133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:03]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. fjáraukalaga og það hefur verið töluvert mas sem af er deginum eins og við er að búast á slíkum degi. Við erum að leggja lokahönd á fjárlögin fyrir þetta ár, fjárlög sem menn höfðu efasemdir um fyrir ári hvort fengju staðist, (Gripið fram í.) fjárlög sem liggur fyrir að munu líklega enda í árslok með um 20 milljarða kr. meiri afgangi en við gerðum ráð fyrir í upphafi, þ.e. 40–50 milljarða afgangur á fjárlögum er eitthvað sem við höfum ekki séð. Ég tel ekki með sölutekjur þegar þær hafa komið en það eru engar sölutekjur í þessu sem skipta máli þannig að hér tekur ríkið til sín verulega fjármuni og bætir stöðu sína mikið á allan hátt. Það kann svo sem hverjum og einum að þykja sitt hvað um það hvort það sé rétt en a.m.k. liggur fyrir að hér hefur verið mjög vel haldið á málum. Það er almennt viðurkennt í Evrópu að það eru mjög fá ríki þar sem ríkisfjármálin standa eins traustum fótum og á Íslandi. Það eru helst Noregur og Sviss sem þar er um að deila. Þau eru með svipaða stöðu og engar skuldir.

Við getum fagnað því vegna þess að við vitum aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Eins og ég hef sagt einhvern tímann áður þarf ekki alltaf að vera góðæri og það er mjög nauðsynlegt að ríkið standi það vel að vígi að það geti gripið til ráðstafana ef einhvers staðar herðir á og kreppir að þessari þjóð.

Stjórnarandstaðan hefur talað hér nokkuð lengi og nokkuð mikið og eins og við var að búast hefur hún fundið þessu flest til foráttu. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir talaði mjög lengi og var mjög hneyksluð, tók það fram aftur og aftur að hún var mjög hneyksluð og þótti flestir hlutir með ólíkindum. Ég veit ekki hvaða hlutir voru ekki með ólíkindum. Hún var dálítið illskeytt í ræðu sinni og það var greinilegt af málflutningi hennar í hvern veg a.m.k. sumir stjórnarandstæðingar vilja færa þessa umræðu, ef ekki allir stjórnarandstæðingar, ekki ræða efnislega um hversu vel hefur tekist til í efnahagslífi Íslendinga á liðnum árum. Nei, við sáum nefnilega á föstudaginn var, virðulegur forseti, í hvaða farveg stjórnarandstaðan vill leiða þetta.

Það var að mínum dómi dálítill skrípaleikur við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fjárlaga. Hvernig stóð á því, virðulegi forseti? Jú, við skulum rifja þetta aðeins upp.

Á þessu ári hefur ríkisstjórnin gert heilmikla samninga, meiri samninga en nokkurn tíma áður hafði verið gert til að auka velferð til að stækka tryggingakerfið á Íslandi þannig að, eins og við höfum talað um áður, rúmlega 10% aukning á almannatryggingakerfinu var raunaukning milli ára sem ég ætla að sé mesta aukning sem nokkurn tíma hefur verið. Það var gerður samningur sérstaklega við eldri borgara og samtök þeirra og menn lýstu yfir mikilli gleði. Það voru allir mjög kátir, eða hvað? Voru ekki allir mjög kátir? Mig grunar nefnilega að svo hafi ekki verið. Ég held að stjórnarandstaðan hafi ekki verið mjög kát. Hvernig mátti það vera, virðulegi forseti, að hún væri það ekki? Nei, þetta var of gott. Hún varð út undan, hún varð að láta á sér bera. Þess vegna kemur hún allt í einu hér á haustdögum og segir að 5.500 millj. sem er verið að setja í velferðarmálin séu ekki nóg, það þurfi meira. Það þarf að fara með aukninguna upp í 13 milljarða, ekki 10,5%, nei 25% raunaukningu til velferðarmála.

