133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:56]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nokkur misskilningur hjá hv. þingmanni að mér hafi orðið tíðrætt um matarskattinn. Ég minntist aðeins á hann í framhjáhlaupi til að reyna að samgleðjast hv. þingmanni. Hann virtist trúa því að þetta hefði ætíð verið stefna Framsóknarflokksins. Ég ætla ekki að rengja hv. þingmann um hvað hafi verið samþykkt á flokksfundum og flokksþingum. Ég er ekki sérfræðingur í þeim samþykktum. (Gripið fram í.)

Ég trúi því auðvitað að þetta sé rétt hjá hv. þingmanni en það vekur mér fyrst og fremst undrun þar sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins var helsti talsmaður þess að ekki væri rétt að lækka matarskattinn. Ég minni á það að samstarfsflokkurinn, hv. þingmenn samstarfsflokksins, hafa á stundum hreinlega sagt það opinberlega að það sem tefði framkvæmd þessa loforðs Sjálfstæðisflokksins frá síðustu kosningum væri Framsóknarflokkurinn.

Ég held að hv. þingmaður ætti að hjóla í aðra en mig varðandi það mál. Ég held að það sé eðlilegt að menn eigi það sem þeir eiga.

En þeir eru mjög ánægjulegir þessir föstu kaflar í andsvörum og ræðum hv. þingmanns, um hvað allt sé gott og ríkisstjórnin alltaf að bæta, að áfram verði haldið á þeirri braut o.s.frv. Það minnir mig á slagorð Framsóknarflokksins sem ég man ekki alveg hvenær var og er kannski aðeins farinn að ruglast í — mig minnir að það hafi verið „fólk í baksýnisspeglinum“.

Mér sýnist að hv. þingmaður hafi farið og skoðað spegil því ég man eftir því að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti hv. þingmanni á spegil. Frú forseti. Ég held að ég kanni spegilinn sem hv. þingmaður er að horfa í.