133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:36]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið nokkuð vítt um í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga og víða komið við eins og gefur að skilja og að mörgu leyti hefur það snúist upp í nokkuð almenna stjórnmálaumræðu um fjárlög, áherslur og áhersluleysi meiri hlutans við fjárlagagerðina. Ég ætla að koma sérstaklega inn á nokkra þætti.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir flutti afskaplega athyglisverða og skorinorða ræðu þar sem hún tók sérstaklega til vaxtabæturnar og þau alvarlegu svik sem eiga sér stað hjá ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega Framsóknarflokknum, hvað varðar vaxtabótamálin. Því var lofað hástemmt fyrir nokkrum missirum að í fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar, í sérstakri stefnu ríkisstjórnarinnar, yrðu vaxtabæturnar sérstaklega settar fram. En svo kemur í ljós að á ferðinni er aðför að vaxtabótakerfinu þar sem vaxtabætur í skjóli Framsóknarflokksins eru lægri, yfir 220 millj. kr., en árið 2003 og milljarði lægri ef reiknað er út frá vísitölu en vera ættu á fimm ára tímabili. Það er grafalvarlegt mál þegar verið er að svíkja þá sem mest þurfa á vaxtabótum að halda, fólkið sem hefur lægri tekjur, fólkið sem er að byggja yfir fjölskyldu sína, fólkið með börnin. Verið er að svíkja þá hópa í samfélaginu um vaxtabæturnar sem voru á meðal meginstoða í loforðum stjórnarflokkanna á sínum tíma um að staðið yrði við. Og það er náttúrlega alveg sérstök saga á bak við skattleysismörkin, hvernig þau hafa staðið í stað og skattbyrði lágtekjufólks aukist stórkostlega á þeim tíma á meðan skattbyrði hinna tekjuháu, skattbyrði þeirra sem háar hafa tekjurnar og lifa af fjármagnstekjum og slíkum hlutum, hefur minnkað, hefur helmingast niður á við.

Ef við lítum aðeins yfir skattkerfið til að átta okkur á um hvað er að ræða í fjáraukalögunum, kemur í ljós að skattbyrðin jókst um rúmlega 10% á tíu árum samkvæmt skýrslu frá OECD og skattheimtan sem var 32% af vergri landsframleiðslu árið 1995, þegar núverandi ríkisstjórn tók við af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, fór upp í 42% samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2005. Skattbyrðin, skattheimtan af landsframleiðslu hefur sem sagt aukist úr 32% í 42%, það er gífurleg aukning. Af þeim 24 löndum sem OECD tekur til er mesta aukning í skattprósentu á Íslandi eða um 3,7 prósentustig. OECD ber einnig saman hvar mestu breytingarnar hafa orðið á skattheimtu sem hlutfall af landsframleiðslu á milli áranna 1995 og 2004 og samkvæmt þeim lista er Ísland í öðru sæti með tæplega 8% aukningu.

Það er sérstaklega fróðlegt í því ljósi að líta til þess hvar sú mikla skattheimta, þessi mikla aukning á skattheimtu á þeim tíu árum, kemur niður. Kemur hún niður á hátekjufólkinu sem hefur efni og stöðu á að borga hærri skatta? Nei, hún kemur fyrst og fremst niður á fólkinu með lágu tekjurnar og bótaþegunum. Jafnnöturlegt og það nú er er hin aukna skattheimta fyrst og fremst tekin þar. Hátekjuliðið er að sjálfsögðu látið í friði, að sjálfsögðu segi ég, þegar áherslur hægri stjórnarinnar eru skoðaðar. Hátekjufólkið borgar miklu minni skatta en fyrir tíu árum en lágtekjufólkið og bótaþegarnir borga skatta af sínum lágu launum. Þegar litið er á skatta á tekjur og hagnað hafa þeir nálega tvöfaldast á sama tímabili, úr 10% af landsframleiðslu í tæp 19%. En ef einungis eru skoðaðir skattar á tekjur einstaklinga hafa þeir aukist úr 9,7%, tæplega 10% af landsframleiðslu fyrir 11 árum, í 14,3% árið 2004, á tíu ára tímabili. Þannig kemur fram að tekjuskattur af einstaklingum hefur aukist um tæpan helming á tímabilinu og skattar á tekjur fyrirtækja um 0,9% af landsframleiðslu í 1,3%. Hér eru mjög merkilegar tölur á ferðinni og mjög afhjúpandi fyrir þá pólitík sem er í rauninni rekin í landinu fyrir undirstöðuna að þeim stjórnmálum sem hægri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur staðið fyrir á síðustu tíu árum, sem hefur einkum falist í því að ráðast í mjög stórbrotnar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir og hins vegar að lækka skatta og álögur á fólk með háar tekjur og auka raunverulega skattbyrði á þá sem hafa lægri meðaltekjur og lífeyrisþega. Kjör þessara hópa, kjör þeirra sem hafa það verra í samfélaginu hafa versnað. Bilið á milli ríkra og fátækra, bilið á milli efnafólksins og efnalítils fólks hefur aukist stórkostlega í samfélaginu á síðustu árum og á áratug hefur skapast gjá á milli stétta og hópa í íslensku þjóðfélagi. Það er í rauninni það sem öllu skiptir þegar við hefjum umræðurnar um þetta allt saman, setjumst yfir smáatriðin og einstök atriði og ræðum um stóru myndina. Hvernig heildarmynd íslenskra stjórnmála hefur breyst á umræddum áratug, á þeim tólf árum sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur verið við völd.

Efnahagskerfið hefur verið keyrt áfram af mjög stórbrotnum og umdeildum framkvæmdum á vettvangi stóriðju og virkjana. Auðurinn sem hefur orðið til í samfélaginu er orðinn miklu misskiptari en nokkurn tíma áður í Íslandssögunni og á sér engan samjöfnuð.

