133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:05]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Pétur H. Blöndal með því að ég treysti mér ekki til þess í upphafi ræðu minnar að segja mjög nákvæmlega hversu löng ræða mín verður, en eins og hv. þingmaður veit hef ég ekki lagt í vana minn að halda hér mjög langar ræður. Ég hef hins vegar reynt að hafa þær málefnalegar og hafa næstum því hvert orð einstakt gullkorn, eins og hv. þingmaður veit. Ég geri því ráð fyrir að hv. þingmaður fylgist gaumgæfilega með og grípi þau gullkorn sem hér munu falla, því að ekki mun af veita, miðað við þau andsvör sem hér hafa verið veitt, að ákveðnir þættir séu skýrðir enn frekar en gert hefur verið fram að þessu.

Það er eðlilegt þegar við förum yfir frumvarp til fjáraukalaga, og það við 3. umr., að við rifjum aðeins upp til hvers fjáraukalög eru. Hvað segja fjárreiðulögin um hvað eigi að vera í fjáraukalögunum? Það verður að segjast eins og er að því miðar ansi hægt að fjáraukalögin falli innan þess ramma sem fjárreiðulög gera ráð fyrir. Undanfarin sjö ár hefur næstum því á hverju ári verið rætt um að gerð verði bragarbót á því og reynt verði að nálgast fjárreiðulögin eins og kostur er en því miður hefur það gengið afar hægt, eins og hér hefur nokkuð verið til umfjöllunar. Það liggur t.d. ljóst fyrir að núna er bæði í frumvarpinu sjálfu og þeim breytingartillögum sem fram hafa komið, ótrúlega lítill hluti þess sem við mundum segja að félli klárlega undir það sem gert er ráð fyrir í fjárreiðulögum, þ.e. að þetta hafi algerlega verið ófyrirséð eða séu afleiðingar af kjarasamningum eða lagabreytingum. Langminnsti hlutinn er þannig til kominn.

Frú forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram held ég að nauðsynlegt sé að rifja þetta örlítið upp þannig að það liggi alveg ljóst fyrir hvað segir í fjárreiðulögunum. En þar segir, m.a. í því sem fylgdi í greinargerðinni þegar fjárreiðulögin voru samþykkt, orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs verði fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög snerust þannig fyrst og fremst um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar eftir atvikum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.“

Þetta er mjög skýrt, frú forseti. Það er því með ólíkindum að talsmenn meiri hluta fjárlaganefndar og stjórnarmeirihlutans á þinginu komi hér og fjalli síðan fyrst og fremst um það sem hér eru gerðar tillögur um og snýr að rekstrarvanda einstakra stofnana. Hér segir mjög skýrt að það eigi ekki heima í fjáraukalögum. Það er alveg sama hve rekstrarvandinn er mikill og nauðsynlegur, það á að leysa hann á annan hátt. En vandinn er nákvæmlega sá sami, að sjálfsögðu.

Ég mun síðar í ræðu minni nefna nokkur dæmi um það hvernig menn fara á mjög áberandi hátt á svig við þessi ákvæði fjárreiðulaga. Það er ekki til sóma þegar þannig er staðið að málum ár eftir ár. Auðvitað má segja að það sé eðlilegt að það taki einhvern tíma, að það sé einhver aðlögunartími til að menn nái algerlega utan um málið, en nú er sá aðlögunartími löngu liðinn og þess vegna á þetta að heyra sögunni til. En ekki eins og við verðum, því miður, vitni að núna, að það sé jafnvel verið að bæta í, að það sé verið að bæta í á þennan hátt.

Það segir hins vegar ekkert um að ekki hafi verið nauðsynlegt að taka á rekstrarvandanum. Það á, samkvæmt fjárreiðulögunum, ýmist að gera í lokafjárlögum ársins eða í fjárlögum næsta árs. Þetta er mjög skýrt. En af því það eru lokafjárlög þá er það líka alvarlegur hlutur að lokafjárlög fyrir árið 2005 hafi ekki enn litið dagsins ljós, þrátt fyrir að í fjárreiðulögunum segi að það eigi að gerast samhliða ríkisreikningi. Sá tími sem miðað er við er löngu liðinn. Þess vegna má í rauninni segja að fjáraukalögin og fjárlögin hafi hvorki upphafspunkt né endapunkt og séu í lausu lofti. Við höfum margoft gagnrýnt það og mjög harðlega hvernig að þessu staðið. Það liggur t.d. ljóst fyrir að fjárhagsárið 2006 hefur ekki upphafspunkt af því að það er ekki einu sinni búið að leggja fram lokafjárlögin, hvað þá heldur samþykkja þau fyrir árið 2005. Það liggur ekki fyrir hvar upphafspunkturinn er eða á hverju á að byrja. Það liggur ekki ljóst fyrir fyrr en búið er að samþykkja lokafjárlög fyrir árið 2005.

