133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla því að svona sé talað um fjarstadda menn úr ræðustóli Alþingis og þeir rægðir með þeim hætti sem hér var gert. Ég vil byrja á því að mótmæla því. Það er ekki hv. þingmanni til sóma að tala svona um fjarstadda menn sem heimsóttu fundi fjárlaganefndar.

Virðulegi forseti. Ég vil að við ræðum þetta mál efnislega. Ég vil spyrja hv. þingmann. Hann lýsti því hér í ræðu sinni að íslenska ríkið stæði mjög vel. Hann barði sér hér á brjóst og fór yfir það. Það er rétt. Tekjujöfnuðurinn er mun meiri en búist var við og mikið stendur eftir eða um 20 milljörðum meira en gert var ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Við vitum það líka að launatekjur ýmissa hópa hafa hækkað mikið og hér hefur verið uppsveifla og kaupmáttur aukist mikið. En ég verð að spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Hvers vegna hefur það verið látið gerast að kaupmáttur lífeyrisþega (Forseti hringir.) hafi verið látinn hækka helmingi minna annarra í landinu? Þannig hefur þessum hópi verið haldið niðri markvisst með lagasetningu frá Alþingi.

(Forseti (JóhS): Ég vek athygli á því að klukkan í ræðustólnum er ekki rétt. Hv. ræðumaður hafði aðeins eina mínútu til umráða. Það hefur næsti ræðumaður líka.)