Fátækt fólk, eldra fólkið, öryrkjarnir og lífeyrisþegarnir lifa við mjög kröpp kjör á Íslandi í dag. Þeir eru fastir í fátæktargildru sem ríkisstjórnin hafnar að losa þá út úr, samanber afgreiðslu meiri hlutans á sameiginlegri tillögu stjórnarandstöðuflokkanna, Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins fyrir örfáum dögum og var ríkisstjórnarflokkunum til skammar þar sem þeir höfnuðu því að forgangsraða fjármununum í þágu þeirra sem langmest þurfa á því að halda. Það eru forgangsstjórnmál umfram öll önnur verkefni í samfélaginu að hækka laun lífeyrisþeganna í landinu og gera fólki kleift með því að hækka tekjuviðmið, hækka frítekjumarkið og afnema tekjutenginguna við laun maka, gera því fólki kleift sem lifir á lífeyri hvort sem það er vegna örorku eða hás aldurs, að lifa með sóma, reisn og virðingu í íslensku samfélagi. Það er lykillinn að mildara og manneskjulegra samfélagi en því var sópað út af borðinu í einni atkvæðagreiðslu af stjórnarflokkunum fyrir nokkrum dögum. Það var átakanleg atkvæðagreiðsla að því leyti og það var mjög leitt að stjórnarflokkarnir sáu sér ekki hag í að koma að þeirri tillögu stjórnarandstöðunnar og afmá eða minnka þá skömm sem kjör margra lífeyrisþega eru í íslensku samfélagi. Við munum það vel fyrir 5–6 árum þegar samfélagið var skekið til og frá í mjög hörðum og illvígum deilum um öryrkja þegar íslenska ríkisstjórnin var rekin fyrir Hæstarétt hvað eftir annað í mannréttindabaráttu öryrkja fyrir mannsæmandi lífi og sjálfsögðum réttindum. Það þurfti að reka hægri stjórnina fyrir Hæstarétt og dómstóla hvað eftir annað til að ná fram sjálfsögðum mannréttindabótum á lífi þessa fólks. Og áfram skal keyrt í þá áttina.

Af því að stjórnarflokkunum hefur verið tíðrætt um skattalækkanirnar eða, eins og það var orðað, þá hrinu skattalækkana sem átt hefur sér stað á Íslandi á síðustu árum, hljótum við að spyrja við umræður um fjárlög og fjáraukalög: Hver er þá staðan að skattalækkunarhrinunni lokinni? Hún er einfaldlega sú að það er orðin gjá á milli stétta í íslensku samfélagi. Það er dýpkandi gjá, hylur á milli hópa og stétta í samfélaginu, og þeir sem hafa háu launin og lifa við velsæld og auð búa einfaldlega í allt öðru samfélagi en þeir sem lökust hafa kjörin. Þeir sem lægst hafa launin, þeir sem verið er að svíkja um vaxtabætur, þeir sem verið er að svíkja um eðlilegar og sjálfsagðar breytingar á lífeyriskerfinu lifa í allt öðru samfélagi heldur en það fólk. Hálaunafólkið og þeir sem hafa það gott í íslensku samfélagi lifa í allt öðru þjóðfélagi en fátæka fólkið, eldra fólkið, bótaþegarnir, lífeyrisþegarnir. Og núna við þau tímamót þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks flytur sín síðustu fjárlagafrumvörp á þessu kjörtímabili — þetta síðasti veturinn áður en við göngum til vonandi sögulegra alþingiskosninga hinn 12. maí 2007 — hafnar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks því einstæða tækifæri að snúa þessari þróun örlítið við. Að ganga fram af réttlæti og sanngirni gagnvart þeim hópum í samfélaginu þar sem aftur á móti öll stjórnarandstaðan nær samkomulagi um að leggja til hliðar allar aðrar breytingartillögur við fjárlögin til að standa saman að tillögu um að bæta hlut þeirra sem hafa það slæmt efnalega í íslensku samfélagi, gamla fólksins sem hefur ekki sjóði til að sækja í eða fær háan lífeyri, fólksins sem lifir á berstrípuðum bótagreiðslum, öryrkjanna sem haldið er í fátæktargildru með skerðingunni við launatekjur og tekjur maka, sem er ekkert annað en mannréttindabrot og skammar- og smánarblettur á íslensku samfélagi.

Ég held að þorri Íslendinga skammist sín fyrir hvernig komið er fram við gamla fólkið, sem hefur ekki fjármagn eða fjármagnstekjur til að lifa af aukalega, við bótaþegana, öryrkjana og þá sem þurfa að lifa á strípuðum lífeyrisgreiðslum. Ef eitthvert mál sameinar íslensku þjóðina þá held ég að það sé viljinn til að gera vel við þetta fólk, að forgangsraða fjármunum hins opinbera á þann hátt að þetta fólk geti lifað með reisn, með sama hætti og aðrir í þjóðfélaginu sem hafa það gott, hafa ágætar tekjur og geta lifað góðu lífi. En því miður hafnaði ríkisstjórnin þessu sögulega tækifæri, þessu síðasta tækifæri sínu til að snúa við hinni alvarlegu þróun til aukins ójafnaðar, þróun sem er ævintýraleg á þeim 10–12 árum sem ríkisstjórn hægri flokkana hefur setið. Ríkisstjórnin hafnaði sögulegu tækifæri, sjálfsagt af þeirri einföldu ástæðu að ekki er pólitískur vilji í flokkunum til að snúa þessari þróun ójöfnuðar, ranglætis og óréttlætis við. Það er alvarlegt mál. Ef kjósa á um eitthvað í vor á að kjósa um hvernig við viljum forgangsraða í samfélaginu, hvernig við viljum breyta samfélaginu, hvernig við viljum horfa á þessa þróun á næstu tíu árum.

