133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:57]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla hvorki að blanda mér í umræðu um köpuryrði hv. þingmanns né það að hann skuli ekki hafa fundið orðum sínum stað. Hann verður bara að hlíta því ef hann finnur ekki orðum sínum stað, þá er þetta meiningarlaust sem hann sagði.

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um tímalengd ræðunnar. Hann talaði í einn klukkutíma og 22 mínútur með matarhléi. Það er ókostur við svona ræður að maður veit ekki hvenær þær eru búnar. Þess vegna er svo erfitt að fara í andsvar. Þess vegna er svo erfitt að mynda málefnalega umræðu.

Af tilviljun hlustaði ég á hann tala um að koma ætti með fjáraukalög að vori og hausti. Það var góður punktur. En svona góðir punktar týnast í öllum vaðlinum. Þetta er svo langt, þetta er svo mikið. Það er svo margt.

Ég mundi því ráðleggja hv. þingmanni og öðrum þeim sem tala svona lengi að tilkynna fyrir fram hvað þeir ætli að tala lengi svo einhver málefnaleg umræða geti myndast. Maður situr ekki hérna lon og don og bíður í von og óvon hvort hv. þingmaður talar tíu mínútur, hálftíma, einn klukkutíma eða fjóra klukkutíma. Það er bara ekki hægt. Svona aðferðir við málflutning og ræðuhöld eyðileggja alla málefnalega umræðu, því miður.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta vera málefnalegt að tala svona lengi og koma með einstaka góða punkta sem týnast og að ekki sé hægt að fara í andsvör við hann vegna þess að maður veit ekki hvenær ræðan er búin?