Það eru ýmis atriði í fjáraukalagafrumvarpinu sem benda til þess að ekki verði allt nýtt á þessu ári. Það er t.d. afar stór upphæð í afskaplega þarft mál sem ég vil nefna sem dæmi um þetta, en það er milljarður vegna umferðaröryggis á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu. Þar segir orðrétt: „Um er að ræða framkvæmdir sem munu bæta verulega umferðaröryggi.“ Vonandi. Og eins og ég sagði áðan, afskaplega brýnt mál, 1 milljarður. Ég er þess fullviss að það mun ekkert veita af því til að gera þetta. En það liggur ekkert fyrir um það og við höfum engar upplýsingar um hvað er að ræða. Hvaða framkvæmdir eru þetta? Eru þessar framkvæmdir búnar? Er þeim ólokið eða hvernig standa málin? Verður þessi milljarður allur nýttur fyrir áramót eða verður hann nýttur að einhverju leyti á næsta ári? Hvað breyttist frá því að fjárlög voru samþykkt um þetta? Þetta liggur ekki fyrir. Við vitum því raunverulega ekki hvort við erum að hluta til að fjalla um fjárveitingar á árinu 2007 í fjáraukalögum fyrir árið 2006. Þetta er dæmi í þá áttina.

Það er búið að nefna nokkur dæmi um það sem augljóst var að bæta þyrfti við þegar við samþykktum fjárlög fyrir árið 2006 fyrir ári síðan, ýmislegt blasti við og ýmsar tillögur komu frá minni hlutanum varðandi þau efni. Það er allt í lagi að rifja það upp að eitt dæmið er líklega skýrast í þeim efnum en það eru framhaldsskólarnir þar sem við gerðum tillögu um 250 millj. vegna þess að nemendafjöldi ársins væri vanáætlaður. Það gerist síðan að nú kemur tillaga frá meiri hlutanum um nákvæmlega sömu krónutölu. Þá blasti þetta við. Þarna er auðvitað verið að fara á svig við fjárreiðulögin vegna þess að þetta var algerlega fyrirséð.

Það sem mér þykir verst er að það kemur í raun og veru aldrei skýring frá meiri hlutanum um hvernig á þessu stendur. Af hverju ná menn ekki tökum á þessu? Af hverju þurfa menn endilega að fara á svig við fjárreiðulögin? Aðlögunartíminn er löngu, löngu liðinn. Og ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst fulltrúar meiri hlutans skulda skýringar á því af hverju að fara þarf á svig við fjárreiðulögin ár eftir ár.

Ef fjárreiðulögin eru þannig að mati hv. þingmanna að ekki sé hægt að fara eftir þeim, hlýtur að vera eðlilegt að þeir komi með tillögur um breytingar á þeim lögum. Ég trúi því ekki að það sé vilji meiri hlutans að fara ár eftir ár á svig við fjárreiðulögin. Annaðhvort verður meiri hlutinn að taka sér tak og reyna að vinna innan fjárreiðulaganna eða að koma með tillögur um að breyta fjárreiðulögunum þannig að þessir þættir verði í lagi. Því miður bendir ekkert til þess að það sé einu sinni vilji til að gera annað hvort. Það skortir a.m.k. mjög á að það komi nokkrar skýringar frá hv. þingmönnum í meiri hlutanum á því hvernig á þessu standi.

Meðan það er þá hlýtur maður að álykta að það sé eitthvert vandamál á ferðinni sem hv. þingmenn treysti sér ekki til að fjalla um eða gefa skýringar á. Það er alls ekki gott. Það vantar líka skýringar á því, sem ég vona að hv. þingmenn komi með seinna í umræðunni, hvað tefur lokafjárlög ársins 2005. Það er eiginlega algjörlega óskiljanlegt vegna þess að í umræðum lokafjárlaga nokkurra undanfarinna ára hafa verið heitstrengingar um að nú mundu menn ná takti í þessu. Ég held að það sé skoðun allra að auðvitað sé æskilegt að lokafjárlög, eins og núna lokafjárlög ársins 2005, væri búið að samþykkja áður en við samþykkjum fjáraukalög fyrir árið 2006, ég tala nú ekki um áður en við samþykkjum fjárlög fyrir árið 2007. En nú er ekkert sem bendir til þess að svo verði því lokafjárlagafrumvarpið hefur ekki einu sinni verið lagt fram. Það er því augljóst mál að enn eitt árið verðum við ekki með upphafspunkt í þessu ferli öllu saman.

Það er ýmislegt fleira sem þyrfti að fara yfir og lagfæra í ferlinu. Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason ræddi um ákveðna þætti í því sambandi og það er óþarfi að endurtaka nokkuð af því. Ég vildi þó aðeins fara inn á það sem bæði ég og aðrir hafa nokkrum sinnum nefnt í ræðum sínum í gegnum tíðina en það er sú breyting sem á varð þegar ákveðið var að nota svokölluð rammafjárlög, sem í raun og veru hafa aldrei staðið undir nafni. Því miður er eingöngu um rammafjárlagafrumvarp að ræða en eftir að fjárlagafrumvarpið hefur verið lagt fram eru allir rammar lagðir til hliðar og eins og fram hefur komið í nokkrum skýrslum, m.a. Ríkisendurskoðunar, virðist það vera helsta áhugamál ríkisstjórnarinnar hverju sinni að fella þessa ramma og láta þá ekki gilda lengur.