Hvernig í ósköpunum halda menn að staðan verði eftir tíu ár í viðbót undir stjórn sömu hægri flokka? Hún yrði að sjálfsögðu óskapleg af því að á síðustu tíu árum hefur orðið gríðarlega breyting á, gjá hefur myndast milli stétta og hópa í þjóðfélaginu og menn geta ímyndað sér hvernig yrði hér umhorfs eftir tíu ár í viðbót ef sömu flokkar sætu áfram við völd. Þess vegna er svo mikilvægt að skipta um ríkisstjórn í vor og þess vegna þurfa kosningarnar í vor að snúast um ójöfnuðinn, að snúast nákvæmlega um það hvernig við viljum að þessum málum sé háttað í íslensku samfélagi eftir nokkur ár, hverjir eiga að bera byrðarnar og hverjir eiga að standa undir samfélaginu. Dregið hefur mest úr skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar, skattbyrði þeirra hefur helmingast niður á við, úr 35% af tekjum en var 15,8% af tekjum árið 2004. Hins vegar hefur mesta aukning skattbyrði orðið í tekjulægstu hópunum þar sem hún hefur í mörgum tilvikum margfaldast. Ef litið er til tekjulægsta fjórðungsins hefur skattbyrði þeirra tvöfaldast eða meira.

Stefán Ólafsson prófessor á mikinn heiður skilinn fyrir umfjöllun sína um íslenska kerfið, íslensku leiðina, það fyrirkomulag sem við búum við, höfum byggt upp og hefur verið að þróast á síðustu árum. Stefán skýrir það svo að rýrnun skattleysismarka hafi aukið skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa meðan óvenjulágur fjármagnstekjuskattur skýri einkum lækkaða skattbyrði hátekjufólks. Þetta er í sjálfu sér ósköp einfalt mál en þróunin hefur verið mjög hröð á síðustu árum. Það sem við eigum að hafa í huga þegar við göngum inn í kosningabaráttuna sem hefst upp úr áramótum og lýkur 12. maí í vor, eru afleiðingarnar af þessu og er hver staðan er en hún er nákvæmlega sú að Ísland er í fjórða sæti þeirra þjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem tekjuskiptingin er ójöfnust samkvæmt margfrægum Gini-stuðli, aðeins Lettland, Portúgal og Tyrkland búa við meiri ójöfnuð og Bretar og Eistlendingar koma þar á eftir. Þessu er fullkomlega öfugt farið á Norðurlöndunum þar sem ég held að Íslendingar vilji almennt skipa sér á bekk. Við munum kjósa um það í vor hvort Ísland eigi að verma áfram ójafnaðarbekkinn með Bandaríkjunum og þeim löndum sem ég taldi upp áðan eða fara norrænu leiðina til jöfnuðar og réttlætis þar sem Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Noregur mynda hóp þeirra landa þar sem tekjuskiptingin er jöfnust, ásamt reyndar Slóveníu og Tékklandi. Auðvitað eigum við að fara norrænu leiðina og jafna hlut þess fólks í landinu sem hefur hæstar tekjurnar og lægstar. Við eigum að sjálfsögðu að lækka fjöllin og hækka dalina og um það á að kjósa í vor.

Við hljótum að fara rækilega yfir þetta allt núna þegar verið er að afgreiða fjárlög og fjáraukalög frá þinginu. Eins og ég nefndi áðan fór hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, í sinni góðu og vönduðu ræðu, ítarlega yfir vaxtabótamálin þar sem ríkisstjórnin boðaði 430 millj. kr. hækkun framlaga vegna vaxtabóta í frumvarpinu en þrátt fyrir það verða útgjöldin vegna bótanna 220 millj. lægri en þau voru árið 2003. Í raun og veru er því verið að svíkja fólkið sem þarf mest á vaxtabótum að halda um vaxtabætur upp á milljarð ef reiknað er út frá þeim viðmiðunum sem rétt er að gera.

Ef við tækjum mið af þróun vísitölu neysluverðs frá 2003 til september 2006 eru áætluð útgjöld vegna vaxtabóta að raungildi 968 millj. kr. lægri núna þau voru en þá. Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom inn á hefur ríkisstjórnin beitt margvíslegum aðferðum á kjörtímabilinu til að skerða vaxtabæturnar. Því eru þetta að sjálfsögðu ekkert annað en svik af hálfu ríkisstjórnarinnar við fólk sem gerði sér vonir um vaxtabætur og þarf svo nauðsynlega á þeim að halda, sérstaklega í ljósi þess hver þróunin hefur verið á húsnæðismarkaði á síðustu árum og hve margir hafa farið út í það að offjárfesta í húsnæði og þurfa mjög á bótunum að halda, fólk sem er með millitekjur, lægri millitekjur og lágar tekjur, fólk sem er að eignast og ala upp börn og er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn.

Hitt sem ég vildi koma inn á við 3. umr. um fjáraukalög, og hv. þm. Einar Már rakti hér nokkuð áðan, er þegar verið er að elta uppi hallann í menntakerfinu til að loka þar hinum ýmsu liðum eins og auðvelt er að gera og hver staðan er í framlögum til menntamála og í íslenska menntakerfinu. Það er sérstaklega athyglisvert að velta því fyrir sér í ljósi þeirrar umræðu sem t.d. fer fram í háskólunum sjálfum, en hinn 11. maí síðastliðinn var samþykkt mjög vandað og yfirgripsmikið stefnuplagg um framtíð íslenska háskólans þar sem metnaðarfull, vel skilgreind markmið, framtíðarsýn og leiðir til að ná markmiðunum, aðgerðaráætlun, fylgir plagginu, þar sem rætt er um afburðaárangur og framúrskarandi háskóla, sem ég er ekki í neinum vafa um að er bæði metnaður og mannafli til að ná. En það strandar allt á einu: Það er á metnaðarleysi ríkisvaldsins, á skorti og ónógum framlögum til að við förum þó ekki nema í áttina að því að koma Háskóla Íslands, íslenska rannsóknarháskólanum, í hóp þeirra 100 bestu í heimi, hvað þá þeirra 500 bestu í heimi.

