133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur reynst miklu erfiðara að halda stuttar ræður en langar og segja jafnmikið í stuttum ræðum og löngum. Reyndar er ég með það markmið, frú forseti, að ræðutími minn sé að meðaltali undir þremur mínútum og ég hef haldið því nokkurn veginn og ég skammast mín þegar ég er farinn að tala mjög lengi, vegna þess að þá finnst mér ég vera hættur að meitla hugsun mína á þann hátt að ég geti komið henni til skila í stuttu máli.

Það er engin lítilsvirðing við málefnið sem við ræðum hér þótt ég spyrji hv. þingmann hvort hann geti ekki sagt fyrir fram hvað hann muni tala lengi, þannig að maður geti nokkurn veginn komið í andsvar við hann og haldið uppi málefnalegri umræðu. Málið snýst um það. Mín vegna má hann tala í fjóra klukkutíma ef hann segir það fyrir fram. En ef hann kemur ekki hugsun sinni skýrar á framfæri en á fjórum klukkutímum, þá er það hans vandamál en ekki mitt.

Hins vegar hef ég margoft rætt um fjárlög og fjáraukalög og sagt að fjárlög séu að sjálfsögðu spádómur. Það sem hv. þingmaður talaði um í sambandi við viðskiptahallann og háa vexti, er vegna þess að þar gerðist eitthvað, sem ég held að enginn þingmaður hafi ímyndað sér að mundi gerast, sem var styrkur bankanna og innhlaup þeirra inn á íbúðalánamarkaðinn, sem hefur keyrt upp þenslu. Sú þensla er að mínu mati og margra annarra meginástæðan bæði fyrir verðbólgu — því að húsnæðisverðið er reiknað inn í verðbólguna — og líka viðskiptahallanum vegna kaupmáttaraukningar, vegna auðsáhrifa. Ég held því að enginn hafi getað spáð fyrir um þessa þenslu á íbúðamarkaðnum fyrir tveim, þrem árum. Hins vegar verða menn stöðugt að vanda sig við að spá. Það er að sjálfsögðu rétt. Og það eru réttmætar ábendingar að sumt af því sem er í fjáraukalögunum hefði mátt sjá fyrir í fjárlögunum. Ég er sammála því. En ég fór aðallega upp í andsvar til að ræða um fyrirkomulag ræðunnar.