Ég er sannfærður um það, frú forseti, að við munum ekki ná tökum á þessu almennilega fyrr en við ljúkum því ferli sem hófst fyrir alllöngu síðan, ég þori nú ekki alveg að fara með ártalið en það var líklega 1992 sem það var tekið upp og hefur raunverulega ekkert þróast frá þeirri tíð. Þá var ákveðið strax að byrja þetta með því að hafa rammafjárlagafrumvarp og síðan var auðvitað ætlunin að þróa það áfram. Í flestum nágrannalöndum okkar þar sem þessari aðferð er beitt er það þannig að fyrst er umræða um rammann en það er auðvitað eitt af því sem skortir hér, að Alþingi komi að samþykkt rammanna. Nú er það eingöngu ríkisstjórnin sem hverju sinni ákveður rammana en treystir sér síðan ekki til þess að hafa rammana þannig að þeir geti haldið alla leið og þess vegna hverfa þeir þegar fjárlagafrumvarp er lagt fram.

Eðlilegustu vinnubrögðin væru auðvitað þau að rammarnir yrðu ræddir á lokadögum þings að vori. Þar væri farið gaumgæfilega yfir hvernig þeir ættu að vera, hvað teldist eðlilegt, tekist væri á um það á þeim tíma og komist að niðurstöðu. Út frá þeirri niðurstöðu fengi framkvæmdarvaldið það hlutverk að semja fjárlagafrumvarp sem yrði lagt fram eins og hefðin er á fyrsta degi þings að hausti. Eftir það tæki fjárlaganefndin við fjárlagafrumvarpinu og hefði verkstjórn um hvernig það færi í gegnum þingið. Rammarnir segðu auðvitað til um hvað mikið færi í hvern málaflokk og síðan færu fagnefndirnar faglega yfir sína þætti hver og ein, skiluðu inn til fjárlaganefndar sem síðan mundi samræma og fara yfir þættina. Fjárlaganefndin hefði ákveðna verkstjórn yfir þessu verklagi öllu saman.

Þannig vinnubrögð ættu að vera í þessum þáttum. Þá væri þetta t.d. ekki eins og við höfum heyrt fagnefndir gagnrýna, að þær fá ákveðin verkefni frá fjárlaganefndinni, senda þau síðan aftur inn í nefndina og nefndin gerir, eftir aðstæðum, ýmsar breytingar þar á sem er misjafnlega tekið í fagnefndunum, eins og eðlilegt er, því rammi nefndanna og verkefni þeirra í öllu þessu ferli er í rauninni afar óljós. Niðurstaðan verður þar af leiðandi oft margvísleg. En eins og hin raunverulega rammafjárlagagerð er hugsuð þarf þetta að sjálfsögðu að halda alla leið til þess að það gagnist eins og það er hugsað.

Þetta bendir líka á þann vanda sem við sitjum uppi með hér í þinginu og hefur því miður farið versnandi frá því að ákvörðun var tekin um að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það er miður hvernig þau mál hafa þróast en þar hefur orðið mikil breyting á síðan opnuð var skrifstofa eða deild hjá fjármálaráðuneytinu sem hefur sinnt þessu fyrir ráðuneytið. Sú áætlunargerð hefur síðan verið lögð til grundvallar í allri fjárlagavinnu og ekkert nema gott um það að segja. En það liggur alveg ljóst fyrir að sjálfstæði þingsins hefur minnkað við það að hafa ekki aðgang að öðrum aðilum til þess að fara yfir hlutina. Það er minnisstætt að þegar hér var rætt um að leggja Þjóðhagsstofnun niður þá tók þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, býsna vel í það og taldi ekkert óeðlilegt að hér hjá þinginu kæmi sérstök hagdeild sem tæki að hluta til við þessu verkefni. Það er nákvæmlega það sem okkur vantar, að hér sé ákveðin deild, hagdeild sem við hefðum aðgang að. Sú deild væri sjálfstæð gagnvart framkvæmdarvaldinu og þingið gæti látið hana vinna ýmsa þætti í þessu ferli öllu saman, fara yfir áætlunargerðina, gefa sér alls konar niðurstöður sem síðan væri hægt að byggja á út frá því sem fyrir lægi. Þá hefðu menn á einhverju öðru að byggja þannig að það væri ekki allt tekið í raun veru — ég veit ekki hvort rétt er að nota orðið gagnrýnislaust eða að menn hafi ekki neina valkosti.

Þetta skapar þinginu allt of mikið ósjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu, sem raunverulega hefur ferlið allt í hendi sér og það er auðvitað þannig, eins og við höfum mýmörg dæmi um, að þar er valdið allt of mikið og ráðherraræðið hefur stöðugt farið vaxandi og því miður hallar þar af leiðandi á löggjafarvaldið í þessu sambandi. Þetta er mjög miður, sérstaklega gagnvart fjárlagagerðinni og þess vegna hefur bæði eftirlitshlutverk nefndarinnar og aðhald fjárlaganefndarinnar stöðugt farið minnkandi.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður fjárlaganefndar, tók svo til orða að samstarf meiri hlutans við starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins hefði verið mjög gott varðandi þær tillögur sem hér liggja fyrir um ýmsar heilbrigðisstofnanir. Það er auðvitað gott og vel að meiri hluti fjárlaganefndar nái góðu samstarfi við starfsfólk einstakra ráðuneyta en það segir því miður svolítið um störf fjárlaganefndar að hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Birkir J. Jónsson, skuli sérstaklega tilgreina að þetta góða samstarf hafi aðeins verið við meiri hluta nefndarinnar. Þetta er, frú forseti, dæmigert vegna þess að meiri hluti nefndarinnar hefur á stundum því miður litið þannig á að eiginlega væri önnur nefnd í nefndinni sem væri meiri hluti nefndarinnar, nefndin væri ekki ein heild. Þess vegna er störfum nefndarinnar oft skipt þannig að meiri hluti nefndarinnar er sér að störfum og minni hlutinn síðan bara á stundum að vinna með meiri hlutanum.