Það eru kosningar að vori, virðulegur forseti, það á að kjósa. Svo var efnt til þessa gleðifundar á föstudaginn þegar stjórnarandstaðan vildi fá nafnakall um tillögur sínar, hér kom upp hver hv. þingmaður á fætur öðrum og gerði grein fyrir atkvæði sínu, gerði réttara sagt grein fyrir því hversu góður hann væri. Það var akkúrat leikritið, að sýna hina góðu stjórnarandstöðu og hina vondu stjórnarsinna. Þetta átti alltaf að vera spurning um einhverja góðmennsku. Það er hörmulegt, virðulegur forseti, þegar svo er komið fyrir þinginu að keppnin er um það hvort menn séu góðir eða vondir. Það er alveg skelfilegt. Ég efast ekkert um að hv. þingmenn, hvort sem þeir eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar, séu mjög góðir menn, ég efast ekkert um það. Það hefur hent ýmsa að vera stjórnarsinnar og ráðherrar og þurft að lifa við það að kjör fólks, öryrkja og ellilífeyrisþega, hafa rýrnað. Þurft að lifa við það, þurft að vera félagsmálaráðherra kannski árum saman við þær aðstæður að kjör fólksins rýrnuðu. Aldrei hef ég efast t.d. um það að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hafi þótt það mjög slæmt. Ég veit að hún er mjög góð kona, ég efast ekkert um að hún hefur þjáðst mikið. En hvernig stóð á því að kjörin versnuðu? Var það vegna þess að stjórnin var vond? Nei, það var vegna þess að aðstæður í þjóðfélaginu voru mjög slæmar. Það voru erfiðleikar í efnahagslífinu. Þess vegna rýrnuðu þau.

Núna, þegar við getum bætt kjör fólks, er það ekki af góðmennsku þingmanna, hvorki stjórnarþingmanna né stjórnarandstæðinga. Það er vegna þess að það er góðæri í landinu, efnahagslífið gengur vel. Þess vegna er þetta hægt. Þess vegna er það mjög slæmt ef þingið vill setja þetta í þær skorður að fara að metast um góðmennsku manna eða velvild. Við trúum því öll að Íslendingar geti lifað góðu lífi í þessu landi en til þess þarf að halda rétt á hlutunum og það hefur tekist með þeirri efnahagslöggjöf sem við höfum sett okkur á umliðnum árum og áratugum, gjörbreytt því þannig að íslenskt efnahagslíf skilar meiri og betri árangri en áður. Þess vegna fáum við 20 milljörðum meiri tekjur á árinu 2006 en við ætluðum. Efnahagslífið skilar miklu meiri afgangi og miklu meiri hagnaði og þannig miklu meiri tekjum í ríkissjóð. Þessu eigum við að fagna. Við skulum vona að ríkissjóður standi það vel í dag að hann geti tekið við ef á móti blæs.

Sumt í ræðum hv. þingmanna er náttúrlega skiljanlegt. Þegar við göngum frá fjáraukalögum er þar ýmsu ábótavant og mætti betur fara. Mér fannst þó, virðulegur forseti, hrapallega ósanngjarnt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni þegar hann hélt langa ræðu um afkomu heilbrigðis- og sjúkrastofnana. Þetta hefur verið viðfangsefni okkar svo lengi sem ég man eftir mér og það hefur alltaf gengið þannig að það hefur verið erfiðleikum bundið að átta sig á fjármagnsþörf þessara stofnana. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess og það hefur alls ekki tekist eins og skyldi, það er langt frá því. Við höfum vonast til þess að okkur takist að hafa betra hald á þessu en áður. Það tekst að sumu leyti, margar stofnanir standa mjög vel eða ágætlega, aðrar ekki. Mér finnst mjög ósanngjarnt hjá hv. þingmanni þegar hann segir að fjárlaganefnd Alþingis sem vann af heilum hug við að leggja fram mjög margar tillögur til að bæta fjárhag þeirra og skera niður halann stundi aumt yfirklór, eins og hv. þingmaður kallaði það. Við lögðum okkur alla fram við að fara í gegnum þetta.