Það er einfaldlega svo, virðulegi forseti, að fjársveltið ógnar gæðum háskólanna eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar dró mjög glögglega fram í fyrra um fjárskort Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, opinberu háskólanna. Skólarnir eru einfaldlega komnir í þrot, þeir nýta fjármagnið vel en þeir komast ekki lengra. Ef gæði skólanna eiga ekki að dragast verulega saman þurfa þeir annaðhvort að fá verulega aukin framlög frá hinu opinbera, heimild til innheimtu hárra skólagjalda og/eða heimild til að vísa frá töluverðum hluta þeirra sem sækja um inngöngu þar sem væri mjög drastískt skref. Menntamálaráðherra og meiri hlutinn á Alþingi, hinn metnaðarlausi meiri hluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í skólamálum, hefur svarað þessu með mjög einföldum en undarlegum hætti, þ.e. að skólarnir sjálfir verði að marka þá braut hvort þeir vilji innheimta skólagjöld af nemendum sínum eða ekki, að skólarnir skuli sjálfir kveða upp úr um það hvernig þeir eigi að vera fjármagnaðir, það sé ekki pólitískt málefni ríkisstjórnarinnar. Það er með algerum ólíkindum að velta þeim beiska bikar í fangið á skólunum sjálfum af því að það er stórpólitísk spurning og það er algert grundvallarmál, eitt af grundvallaratriðunum í íslensku samfélagi. Rétt eins og það er grundvallarmál hvernig við skattleggjum einstaka tekjuhópa í þjóðfélaginu þá er algert grundvallarmál hvernig við fjármögnum háskólana, hvort við veljum það að láta nemendur borga há skólagjöld eða hvort við kjósum að hafa gjaldfrjálsa menntaleið eins og ég og Samfylkingin og við jafnaðarmenn styðjum. Jafnaðarstefnan felst að sjálfsögðu fyrst og fremst í því að hér sé til staðar gjaldfrí menntaleið frá leikskóla og upp í gegnum grunnnám í háskóla. Það er hið minnsta. Rétt eins og jafnaðarstefnan felst í því að lækka fjöllin og hækka dalina í tekjuviðmiðunum og endurskipuleggja skattheimtuna þannig að skattbyrði einstakra hópa, tekjuhópa í samfélaginu, séu ekki með þeim hætti sem ég lýsti áðan, þar sem skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hefur helmingast niður á við en skattbyrði þeirra sem lægstar hafa tekjurnar hefur tvöfaldast hið minnsta. Ójöfnuðurinn hefur vaxið gríðarlega. Eins og það er inntakið í jafnaðarstefnunni að draga úr ójöfnuði og auka jöfnuð með beinum hætti í samfélaginu þá er það að sjálfsögðu eitt helsta baráttumál jafnaðarmanna að bjóða upp á bestu skóla í heimi, bestu leikskóla í heimi, gjaldfrjálsa leikskóla, bestu grunnskóla í heimi, gjaldfrjálsa grunnskóla, bestu framhaldsskóla í heimi, gjaldfrjálsa framhaldsskóla, bestu háskóla í heimi, gjaldfrjálsa menntaleið alla leið frá leikskóla og upp í gegnum háskóla.

Fjársveltið og fjárhagsstaðan ógnar að sjálfsögðu gæðum þessara stofnana í dag. Staðan er þannig að háskólarnir eru í fjárhagskreppu og besta dæmið um það er að núna eru yfir 500 virkir nemendur við Háskóla Íslands umfram kennslusamning. Fjárveitingar til rannsókna við skólann hafa farið lækkandi á liðnum árum og framlag ríkisins á hvern nemanda er núna lægra en árið 1999, fyrir sjö árum.

Auðvitað hafa heildarframlögin aukist verulega enda stunda fleiri nám í háskólum um allan hinn vestræna heim en fyrir tíu eða fimmtán árum síðan. Nemendaframlagið dregur fram kjarna málsins og fjárveitingar á nemanda hafa farið lækkandi á síðustu sjö, átta árum. Áralangt fjársvelti verður alvarlegra með hverju árinu, ógnar gæðum skólanna og vegur að stöðu Háskóla Íslands sem eina rannsóknaháskóla þjóðarinnar á sama tíma og menntamálaráðherra talar fjálglega um að það sé frá henni komið að Háskóli Íslands eigi á næstu fimm árum að ná háleitum markmiðum. Það er talað um það í stefnumótuninni sem ég gat um áðan. Hún nær frá árinu 2006 til 2011 en árið 2011 verður Háskóli Íslands 100 ára gamall. Þetta flaggskip hinnar fullvalda og frjálsu þjóðar er að verða hundrað ára gamalt og af því tilefni settu menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands fram það metnaðarfulla markmið að á þeim tíma skuli Háskóli Íslands komast í hóp 100 bestu skóla í heimi. Það er stórt markmið og jákvætt að Háskóli Íslands og forustumenn hans og menntamálaráðherra hugsi stórt. Það er afskaplega jákvætt.

En hvaða efndir fylgja orðum hæstv. menntamálaráðherra? Nákvæmlega engar. Hæstv. menntamálaráðherra knýr ríkisreknu háskólana niður á hnén til að grátbiðja um heimild til skólagjalda til að komast út úr kreppunni. Menntamálaráðherra sveltir ríkisreknu háskólana til að óska eftir skólagjaldaheimild til að komast út úr fjárhagskreppunni. Það er eina leiðin fyrir skólana meðan þeir fá ekki aukin framlög frá ríkinu, eina leiðin til að koma í veg fyrir að gæði skólanna minnki verulega.

Á sama tíma er í gangi hjá hæstv. menntamálaráðherra blekkingaleikur um að undir hennar forustu sé unnið að því að gera Háskóla Íslands að einum af 100 bestu háskólum í heimi. Ja, heyr á endemi. Menntamálaráðherra hefur staðið fyrir því að skólarnir eru fjársveltir, sveltir til að gráta út heimildir til að leggja á skólagjöld.

Við jafnaðarmenn bjóðum upp á betri kosti fyrir næsta vor. Við ætlum að ráðast í umfangsmikið fjárfestingarátak í menntakerfinu. Til að nefna dæmi um það þyrftu framlög Íslendinga til háskólastigsins að vera 4–8 milljörðum kr. hærri á hverju einasta ári til að við stæðum á pari við norrænu þjóðirnar í framlögum til háskólastigsins sem hluta af þjóðarframleiðslu. Við þyrftum að verja um 5–6 milljörðum kr. meira á ári til háskólastigsins. Það væri fjárfestingarátak sem bragð væri að og eitthvað kæmi út úr. Það væri ekki einu sinni nóg til að fylgja eftir hinum háleitu markmiðum en það væri kannski áfangi á þeirri leið og mundi hugsanlega skila okkur í hóp 500 bestu háskóla í heiminum til að byrja með og síðan koll af kolli.