Auðvitað ræður meiri hlutinn för, þó það nú væri, þannig er það auðvitað þegar meiri hluti er við lýði, hann ræður för. Þetta er hins vegar ekki góður vitnisburður um störf fjárlaganefndar sem hefur gífurlega mikilvægu hlutverki að gegna bæði sem aðhaldsaðili á framkvæmdarvaldið og einnig til að sýna sjálfstæði löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Með því vinnulagi, að meiri hlutinn sé í sérstöku samstarfi við framkvæmdarvaldið án þess að hafa minni hlutann með í för eru hlutirnir ekki eins og þeir eiga að vera. Í því sambandi má t.d. nefna að sum þjóðþing líta svo alvarlega á hlutverk fjárlaganefndarinnar og á eftirlitshlutverk fjárlaganefndarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu að það er sett inn að formaður fjárlaganefndar skuli vera úr stjórnarandstöðu, einmitt til þess að tryggja að eftirlitshlutverkinu og aðhaldshlutverkinu sé sinnt sem skyldi þannig að ráðherraræðið ráði ekki öllu í ferlinu. En þetta hefur þróast á þennan hátt hjá okkur og það er augljóst mál að sá meiri hluti sem hér er við lýði nú mun engu breyta, er orðinn vanur eða samdauna þessu vinnulagi og virðist láta sér vel líka. Það blasir því við að það mun bíða nýrrar ríkisstjórnar að gera einhverjar breytingar á þessum þáttum.

Það er búið að fara yfir það hér og ég hef minnst á það líka að ýmsar tillögur sem hér liggja fyrir eiga ekki heima í fjáraukalögum, þær eiga ýmist heima í lokafjárlögum eða fjárlögum næsta árs. Ég lofaði því áðan að ég mundi nefna nokkur dæmi þar um og ég held að það sé rétt að gera það. Það er t.d. athyglisvert að gerð er tillaga í fjáraukalagafrumvarpinu um 15 millj. kr. vegna viðfangsefnis sem heitir Athugun á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og á Reykjavíkurflugvelli. Vissulega þarft verk og nauðsynlegt og ef ég man rétt var gert samkomulag um þetta á milli samgönguyfirvalda og Reykjavíkurborgar og málið var sett í ákveðið ferli. Það er því mjög sérkennilegt að þetta viðfangsefni hefur aldrei verið á fjárlögum en hefur hins vegar tvö ár í röð verið á fjáraukalögum. Í hvorugt skiptið hefur þetta átt heima í fjáraukalögum. Það liggur ljóst fyrir að samningurinn var ekki ófyrirséður, þetta var á fjáraukalögum fyrir árið 2005 og kemur svo aftur núna á fjárlaukalögum fyrir árið 2006. Þetta var séð fyrir þegar við vorum að samþykkja fjárlög fyrir árið 2006, að minnsta kosti. Hér er því enn eitt dæmið um það þegar farið er á skjön við fjárreiðulög.

Það er einnig merkileg tillaga sem er í upphaflega frumvarpinu, einnig um mjög þarft mál, þ.e. 150 milljónir til undirbúnings að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Þar er líka um ákveðinn samning að ræða og þess vegna sérkennilegt að þetta sé í fjáraukalagafrumvarpi. Þetta er samningur sem gerður hefur verið á milli aðila og er því ekkert ófyrirséð, því að maður væntir þess að samningar séu gerðir þannig að menn viti hvað þeir eru að gera hverju sinni.

Af því að ég er að nefna samning er eðlilegt, frú forseti, að rifja það upp að þessi samningur hefur nokkrum sinnum verið nefndur hér í þessum sal og nýlega bættist við annar samningur varðandi kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Hvorugur samningurinn hefur verið ræddur efnislega í fjárlaganefnd þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt hér úr ræðustól að eðlilegt væri að þessir samningar yrðu birtir í fjárlaganefnd og um þá fjallað. En staðan er sú þegar við erum komin í 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2006 að hvorugur samningurinn hefur borist til fjárlaganefndar. Og miðað við mínar upplýsingar er líklega einn fundur eftir í fjárlaganefnd áður en við förum í 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2007. Það er því ekki seinna vænna og þess vegna eðlilegt, frú forseti, að nýta það tækifæri og vekja sérstaka athygli á þessu.

Ég held að það sé nauðsynlegt að óska eftir því, hæstv. forseti, að forsætisnefnd aðstoði fjárlaganefnd við það að fá þessa samninga inn til nefndarinnar. Ég veit ekki betur en að þessi fundur verði á mánudag og það er afar nauðsynlegt að forsætisnefnd hafi afskipti af málinu, því að eins og ég fór hér yfir áðan þá eru nokkuð margir mánuðir frá því að óskað var eftir fyrri samningnum — gott ef það er ekki jafnvel ár frá því að upphaflega var óskað eftir honum. Hinn samningurinn kom upp fyrir nokkrum vikum og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt það úr þessum ræðustól að það væri mjög eðlilegt að báðir þessir samningar yrðu kynntir og ræddir í fjárlaganefnd af þeirri einföldu ástæðu að verið er að gera tillögur um töluvert fjármagn í þessu skyni og þess vegna mjög óeðlilegt að hvorugur samningurinn hafi komið þar til umfjöllunar.