Hins vegar liggur fyrir að það er mjög erfitt að átta sig á rekstrarvanda sumra stofnana. Það er ekki nokkurt einasta samræmi á milli nýtingarinnar í stofnununum eða fjárhagsafkomu þeirra. Okkur tókst samt að leysa peningavandræði flestra þeirra. Nokkrar liggja eftir vegna þess að við gátum ekki fundið nokkurn einasta flöt á því að vita hvernig við áttum að koma til þeirra fjármunum. Eða er það kannski þannig að hv. þm. Jón Bjarnason telur rétt hjá ríkinu að auglýsa um hver áramót hvernig staðan er og borga svo alltaf brúsann? Eigum við þá alltaf að borga eins og hann sagði? Eins og raunveruleikinn er, sagði hann, það ætti að borga eins og raunveruleikinn er.

Hvernig haldið þið að það yrði, virðulegur forseti? Það ætti bara alltaf að borga. Á þá að henda öllu því sem búið er að vinna að í ein 10 ár, öllu RAI-matinu og öllum tilraunum til að meta hjúkrunarþyngdina og allt sem við erum að gera? Eigum við að henda því öllu fyrir róða og segja: Hver er skuldin á áramótum, við borgum það bara eins og raunveruleikinn er? Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaust, virðulegur forseti. Við erum að reyna að ná tökum á þessu. Okkur hefur tekist það að sumu leyti en það er mjög margt eftir varðandi heilbrigðisþjónustuna og kostnaðinn við heilbrigðismálin sem ég hef mjög oft gert að umræðuefni í sambandi við fjárlögin, mjög oft farið yfir það við hvaða vanda við Íslendingar eigum að stríða varðandi það að við getum ekki hamið kostnaðinn. Við erum með flest sjúkrarúm á þúsund íbúa af öllum þjóðum heims. Við erum næstyngsta þjóð Evrópu, við erum næstríkasta þjóð Evrópu. Verga landsframleiðslan hér er í 3. eða 4. sæti í Evrópu. Samt eyðum við 10–11% af landsframleiðslunni í heilbrigðismálin og dugar ekki til. Þetta er vandamál sem við skulum ekki hlæja að, ekki gera þannig að við séum bara með eitthvert aumt yfirklór. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda sem okkur hefur ekki tekist að leysa. Hins vegar eru heilbrigðismálin í mjög góðum farvegi þannig að það er hvergi betri heilbrigðisþjónusta en á Íslandi. Ríkið stendur frammi fyrir því að það verður að ná betri tökum á þessum hlutum, það verður að gera það.

Ég sé ekki ástæðu til að fara efnislega meira ofan í þetta mas sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum. Íslenska ríkið stendur mjög vel. Þessi fjárlög sem við afgreiðum núna eru með meiri afgang í rekstri en nokkurn tíma áður. Við erum með betri afkomu í ríkisfjármálum en hjá nokkurri annarri þjóð. Við skulum þakka fyrir það. Við eigum bara að þakka. Það er miklu nær fyrir okkur að vera þakklát en að fárast yfir því hvernig hlutirnir standa. Ég skil vel stjórnarandstöðuna. Hún hefur mjög lítið að segja um þetta. Þess vegna reynir hún að fara með masi austan við sól og sunnan við mána eins og vanalegt er þegar menn hafa lítið um að ræða. Það er svoleiðis sem þetta gengur fyrir sig og við þekkjum það frá fyrri tíð, verður eflaust þannig áfram og er ekkert við því að segja.

Ég vil samt segja það hér, virðulegur forseti, að ég sé ástæðu til að þakka öllum meðnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd fyrir mjög mikið og gott samstarf á þessu hausti. Það reynir mikið á menn í þessari nefnd, þeir þurfa mikið að vinna saman en það reynir mjög mikið á það að þeir séu samheldnir og fari skipulega í þessa miklu vinnu. Okkur hefur tekist það á þessu hausti og fyrir það er ég þakklátur og vil koma þeim þökkum til þeirra allra.

Þessi 45 þús. millj. afgangur á fjárlögum er eitthvað sem við skulum vera þakklát fyrir. Við skulum vonast til þess að framtíðin verði björt á Íslandi en minnast þess líka að það er gott að eiga borð fyrir báru ef svo færi, sem oft hefur gerst áður, að það syrti eitthvað á dalnum. Ég á von á því að svo gæti hent en þá þurfum við ekki að örvænta vegna þess að við höfum sterkan ríkissjóð sem getur tekið á og varið kjör þeirra sem verst eru staddir.