133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:00]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst mál að hv. þingmaður horfir eingöngu í baksýnisspegilinn vegna þess að það er ekki horft á neitt annað en það sem er langt aftur á bak og síðan sagt að nú ætlum við að laga. Við erum alltaf að laga og bæta frá því sem við skertum og því sem við breyttum og nú erum við að reyna að fara í rétta átt af því að það eru að koma kosningar. (Gripið fram í: Nei, nei.) Það breytir auðvitað engu en það er afar ánægjulegt að hv. þingmaður virðist vera að venja sig á það að taka helstu málasvið okkar jafnaðarmanna og setja þau fremst hjá sér, þ.e. að hér þurfi að jafna kjörin, auka jöfnuð í samfélaginu.

Hv. þingmaður hefur hins vegar tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem hefur einkennst af því að auka ójöfnuð í samfélaginu. Hv. þingmaður er í þeim hópi sem hefur gengið þá leið að auka skattheimtu á þá sem minnst hafa en létta henni af þeim sem meira hafa. Þetta hefur verið einkenni ríkisstjórnarinnar og í þessu hefur hv. þingmaður tekið þátt, því er verr og miður. En batnandi mönnum er best að lifa og ég ætla rétt að vona að Framsóknarflokkurinn — vegna þess að ég ber ákveðna umhyggju fyrir Framsóknarflokknum þrátt fyrir allt — sé að átta sig og breyta til og ætli nú að skila sér eitthvað nálægt upprunanum en ekki að fjarlægjast hann eins og hann hefur gert jafnt og þétt undanfarin ár. Þá er hugsanlega hægt að hafa eitthvert gagn af Framsóknarflokknum í framtíðinni (Gripið fram í.) en ég hugsa því miður að Framsóknarflokkurinn þurfi örlítið lengri tíma en þessa örfáu mánuði sem eru til kosninga til að ná að endurreisa sig.

Við vonum að Framsóknarflokkurinn nýti næsta kjörtímabil, þegar hann verður úti í horni, hugsi sinn gang og komi síðan eftir það kjörtímabil vígreifur til að taka þátt í að auka jöfnuð í samfélaginu, komi með okkur og verði þá hugsanlega orðinn hæfur til að vera meðreiðarsveinn í ríkisstjórn jafnaðarmanna á Íslandi.