Ég vil því nota tækifærið og óska eftir að forsætisnefnd kanni hvort ekki sé tryggt að þessir samninga báðir verði til umræðu í fjárlaganefnd á mánudag þegar nefndin kemur saman í síðasta skipti fyrir 3. umr. fjárlaga ársins 2007. Ellegar, frú forseti, held ég að óhjákvæmilegt sé að við munum gera alvarlegar athugasemdir við það að 3. umr. um fjárlög ársins 2007 fari hreinlega fram á þriðjudag í næstu viku. Því það er algerlega óhjákvæmilegt og eðlileg krafa af okkur hálfu að við það verði staðið að samningarnir verði lagðir fram í nefndinni áður en 3. umr. um fjárlög ársins 2007 fer fram því það er síðasta umræða sem á sér stað í þinginu um þau mál.

Frú forseti. Ég hef farið yfir nokkur dæmi þess að ákveðnir hlutir ættu ekki heima í fjáraukalögum og tek enn fram að það á ekkert skylt við innihald þeirra mála sem eiga í hlut.

Næsta dæmi sem ég tek er einmitt um mjög þarft mál sem þarf að ræða, en það eru svokallaðir menningarsamningar. Þetta eru samningar sem hafa víða reynst mjög vel og var fyrst gerður slíkur samningur á Austurlandi fyrir nokkrum árum. Reynslan af því hefur sýnt að þetta hefur stóraukið framlög til menningarmála. Sveitarfélögin hafa því komið með miklu meiri styrk inn í þessi mál en áður var. Því er um mjög þarft mál að ræða.

Hins vegar hlýtur maður að spyrja: Hvað eru 120 millj. kr. viðbótarframlag að gera inn í fjáraukalagafrumvarpið til þessa viðfangsefnis vegna menningarsamninga sem ekki er búið að gera? Eða hvað, frú forseti? Að vísu skortir okkur gjarnan upplýsingar um hvaða samninga hæstv. ráðherrar eru að gera hverju sinni. Suma samninga gera þeir sem við lesum um í fjölmiðlum eða fréttum að búið sé að rita undir og skuldbinda þá ríkissjóð þess vegna um ómældar milljónir ófá árin fram í tímann. Eða að komið er með eins og þetta inn í fjáraukalagafrumvarp, 120 millj. kr. vegna menningarsamninga, og gefnar þær skýringar að þetta séu samningar sem eigi eftir að gera. Þetta séu samningar sem eftir er að gera við þá landshluta sem ekki hafa menningarsamning.

Enn ítreka ég að vissulega er um afskaplega mikilvægt verkefni að ræða. En þetta á að sjálfsögðu ekki heima í fjáraukalagafrumvarpi. Vegna þess að slíkir samningar geta ekki verið ófyrirséðir. Það er algerlega útilokað að samningagerð sé ófyrirséð. Samningagerð sem þessi hlýtur að vera fyrirséð því fólk hlýtur að vita hvenær það er að gera samninga og hvenær ekki. Fólk gerir að sjálfsögðu ekki samninga, skyldi maður ætla, öðruvísi en að það hafi umboð til þess og þeir séu þá að lágmarki undirritaðir, eins og mýmörg dæmi eru um, með fyrirvara um að upphæðir verði í fjárlögum viðkomandi árs.

Hér eru settar 120 milljónir í fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2006, sem þýðir að þessa samninga á að gera fyrir áramót. Og þessa peninga á að nota fyrir áramót. Ég minnist þess ekki, frú forseti, að hafa séð nýjan menningarsamning undirritaðan nýlega, þó mikið hafi verið sagt frá samningum í fjölmiðlum. Ég hugsa að það verði þá heldur betur að drífa sig til verksins ef á að koma þeim 120 millj. kr. í lóg fyrir áramót og nýta. Nema ef vera kynni að þetta væri raunverulega hugsað enn einu sinni á skjön við fjárreiðulögin. Að það væri meðvitað verið að velta því fyrir sér að nýta eitthvað af þessu á næsta ári. Ekki vitum við, því ekki fáum við upplýsingar um það. En hér er alveg augljóslega hvort sem er verið að fara á skjön við fjárreiðulög.

Fleiri dæmi væri hægt að nefna. Ég ætla að láta að duga að nefna tvö til viðbótar. Annað er nokkuð sérkennilegt orðalag sem ég hef áður gert að umræðuefni, ef ég man rétt, við 1. umr. um fjáraukalögin en ekki fengið neina skýringu á. Við í fjárlaganefnd höfum hins vegar fengið sundurliðun á ákveðnum kostnaði. Í frumvarpinu segir varðandi þetta, en um er að ræða aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins sem óskar eftir og tillaga er gerð um að fái 10 millj. kr. vegna vinnu við gerð frumvarps um fjölmiðla. Notað er það sérkennilega orðalag að ekki sé talið eðlilegt að aðalskrifstofan beri kostnaðinn. Ekki er talið eðlilegt að aðalskrifstofan beri slíkan kostnað.