Hjá Háskóla Íslands blasir ekki annað við en að fara fram á heimild til að taka upp harkalegar fjöldatakmarkanir og innheimta há skólagjöld eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar um Háskóla Íslands frá því í fyrra sýnir fram á. Niðurstaða þeirrar fínu úttektar á skólanum var að skólinn væri vel rekinn, fjármagnið gjörnýtt, frábærlega vel nýtt, og það eina sem vantaði væru meiri peningar, annars lægi leið skólans niður á við, ekki upp á við. Flaggskip okkar, Háskóli Íslands, mundi einfaldlega rýrna að inntaki og skólinn ætti enga möguleika á að komast í hóp bestu skóla í heimi.

Ég nefndi að við þyrftum að verja 4–8 milljörðum kr. meira á ári í háskólastigið ef við vildum standa á pari við norrænu þjóðirnar sem allar hafa aukið framlög sín. Það á sérstaklega við Finna. Þegar kreppti að og atvinnuleysi í Finnlandi var fyrir 10–15 árum hátt í 20% þá réðust Finnar í umfangsmikla fjárfestingu í menntakerfi sínu sem núna hefur skilað þeim í hóp ríkustu og best menntuðu þjóða í heiminum. Við verjum um 1% af landsframleiðslu til háskólastigsins á meðan norrænu þjóðirnar og Bandaríkin verja til þess á bilinu 3–5%. Það vantar fleiri milljarða inn í menntakerfið til að aðbúnaðurinn verði þannig að hægt verði að skapa þar aðstæður til að búa til bestu skóla í heiminum. Það er eitt af því orðið hefur eftir á stjórnartíð hægri flokkanna síðustu tólf árin.

Eitt af alvarlegustu dæmunum um forgangsröðun hægri flokkanna síðustu tólf árin er að mínu mati sveltistefnan í menntakerfinu. Það vantar milljarða í það. Um áratuga skeið hafa flestar vestrænar þjóðir aðrar en Íslendingar aukið hlutfall af framleiðslu sinni til menntamála mikið á meðan við sitjum eftir með áherslu okkar á aukna stóriðju sem sókn til nýrra tíma. Tölurnar tala sínu máli. Í skýrslu OECD eru framlög einstakra landa til háskólastigsins eftir þessu. Íslendingar eru eftirbátar í samfélagi þjóðanna þegar kemur að fjárfestingum í háskólastiginu og menntakerfinu öllu að grunn- og leikskólastiginu undanskildu. Eftir að sveitarfélögin tóku við þeim hafa þau opnað upp á gátt fyrir miklar fjárfestingar og framlög til þeirra eru nú með því hæsta í heiminum á meðan framlög til framhaldsskólans og háskólastigsins eru með því lægsta innan OECD-landanna, langt fyrir neðan meðaltal, sérstaklega til háskólastigsins þar sem framlög á nemanda hafa dregist saman síðustu átta ár í stað þess að aukast. Þetta er grundvallaratriði fyrir komandi vetur, þ.e. að háskólastigið, sem hefur verið fjársvelt, verði frelsað úr þeirri spennitreyju.

Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands væri ódýr í rekstri, hefði náð góðum árangri á mörgum sviðum, sérstaklega þegar horft væri til útskrifaðra nemenda í grunn- og meistaranámi. Doktorsnemum fjölgaði einnig töluvert eða úr 36 árið 2000 í 107 árið 2004. Þetta hlutfall þarf þó að sjálfsögðu að margfaldast eigi skólinn að komast í úttektir yfir bestu háskóla í heiminum.

Menntakerfið er ein besta fjárfesting sem er hægt að ráðast í, bæði fyrir einstaklinga og ríkisvaldið, sé það gert með skynsamlegum hætti og inntak skólanna endurskoðað. Talið er að að meðaltali hafi hvert viðbótarár í skóla í för með sér efnahagsleg áhrif fyrir þjóðarbúið á bilinu 3–6% og í kringum 22% tekjuauka fyrir einstakling og ríki að ljúka háskólagráðu. Efnahagslegur ávinningur af aukinni menntun, t.d. á Norðurlöndunum — oft er vísað sérstaklega til Finnlands sem fór með stórbrotnari hætti í slíkar breytingar en nokkur önnur þjóð í heiminum — er hafinn yfir allan vafa. Skýrsla OECD um stöðu máli í 30 löndum er glöggur vegvísir um hvert við stefnum og hvert við ættum að stefna.

Ég nefndi áðan stefnumótun Háskóla Íslands sem samþykkt var á fundi þar í vor, metnaðarfullt og glæsilegt plagg um vaxandi háskóla. Þar er lítillega vikið að fjármögnun og samkeppnisstöðu ríkisreknu háskólanna sem er óviðunandi í dag. Einkareknu háskólarnir hafa heimild til að innheimta án þess að nokkurt þak sé sett á það. Bifröst hækkaði t.d. skólagjöldin óhóflega, að mínu mati, í haust. Einkareknu háskólarnir hafa heimild til að innheimta skólagjöld ofan á nemendaframlögin frá hinu opinbera sem eru jafnhá og til opinberu háskólanna. Þetta er ójafnræði sem kannski var hægt að réttlæta til að byrja með, meðan einkareknu skólarnir voru að koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína, en að sjálfsögðu þarf að leiðrétta stöðuna með einhverjum hætti þegar fram í sækir. Það er á hreinu.

Til að skýra stöðu háskólans má t.d. nefna að í Háskóla Íslands er að meðaltali einn kennari á hvern 21 nemanda á meðan hlutfallið í öðrum háskólum af svipaðri stærðargráðu og umfangi er einn kennari á hverja 15–17 nemendur. Það segir töluvert um stöðuna. Eins er aðbúnaður háskólans og ríkisreknu háskólanna fullkomlega ósambærilegur við það sem gerist hjá skólum á lista 100–200 bestu háskóla í heiminum. Við eigum að gera nýjan sáttmála. Samfélagið á að gera nýjan sáttmála við Háskóla Íslands, við opinberu háskólana, rétt eins og aðra háskóla í landinu, þannig að við höfum hér einn rannsóknarháskóla, sameinaðan rannsóknarháskóla, Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sem yrði á meðal 100–200 bestu háskóla í heimi eftir nokkur ár. Á afmælisárinu árið 2011 sæjum við kannski glytta örlítið í þetta markmið.

