133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist þess ekki að hafa sagt orðið drusla og ætla ekki að taka það orð mér í munn. (EMS: Þá hefði forseti þurft að víta þig.) Hins vegar verða hv. þingmenn að meta það sjálfir við sig hvernig þeir skoða það.

Það sem ég vakti rækilega athygli á er að verið er að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga með upphæðum til málaflokka sem lágu fyrir að voru vanáætlaðir við fjárlagaafgreiðslu fyrir ári síðan. Ég minni þingmanninn á að við afgreiðslu fjárlaga úr nefnd fyrir ári, mótmælti hann því að það væri þinghæft vegna þess að ekki væri tekið á fyrirsjáanlegum vanda, rekstrarvanda, uppsöfnuðum halla öldrunarheimila, hjúkrunarheimila og sjúkrahúsa.

Ég minni hann á að bókuð voru mótmæli á þingi og við lögðum fram tillögur við afgreiðslu fjárlaga þá. Hvað var gert við þær tillögur, frú forseti? Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er varaformaður fjárlaganefndar og hann stendur ágætlega undir því.

En þessar tillögur voru allar felldar þá. Getur þingmaðurinn nefnt það við mig hér, þ.e. við forseta, að þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir fyrir ári síðan? Rekstrarvandi Landspítala – háskólasjúkrahúss, lá hann ekki fyrir? Á að beita fjáraukalögum á þann hátt koma með upphæðir sem voru fyrirsjáanlegar og áttu að koma inn á fjárlögum ársins? Eru það rétt vinnubrögð?