Nú skyldi maður ætla að það væri eðlilegt að aðalskrifstofan, þegar hún setur einhverja vinnu í gang, átti sig á hversu mikill kostnaður muni falla á verkið. Það hljóti að vera eðlilegt. En ég get engan veginn séð að þetta orðalag eigi við, að það geti ekki talist eðlilegt að aðalskrifstofan beri kostnaðinn sem hún leggur sjálf til. Hann hefur varla verið ófyrirséður. Þetta er því enn eitt tilfellið um að óeðlilegar tillögur eru í fjáraukalagafrumvarpinu.

Frú forseti. Síðasta dæmið sem ég ætla að nefna er um að ekki getur verið um ófyrirséð útgjöld að ræða. Ég tek enn fram að ég er ekki að lýsa nokkurri skoðun á því verki sem um er rætt. Um 354,5 millj. kr. framlag er að ræða til að styrkja byggingu reiðhalla, reiðskemma og reiðskála. Mjög góð mál sem verið er að gera í samvinnu við hestamannafélög og afskaplega gott sem slíkt og á vonandi eftir að skila hestaíþróttinni verulega fram á við. En hér getur ekki verið um ófyrirséð útgjöld að ræða. Það er algerlega ómögulegt. Því að ákvörðun hefur verið tekið um að styrkja félögin eða taka þátt í þessu verkefni með félögunum og sú ákvörðun hlýtur að hafa verið meðvituð, en ekki eitthvað sem menn hafa allt í einu staðið frammi fyrir að ákveða. Það er því algerlega út úr öllu korti að þetta skuli vera á fjáraukalögum fyrir árið 2006. Þetta á auðvitað að vera á fjárlögum ársins 2007. Þar á þetta heima.

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur nokkuð víða komið við, þótt það hafi ekki verið í framsöguræðunni, sem var skorinorð og nett en ekki víða farið, en andsvörum hefur hv. þingmaður farið nokkuð mikinn og á kunnuglegan hátt að ýmsu leyti. Mér þótti afar magnað þegar hv. þingmaður reisti sig mikið í stólnum og tilkynnti að stefna Framsóknarflokksins væri m.a. sú, og að því mér skildist hafi verið býsna lengi, að lækka matarskattinn niður í 7%. Það er að vísu hárrétt hjá hv. þingmanni að nú virðist stefna Framsóknarflokksins vera orðin sú. En lengi vel var hún allt önnur. Margoft hefur komið fram opinberlega að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki náð saman um þetta fyrr en nú, hafi í raun verið andstaðan í Framsóknarflokknum. Væntanlega vegna þess að Framsóknarflokkurinn vildi koma einhverju öðru fram. En ég verð að segja að í þessu máli hafi, sem betur fer, Sjálfstæðisflokknum tekist að hafa vit fyrir Framsóknarflokknum.

Það er afar sjaldgæft að þannig sé staðið að verki, vegna þess að hin dæmin eru því miður miklum mun fleiri þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beygt Framsóknarflokkinn, hefur hreinlega beygt Framsóknarflokkinn og sveigt hann algerlega frá þeim markmiðum sem sá flokkur hefur margoft lýst. En í þessu tilfelli hefur þetta þó verið á jákvæðan hátt og ég heyri það og trúi því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sé farinn að trúa því sjálfur að þetta hafi alltaf verið stefna Framsóknarflokksins. Ég vona að hv. þingmanni líði bara betur við það og ég samgleðst hv. þingmanni hreinlega yfir því að gleði hans skuli vera mikil yfir því skrefi. Ég ætla ekki að fjalla neitt frekar um það en bara samgleðjast hv. þingmanni með þetta, því hér er verið að stíga skref sem við mörg hefðum talið að hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Þetta verður náttúrlega rætt sérstaklega í 1. umr. sem væntanlega fer fram seinna í dag, þar sem þetta er í frumvarpsformi og þar getum við rætt það nánar. En ég vildi aðeins minnast á þetta því ég taldi rétt að vera með svona jákvæða strauma til hv. þingmanns varðandi þetta og endurtek að ég samgleðst hv. þingmanni yfir því að nú skuli Framsóknarflokkurinn vera orðinn þeirrar skoðunar að þetta hafi trúlega ætíð verið brýnt mál.

Frú forseti. Ég fer að stytta mál mitt en vil rétt undir lokin vekja athygli á að því miður virðist vera afar tilviljanakennt hvernig tekið er á vanda stofnana. Nú vil ég samt rifja upp það sem ég sagði í byrjun ræðu minnar þegar ég rifjaði upp fyrir hv. þingmönnum fjárreiðulögin, að á vanda stofnana á að taka á annan hátt en hér er gerð tillaga um samkvæmt fjárreiðulögunum. Þetta á einmitt að gera í lokafjárlögum eða í fjárlögum næsta árs.