Þannig ætti framtíðarsýnin að vera. Í stefnumótunarskýrslunni sem var samþykkt var á háskólafundi 11. maí í vor sagði, með leyfi forseta:

„Til að þjóna íslensku samfélagi leggur háskólinn áherslu á að eiga gott samstarf við stjórnvöld, grunn- og framhaldsskóla, menningarstofnanir, aðra innlenda háskóla, rannsóknastofnanir og íslenskt atvinnulíf. Það gerir okkur kleift að ná markmiði okkar um að skipa skólanum í raðir 100 bestu háskóla heims.“

Við hljótum að velta því sérstaklega fyrir okkur þegar fjárlög og fjáraukalög íslenska ríkisins eru samþykkt hvernig búið er að háskólamenntun og menntun almennt á landsbyggðinni. Flestir viðurkenna það í dag að bestu byggðaaðgerðirnar eru að sjálfsögðu samfélagslegar, í menntun og atvinnulífi um leið, eru aukið aðgengi að menntun úti á landi, að efla menntastofnanir á landsbyggðinni. Við vitum hvaða áhrif Háskólinn á Akureyri hefur haft á stóru svæði fyrir norðan. Hann hefur gjörbreytt samfélaginu. Þar er fjölbreyttara, öflugra, skemmtilegra og betra samfélag en áður en skólinn þar var byggður upp. Það má nefna fleiri menntastofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sem hafa skilað frábærum árangri eins og háskólann á Bifröst og landbúnaðarháskólana á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal. Þetta eru allt stofnanir sem hafa náð frábærum árangri og gjörbreytt mannlífinu á viðkomandi svæðum.

Við eigum að gera menntunina að inntaki nýrrar byggðastefnu, um leið og við eflum samgöngur, tvöföldum vegi og gerum átak í samgöngumálum, sem glyttir ekkert í hjá ríkisstjórninni nema á aumkunarverðum blaðamannafundum hjá hæstv. samgönguráðherra. Þegar rýnt er í það á að tvöfalda og bæta vegina á næstu 100–200 árum. Við erum að tala um raunverulegar úrbætur á næstu missirum.

Við viljum einnig efla þær menntastofnanir sem hafa sprottið upp, að mörgu leyti af sjálfu sér en að mörgu leyti vegna þess að þær voru settar á fjárlög af fjárlaganefnd á sínum tíma, þ.e. fræðslunetin, símenntunarstöðvarnar sem fyrst voru stofnaðar til að bjóða upp á öfluga fullorðinsfræðslu, símenntun og endurmenntun. Þær hafa nú í raun tvö jafngild hlutverk, annars vegar öfluga fullorðinsfræðslu og hins vegar háskólamenntun með fjarnámi sem hefur skipt ótrúlega miklu máli.

Núna stunda t.d. tugir nemenda nám á fræðslunetinu á Selfossi, það eru nemendur við Háskólann á Akureyri í hjúkrunarfræði, tugir nemenda sem sækja úr heimabyggð sinni háskólanám, hjúkrunarfræði eða kennaramenntun. Ég hitti þennan hóp í haust þegar hann barðist fyrir því að fá aukin framlög. Hve margir hefðu farið í nám ef ekki hefði verið boðið upp á þetta fjarnám? Meira en helmingurinn sagðist líklega ekki hafa farið í háskólanám en hinn helmingurinn sagði að líklega hefði hann flutt búferlum til Reykjavíkur og væntanlega ekki flutt til baka fyrr en seinna.

Lykillinn að byggðasókninni er að efla aðgengi að námi eins og við gerðum með framhaldsskólana, þegar við byggðum upp glæsilega framhaldsskóla um allt land sem gjörbreyttu heilu svæðunum. Nú eigum við að byggja upp öflugar menntastofnanir, fjarnám í háskólum og margt annað í gegnum þær stofnanir sem til staðar eru, símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin um allt land: á Suðurnesjum, á Suðurlandi, á Vesturlandi, Norðurlandi vestra, Austurlandi og Þingeyjarsýslum, auk vísis að háskólastarfsemi vestur á Ísafirði. Þetta eru stofnanir sem við eigum að leggja mikið í að efla á næstu árum.

Þessar stofnanir eiga að starfa undir regnhlíf Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri af því að almennt er talið að lágmarksstærð rannsóknaháskóla sé um 20.000 nemendur og upptökusvæðið 500.000 manns, þ.e. helmingi stærri en Háskóli Íslands og mannfjöldinn næstum helmingi meiri en íslenska þjóðin. Háskólinn telur innan við 10.000 nemendur og þjóðin er 300.000 manneskjur. Það er ekki síst út af þessu að hlúa þarf sérstaklega að háskólastiginu í stað þess að svelta það til tjóns, dreifa kröftum með allt of mörgum háskólum og trassa að innleiða sjálfstætt gæðaeftirlitskerfi með starfsemi skólanna sem reyndar er kominn vísir að.

Að mörgu er að hyggja, virðulegi forseti, í þessu sambandi. Við fögnum á morgun 1. desember, fullveldi okkar, t.d. með samkomu í Háskóla Íslands sem hefst kl. 1 í Hátíðarsalnum. Þar verða ræðumenn frá öllum flokkunum sem túlka þar á 5–7 mínútum, að ég held, stefnu flokka sinna í málefnum háskólans. Fróðlegt verður að heyra hvað flokkarnir hafa þar að segja um stöðu skólans.

