held að nærtækasta dæmið sé samningurinn sem gerður var við fyrirtækið Borgir um aðstöðuna fyrir Háskólann á Akureyri þar sem gerður var langtímasamningur um að háskólinn fengi þar inni og greiddi leigu, samningur sem aldrei var borinn undir Alþingi sem slíkur. Þessi ákvörðun byggir á mjög veikri heimildargrein í lögum um fjárreiður ríkisins þar sem ráðherra er heimilt að gera slíka samninga í undantekningartilvikum enda komi þeir fyrir Alþingi hið fyrsta.

Nú höfum við staðið frammi fyrir því æ ofan í æ að það verður að auka fjárveitingar til þessara stofnana, eins og Háskólans á Akureyri og Náttúrufræðistofnunar á Akureyri sem leigir þetta hús, vegna þess að húsaleigan er svo há, miklu hærri en ef byggt hefði verið í eigin húsnæði. Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu, frú forseti, er lögð til 60 millj. kr. aukafjárveiting til Háskólans á Akureyri árið 2006. Með framlaginu er komið til móts við nemendafjölgun upp á 20 millj. kr., og 40 millj. kr. eru til að standa undir kostnaði af Borgum, rannsóknahúsnæði skólans. Stöðugt er verið að setja inn aukið fjármagn til að greiða húsaleigu af rándýru húsnæði sem einkaaðilar eiga og hafa allt sitt á þurru því samningurinn er verðbættur o.s.frv. Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar og ég spurði að því líka í fjárlaganefnd: Kemur ekki til greina að segja þessum samningi upp? Til hve langs tíma var þessi okursamningur gerður? Eru þessar stofnanir skuldbundnar til að skrifa út tékka til einkaaðila sem eiga þetta hús sem verður þeim sá rekstrarbaggi að fjárveitingavaldið hefur varla undan að veita fjármagn til þessarar stofnunar?

Frú forseti. Ég sé að hæstv. samgönguráðherra er kominn og þá ítreka ég þá spurningu sem ég vildi leggja fyrir hann af því að við erum að ræða fjáraukalög. Þau eru einmitt til að taka á skyndilegum og óvæntum kostnaði við eitthvað sem þarf að ráðast í mjög skyndilega og ekki var hægt að gera ráð fyrir á fjárlögum þess árs. Það er einmitt hlutverk fjáraukalaga. Nú berast fréttir af samgönguvandræðum, ætli nú sé ekki fjórði dagurinn í röð sem ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs á milli Stykkishólms og Brjánslækjar eru felldar niður vegna veðurs og þá fyrst og fremst vegna þess að ferjan getur ekki lent við höfnina í Brjánslæk. Þessi nýja ferja er nokkru stærri en þær sem voru áður, hið besta skip, gott flutningaskip og gott sjóskip, en höfnin við Brjánslæk sem reyndar var vitað að yrði ófullnægjandi sýnir nú að ferjan getur ekki lent þar við erfið veðurskilyrði. Það liggur jafnframt fyrir hvað þarf að gera við höfnina í Brjánslæk til að þetta geti verið í þokkalegu lagi, fyllsta öryggis gætt svo að hægt sé að halda uppi þessum ferjusiglingum. Jafnframt komu fréttir í hádeginu eða í morgun um að Klettsháls væri ófær þannig að landleiðin var líka stopp. Það er mjög alvarlegt þegar þessi samgönguleið lokast eins og við verðum þarna vitni að. Breiðafjarðarferjan er mjög mikilvæg, flytur bæði fólk og vörur til og frá Vestfjörðum, Suðurfjörðunum. Hún flytur fisk á markað, hvort sem er hér innan lands eða erlendis þannig að hún gegnir mjög mikilvægu hlutverki.

Nú liggur nokkurn veginn ljóst fyrir eða okkur hefur a.m.k. verið kynnt minnisblað sem segir hvað þurfi að gera á Brjánslæk til þess að ferjan geti lagst þar að. Þar þarf að lengja stálþil og ráðast í nokkrar framkvæmdir, þó ekkert óyfirstíganlegar. Á því minnisblaði sem ég er með er talað um liðlega 20 millj. kr. Ég veit ekki hvort það dugar í sjálfu sér en fróðir menn segja mér einnig að það sé hægt að ráðast í þessar framkvæmdir hvort sem er um sumar eða vetur, það sé í sjálfu sér ekkert bundið við það. Ef það væri vilji Alþingis að ráðast nú þegar í þessar framkvæmdir væri hægt að taka um það ákvörðun. Þetta er ekki há upphæð. Þetta er einmitt að mínu viti dæmigert mál um skyndilega og brýna þörf sem hægt er að verða við, sem hægt er að leysa, sem hægt er að koma í gang eins og endurbætur þarna. Það væri alveg ekta mál fyrir fjáraukalög til að afgreiða þannig að jafnvel væri hægt að ráðast í framkvæmdir á þessu ári.