En látum þeirri umræðu lokið að sinni og veltum þá fyrir okkur samhengi hlutanna. Hvernig stendur á því að stefna gagnvart stofnunum er ekki samræmd hvað þetta varðar? Hér er t.d. verið að taka á vanda ýmissa heilbrigðisstofnana, og út af fyrir sig allt gott um það að segja. Eins og ég sagði áðan tók hv. þm. Birkir Jón Jónsson sérstaklega fram að mjög gott samstarf hafi verið milli meiri hluta nefndarinnar og starfshóps heilbrigðisráðuneytisins. Ég ætla ekki að fara yfir allt sviðið því það tæki of langan tíma.

Ég ætla að taka eitt dæmi, annað ráðuneytið, þ.e. menntamálaráðuneytið. Hvernig stendur á því að ekki tókst jafngott samstarf við starfsfólk menntamálaráðuneytisins um vanda ýmissa stofnana þar? Við skulum þrengja þetta og halda okkur eingöngu við framhaldsskólana svo við séum ekki að fara um allt sviðið. Það liggur alveg fyrir og við í minni hlutanum fengum meira að segja að vera með á þeim fundum þegar um þessi mál var fjallað. Eins og kom fram í máli formanns fjárlaganefndar var meiri hlutinn hins vegar algerlega einn með þessi mál gagnvart heilbrigðisráðuneytinu. Þar var hið góða samstarf við meiri hlutann — tek fram sérstaklega, við meiri hlutann. En fulltrúar menntamálaráðuneytisins komu á fund nefndarinnar og við fórum nokkuð vel yfir málin og fengum nokkuð góða kynningu á málefnum framhaldsskólans. Fengum ágæta glærusýningu þar sem um þetta var fjallað. Þar kom fram að ýmsir framhaldsskólar hafa um nokkuð langt árabil átt við ákveðinn halla að stríða sem því miður hefur ekkert verð gert í. Það hefur verið lagfært innan ársins. Margir skólar hafa náð að sýna jafnvægi innan ársins en á milli ára flytjast alltaf, hvað eigum við að segja, gömlu, mögru árin.

Á ákveðnum árabilum var það sem sagt viðurkennt að það hefði verið rangt gefið og reynt var að lagfæra það. Það hefur tekist gagnvart ýmsum skólum innan ársins. En gamli vandinn siglir alltaf með og ekkert gert í því. Hefði maður nú ætlað, miðað við það sem verið er að gera gagnvart heilbrigðisráðuneytinu, að meiri hlutinn hefði hugsanlega getað — kannski hefur hann gert tilraun til að ná góðu samstarfi við starfsfólk menntamálaráðuneytisins en það ekki tekist. Það vitum við ekki í minni hlutanum. Ég vænti þess að talsmaður meiri hlutans gefi okkur skýr svör um hvort sú tilraun hafi verið gerð og hún hafi mistekist og það sé skýringin á því að gert er upp á milli stofnana eins og hér er augljóslega gert.

Á kynningunni sem við í minni hlutanum fengum að sitja, og erum þess vegna ágætlega að okkur í þeim efnum, heyrðum við að margir framhaldsskólar eru með skuldahala sem stöðugt er til staðar. Það var upplýst að líklega hafi síðast eitthvað verið gert í að stytta halann hjá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1993 en síðan eru liðin nokkuð mörg ár.

Við fengum líka að heyra, sem ég trúi að hafi verið að minnsta kosti verið ýmsum í meiri hlutanum ákveðin kennsla, að hið svokallaða reiknilíkan framhaldsskólanna hefur í raun ekki verið reiknilíkan í þeirri merkingu sem menn leggja gjarnan í það orð. Reiknilíkanið hefur ekki verið notað eins og það var hugsað í upphafi, þ.e. til að reikna út kostnaðinn við að reka skóla með ákveðnum nemendafjölda. Nei, reiknilíkanið svokallaða kvað fyrst og fremst hafa verið notað sem skiptilíkan, þ.e. til að skipta ákveðinni upphæð til framhaldsskólanna. Sú upphæð var ekki reiknuð út heldur fundin eftir öðrum leiðum sem starfsmenn menntamálaráðuneytisins gátu að sjálfsögðu ekki lýst fyrir okkur. Þeir fengu eingöngu það hlutverk að nota líkanið til að skipta upphæðinni.

Við þekkjum það frá umræðum fyrri ára að oft á tíðum var nemendafjölgunin vanáætluð. Það var alkunn leið til nokkurra ára. Af og til var hins vegar reynt að áætla fjölgun nemenda rétt en þá var reynt að klípa úr öðrum þáttum. Þannig hófst t.d. umræðan í haust. Í fjárlagafrumvarpinu var hreinlega gerð hagræðingarkrafa upp á 300 millj. kr. til framhaldsskólanna. Nú hefur hins vegar tekist að fá 250 millj. kr. af þeim til baka. Þó er skilinn eftir allur vandi fyrri ára og það sem þarf til að sækja fram í framhaldsskólunum, sem er gífurlega mikilvægt mál. Við höfum séð það í öllum alþjóðlegum samanburði að framhaldsskólastigið stendur hvað verst í þeim samanburði. Þar þarf virkilega að bæta í og er hálfhjákátlegt þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í málaflokknum koma fram og hæla sér af auknu fjármagni til framhaldsskóla landsins en geta ekkert um fjölgun framhaldsskólanema.