Rannsóknaháskóli er talinn þurfa að að lágmarki 20.000 nemendur en margir slíkir skólar eru miklu stærri. Við þurfum að gera helmingi betur við Háskóla Íslands, eða sameinaðan Háskóla Íslands og Kennaraháskólann, til að sá skóli verði einn af þeim bestu í heiminum. Í stefnuskránni frá því í vor eru nefndir samanburðarháskólar Háskóla Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í viðleitni til að ná afburðaárangri vill Háskóli Íslands bera sig saman við nokkra háskóla bæði austan hafs og vestan. Þeir eru:

Háskólinn í Kaupmannahöfn, Danmörku; Háskólinn í Helsinki, Finnlandi; Háskólinn í Lundi, Svíþjóð; Háskólinn í Uppsölum, Svíþjóð; Háskólinn í Tromsø, Noregi; Háskólinn í Bergen, Noregi; Háskólinn í Aberdeen, Skotlandi; Boston University, Bandaríkjunum.“

Þetta eru hinir opinberu samanburðarháskólar Háskóla Íslands. Þetta eru allt framúrskarandi skólar sem hafa, eins og segir hér, náð afburða árangri. Íslenskir háskólarnir geta allir náð slíkum árangri því þeir hafa mannaflann og metnaðinn en það skortir hins vegar fjármagn til þess og ytri umgjörð. Þessir skólar eru sambærilegir að rekstrarformi, stærð og námsframboði. Valdir eru háskólar á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum sem almennt eru taldir, í hinum ýmsu úttektum, meðal 100 bestu háskóla í heimi. Með leyfi forseta, segir svo:

„Við slíka röðun eru mikilvægustu mælikvarðarnir birtingar á rannsóknarniðurstöðum í viðurkenndum alþjóðlegum ISI-tímaritum, fjöldi greina í tímaritunum Nature og Science, vísindaverðlaun til kennara og nemenda, áhrif af rannsóknarniðurstöðum vísindamanna, fjöldi erlendra nemenda, fjöldi erlendra kennara og mat virtra fræðimanna á háskólunum. Enn fremur er tekið mið af þáttum á borð við fjölda nemenda á hvern kennara og árangri nemenda eftir brautskráningu.“ — Ég nefndi áðan að fjöldi nemenda á hvern kennara er 21 við Háskóla Íslands en meðaltalshlutfall er 15 eða 16 nemendur á kennara í fremstu skólum heimsins.

En við höfum alla burði til að koma Háskóla Íslands eða íslensku háskólunum í hóp bestu háskóla í heimi. Það er engin spurning. Við erum með frábæra kennara. Það þarf hins vegar að einfalda mjög innviði skólanna.

Ég held að skoða eigi vandlega, þegar við erum búin að sameina Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sem ég held að verði gert, tel ég að við eigum að skoða hvort gera eigi skólann að sjálfseignarstofnun. Ég held að með því að gera sameinaðan háskóla að sjálfseignarstofnun verði stofnunin öflugri þar sem innra stjórnkerfi mundi einfaldast verulega og hinn nýi skóli mundi njóta hins besta úr einkarekstrarfyrirkomulagi sem sjálfseignarstofnanir ná vel yfir eins og við ræddum um í sambandi við Ríkisútvarpið. Ég held það gæti orðið farsælt að skoða vandlega að gera Háskóla Íslands að sjálfseignarstofnun. Hann fengi meira sjálfstæði, yrði öflugri og dýnamískari, stjórnkerfið einfaldara og innviðirnir nútímalegri og betri. Þannig held ég að við gætum náð afburðaárangri, þeim árangri sem við þurfum að ná með rannsóknaháskólum okkar eigi hann að komast í hóp hinna bestu.

Ég vildi líka nefna eitt, virðulegi forseti, sem mér þykir athyglisvert, sem dregur fram hve langt hin íslensku fjárlög, fjáraukalög og þær pólitísku áherslur sem við hljótum að lesa út úr fjárlögum, hve óralangt íslensku háskólarnir eru frá markmiðum sínum. En hér segir, með leyfi forseta:

„Til að vinna að því langtímamarkmiði að verða meðal 100 bestu háskóla heims hefur Háskóli Íslands sett sér stefnu fyrir tímabilið 2006–2011. Hún felur í sér að stórefla doktorsnám við skólann, fjölga birtingum greina í virtum alþjóðlegum fræðiritum, laða að hæfustu nemendur og kennara, efla samstarf við virta erlenda háskóla, treysta tengslin við íslenskt atvinnulíf, styrkja stjórnkerfi skólans og bæta stoðþjónustu. Stefnan miðar að því að ná þremur aðalmarkmiðum ásamt tilheyrandi undirmarkmiðum. Stefnan felur jafnframt í sér aðgerðaáætlun.“

Aðalmarkmiðin eru, með leyfi forseta:

„1. Framúrskarandi rannsóknir. Háskóli Íslands ætlar að efla hágæðarannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreyttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

2. Framúrskarandi kennsla. Háskóli Íslands þjónar samfélaginu og þörfum þess fyrir menntun á heimsmælikvarða með því að veita nemendum framúrskarandi kennslu í nánum tengslum við rannsóknastarf skólans.

3. Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta. Háskóli Íslands ætlar að styðja vel við rannsóknir og kennslu með skilvirku stjórnkerfi, góðri stoðþjónustu og öflugu gæðakerfi.“

Þessu er síðan fylgt eftir í hinu vandaða plaggi um stefnu Háskóla Íslands og markmiðin til ársins 2011, þegar Háskóli Íslands, flaggskip okkar Íslendingar í menntun og fræðum, verður 100 ára gamall. Þá eru 100 ár frá að þessi fátæka, unga og litla þjóð réðst í það stórvirki að stofna háskóla. Ég held að enginn deili um að alvöruháskóli, rannsóknaháskóli sem stendur að öflugu námi og rannsóknum, ekki síst í íslenskum fræðum, er undirstaða sjálfstæðrar og frjálsrar en fámennrar þjóðar.