Þetta er alveg gríðarlega mikið mál, þetta með að ferjan geti gengið með eðlilegum hætti á milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Það liggur fyrir hvað þarf að gera og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst ráðherra koma að þessu máli og hvernig er þá sú hugmynd að við tökum það upp hér á Alþingi og gerum tillögu um það við afgreiðslu fjáraukalaga þannig að fjármagn verði veitt til þessara endurbóta? Þetta er ekki há upphæð en skiptir þessi samgöngumál afar miklu máli. Ég tel þetta eitt af því brýnasta sem við þurfum að gera núna, að bæta hafnaraðstöðuna við Brjánslæk þannig að ferjusiglingin geti gengið með eðlilegum hætti. Þetta var fyrst og fremst spurning mín til hæstv. ráðherra hvað þetta varðaði, frú forseti, og ég þakka fyrir að hæstv. ráðherra er kominn til að heyra hana.

Ég hef rætt um málefni sjúkrahúsanna, sjúkrahússins á Akranesi, heilbrigðisstofnananna á Blönduósi, Hvammstanga, Patreksfirði. Allar þessar stofnanir eru skildar eftir með hala og við bíðum spennt eftir því að sjá hvort fjármagn komi til þessara stofnana á fjárlögum.

Ef við lítum örstutt yfir þetta ár efnahagslega, við erum að ræða fjáraukalög fyrir þetta ár, var á fjárlögum fyrir ári gert ráð fyrir því að hér yrði 11–12% viðskiptahalli. Það var gert ráð fyrir því fyrir ári síðan í fjárlögum sem þá voru afgreidd. Nú horfir til þess að hann verði nálægt 20% af vergri landsframleiðslu, verði ekki 120–130 milljarðar eins og gert var ráð fyrir að hámarki á fjárlögum fyrir ári, heldur að hann verði yfir 200 milljarðar. Þetta sýnir hvernig efnahagsstjórnin hefur verið hér. Í lok þessa árs erum við komin með stýrivexti Seðlabankans upp í 14% sem er með því hæsta sem gerist sem lýsir engu nema miklu jafnvægisleysi í efnahagsmálum. Þetta hefur þá áhrif á gríðarlega hátt vaxtastig. Það segja mér menn að vextir á skuldabréfalánum séu komnir yfir 20%. Yfirdráttur er kominn í 23–24% og við tölum áfram um mesta góðæri. Það er þá góðæri sem hefur verið nýtt vel ef þetta á að speglast í þessum mikla ójöfnuði og óöryggi í efnahagsmálum.

Það hefur líka verið minnt á að skuldir þjóðarbúsins hafa vaxið alveg hreint gríðarlega. Það er meira að segja svo að matsfyrirtækið Fitch sá ástæðu til að breyta nýlega mati á horfum sínum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar. Sérfræðingur þessa virta alþjóðlega matsfyrirtækis Fitch bendir á að erlendar skuldir þjóðarbúsins muni á þessu ári hækka í 360% af vergri landsframleiðslu á árinu sem er meira en þreföld skuldastaða þjóðarbúsins árið 2000. Vissulega hafa komið þarna eignir á móti en engu að síður hafa nettóskuldir þjóðarbúsins vaxið alveg gríðarlega. Erlend staða þjóðarbúsins núna er neikvæð um sem nemur 13-földum útflutningstekjum og hefur hríðversnað á skömmum tíma. Menn eru hér að tala um góðæri, vissulega er góðæri en þetta er mikið pappírsgóðæri. Mig minnir að það hafi verið í bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandinu, þar sem talað var um heróínhagvöxt þar sem viðskiptahallinn, óráðsían keyrir sig áfram með sjálfvirkum hætti því að við þorum ekki að taka á timburmönnunum. Þegar við metum efnahagshorfurnar fyrir næsta ár kemur skýrt fram hjá þeim aðilum sem hafa gefið þar álit að það sé hægt að stefna að nokkuð mjúkri lendingu ef mjög varlega er stigið til jarðar á næstu mánuðum og missirum. Það gerum við ekki með 14% stýrivöxtum Seðlabankans, það vitum við. Það gerum við ekki með 7–8% verðbólgu. Það gerum við ekki með 15–20% viðskiptahalla þannig að það er ljóst að það verður að fara hér mjög varlega en allir segja að verði áframhald á þessari stóriðjustefnu sem rekin hefur verið á undanförnum mánuðum og missirum verður ekkert efnahagsjafnvægi í landinu.

Frú forseti. Ég hef farið yfir nokkur þau atriði í þessari fyrri ræðu minni um fjáraukalagafrumvarpið og get þá í seinni ræðu minni komið að þeim atriðum sem hér standa enn þá út af.