Í þessu samhengi er fróðlegt að rifja upp samanburð sem starfsmenn menntamálaráðuneytisins komu með á fund fjárlaganefndar, glærur sem starfsmennirnir kölluðu hagræðingu framhaldsskólans. Þar er talað um hagræðingu framhaldsskólans, hún sett á mælistiku og fundið út að gífurlegur árangur hafi orðið í hagræðingunni með því að bera saman grunnskóla og framhaldsskóla.

Við vitum að grunnskólinn, eftir að hann var færður til sveitarfélaganna, hefur vaxið gífurlega og þjónustan batnað. Þar hefur orðið raunveruleg umbylting. En því miður sanna þessar ágætu glærur ráðuneytisins að framhaldsskólinn hefur ekki fylgt þeirri þróun. Framhaldsskólinn hefur orðið eftir. Það kallar ráðuneytið hagræðingu. Hvaða tölur voru lagðar fram? Jú, í grunnskólanum hefur störfum fjölgað á árabilinu frá 2000 til 2005 um tæp 25%. En nemendafjölgunin hefur aðeins verið 1,6%. Það þýðir að þjónustan hefur stóraukist í grunnskólanum.

Hvernig eru sambærilegar tölur í framhaldsskólunum á sama árabili frá 2000 til 2005? Jú, störfum hefur fjölgað um tæp 5%. En ársnemendum, sem er það viðmið sem ráðuneytið notar til að útdeila fjármunum, hefur fjölgað um tæp 26%. Við sjáum að þarna hefur væntanlega dregið verulega úr þjónustu og ekki að sjá nokkurt samræmi á milli skólastiga. Þetta mun því miður, ef fram heldur sem horfir, skapa breiðari gjá á milli skólastiganna sem ég hélt að væri sameiginlegt markmið og áhugamál allra að reyna að hafa sem minnsta þannig að sem minnst viðbrigði yrðu fyrir nemendur að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Þetta er a.m.k. alþekkt meðal skólafólks sem eitt af þeim vandamálum sem þarf að leysa.

Ég hef heyrt mörg dæmi af foreldrum sem hafa fylgst með börnum sínum í grunnskóla og því að þau fengju ákveðna þjónustu vegna vanda sem nemendurnir hafa átt við að etja. Þeir koma til framhaldsskólans og gera ráð fyrir að sama þjónustan sé til staðar í framhaldsskólunum. Þeim hefur brugðið mjög þegar í ljós kemur að framhaldsskólinn getur ekki boðið upp á hið sama. Þar myndast því miður vandi sem verður að taka á en þetta er eitt af því, eins og annað sem ég hef nefnt, sem bíður nýrrar ríkisstjórnar. Það verður þó að nefna að það er jákvætt í þeim efnum að í það styttist með hverjum deginum að ný ríkisstjórn komist til valda.

Frú forseti. Aðeins aftur að reiknilíkaninu. Það skiptir töluverðu máli til að átta sig á því hvað það kostar í raun að reka framhaldsskólana. Ég sagði áðan, og hef heimildir fyrir því sem allir í fjárlaganefnd urðu vitni að, að starfsmenn ráðuneytisins sögðu að líkanið hefði ekki nýst og ekki þróast eins og það var hugsað heldur hafi það fyrst og fremst verið notað til að skipta fyrir fram ákveðinni fjárupphæð. Að sjálfssögðu er eðlilegt að líkanið verði endurskoðað nákvæmlega. Það þarf að þróa það og taka inn breytingar sem verða á skólastarfi. Það hefur því miður ekki verið gert í þróun líkansins.

Einnig þarf að horfa til þess sem Ríkisendurskoðun hefur bent á. En það er vandi sem þarf einnig að taka á á öðrum vettvangi að Ríkisendurskoðun gerir skýrslur, gera tillögur um hitt og þetta en það er raunverulega engin eftirfylgni og enginn sem ber ábyrgð á að þeim tillögum sé fylgt eftir. Ríkisendurskoðun hefur einmitt bent á að varðandi reiknilíkan framhaldsskólanna sé óeðlilegt að fastakostnaður, eins og stór hluti af húsnæðiskostnaði, skuli tengdur nemendafjölda og taka breytingum miðað við nemendafjölda. Sá fasti kostnaður breytist ekkert eftir nemendafjölda. Það er afar óeðlilegt og eðlilegt að taka slíkt til endurskoðunar. Það kom einmitt fram hjá starfsmönnum menntamálaráðuneytisins að þeir könnuðust við þessa ábendingu en því miður hefði ekkert enn verið gert í þessum efnum. En þessu þarf að breyta og miðað við allt virðist þetta enn eitt verkefnið sem bíður nýrrar ríkisstjórnar og er þá af mörgu að taka og augljóst að upphafstími nýrrar ríkisstjórnar verður verkum hlaðinn. Mörg verkefni bíða og mörg hver afar nauðsynleg.

Frú forseti. Ég hef stiklað á stóru í þeim athugasemdum sem ég hef fram að færa varðandi frumvarpið og þær breytingartillögur sem liggja fyrir um fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2006. Það væri vissulega hægt að tína fleira til en ég lofaði hv. þm. Pétri H. Blöndal í byrjun ræðu minnar að reyna að vera stuttorður og held mér hafi tekist það þokkalega. Ég vona að hv. þingmaður staðfesti að hér hafi verið nokkuð mörg gullkornin.