Við hljótum að velta því yfir okkur þegar háskólinn er að verða 100 ára gamall, en á morgun fögnum fullveldi þjóðarinnar, hvert við stefnum með skólana okkar. Við höfum að mörgu leyti náð góðum árangri með íslenska skóla á síðustu 100 árum, afburðaárangri. Skólarnir hafa gjörbreyst. En samt stöndum við langt að baki þeim þjóðum sem hafa unnið sig upp úr sömu örbirgð. Margar þeirra hafa náð betri árangri á sama tíma, þjóðir sem reiða sig oft eingöngu á hugvit, mannafla og þekkingu af því að þær búa ekki við ríkulegar auðlindir eins og við Íslendingar. Við búum að fisknum í sjónum, fallvötnum okkar, háhita í jörð og mörgum öðrum auðlindum. Olía og fiskur eru auðlindir Norðmanna, járnnámur í Svíþjóð o.s.frv.

Þjóðir eins og Danmörk og Finnland reiða sig meira á menntaðan, upplýstan mannafla og jöfnuð í samfélaginu. Þessar þjóðir gæta að því að ekki myndist hyldýpisgjá milli stétta og hópa í þjóðfélaginu eins og þróast hefur hjá Íslendingum á síðustu tíu árum. Það á að vera rauður þráður í gegnum umræðuna um fjárlagagerð íslenska ríkisins, hvort sem er í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 eða frumvarpið til fjárlaga fyrir árið 2007, að mest hefur dregið úr skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Skattbyrði þeirra hefur helmingast, farið úr 35% í 15,8 á meðan mesta aukning skattbyrðar hefur orðið í tekjulægstu hópunum. Þar hefur hún í mörgum tilfellum margfaldast. Þetta er algert grundvallaratriði.

Það er forgangsverkefni að breyta þessu og leiðrétta kjör fátækra Íslendinga, kjör þeirra sem lifa á lífeyrisbótunum strípuðum. Leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja. Síðan eru næstu skref í menntamálum og heilbrigðismálum. Ég hef gert hér menntamálin að sérstöku umtalsefni síðustu klukkustundina eða svo þar sem ég hef fært rök fyrir því og dregið fram með tölulegum staðreyndum, að fjársveltið ógnar gæðum og innra starfi íslensku háskólanna.

Í minni skólum hefur farið fram eftirtektar- og aðdáunarvert uppbyggingarstarf á síðustu árum, t.d. í háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík, sem eru einkareknir skólar. Þeir hafa staðið sig afskaplega vel. Aukin samkeppni um íslenska háskólanemendur er að flestu leyti af hinu góða.

En við erum líka að keppa við erlenda skóla. Við erum að keppa við erlenda rannsóknaháskóla í fremstu röð um bestu og öflugustu nemendurna og þar erum við að mínu mati að gefa eilítið eftir eða a.m.k. eru uppi vísbendingar um að ekki sé pólitískur vilji fyrir því eða að það sé ekki á pólitískri verkefnaskrá ríkisstjórnar hægri flokkanna tveggja að ráðast í neins konar fjárfestingarátak í menntun. Þeir eru á harðahlaupum að elta uppi þróunina sem á sér stað eiginlega fyrir framan nefið á þeim og án þeirra aðkomu, má segja. Fullorðið fólk, fólk á aldrinum 30–50 ára fer nú aftur í skólana út um allan hinn vestræna heim, til Norðurlandanna, Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna og sækir sér aukna menntun og aukna fræðslu. Það er glæsileg þróun. Það er eins og fyrir 20–30 árum þegar fullorðnir Íslendingar stefndu í öldungadeildir menntaskólanna og fjölbrautaskólanna þegar áfangakerfið kom upp. Guði sé lof, þegar það kom upp fyrir um 30 árum og opnaði nýja menntaleið fyrir fullorðið fólk sem hafði ekki haft aðstæður, tækifæri og efni á því að sækja sér menntun eftir barnaskólann og grunnskólann fyrr en það var orðið fullorðið fólk sem var kannski komið langt með að ala upp börnin sín, var farið að hafa tekjur og gat þá nýtt sér þessi tækifæri.

Nú er þetta að gerast aftur. Nú er fullorðið fólk sem ekki hafði aðstæður til að sækja sér háskólamenntun á sínum tíma að sækja aftur í háskólann út um allan heim. Íslensk stjórnvöld bregðast þannig við að í fyrra var 2.500 umsóknum um vist í háskóla hafnað. Það segir ekki alveg að 2.500 manns hafi ekki fengið inni í neinum háskóla því þetta var eitthvað dreift um o.s.frv. Það er ekki samræmt kerfi yfir þetta en það segir okkur að miklum fjölda Íslendinga er haldið frá því að sækja sér nám af því að stjórnvöld eru svo upptekin af því á fjárlögum hvers árs að elta þetta uppi en samt sem áður tekst þeim ekki að halda betur í við þróunina en svo að framlög á nemanda nú eru lægri en árið 1999 til Háskóla Íslands.

Þannig er staðan í dag, virðulegi forseti, og það er nauðsynlegt að ræða mjög ítarlega slíka þætti árlega í umræðu um fjárlaga- og fjáraukalagagerð. Um hvað erum við að tala? Hvernig samfélagsgerð er að þróast? Samfélagsgerðin hefur þróast með dramatískum hætti síðustu 12 árin en á þeim tíma hefur íslenskt samfélag greinilega gerbreyst hvað varðar jöfnuð og ójöfnuð. Jöfnuður á milli hópa og stétta heyrir í dag sögunni til þar sem ójöfnuðurinn hefur aukist gífurlega. Stærsta verkefni frjálslyndrar jafnaðarmannastjórnar eftir nokkra mánuði verður að sjálfsögðu — og það er risavaxið verkefni — að leiðrétta ójöfnuðinn, jafna kjör fólks eftir því hvernig aðstæður þess eru í lífinu. Fyrsta skrefið í því er að gerbreyta högum þeirra sem lifa af lífeyrisgreiðslum, þ.e. eldri borgara, öryrkja og annarra eins og kom fram í sameiginlegri tillögu stjórnarandstöðunnar fyrir nokkrum dögum en þá kaus ríkisstjórnarmeirihlutinn með rauða takkanum frá sér það sögulega tækifæri að stíga eitt lítið skref í áttina að því að minnka ójöfnuð í íslensku samfélagi og auka jöfnuð. Þetta er inntakið í þeirri pólitísku sókn sem við jafnaðarmenn erum að ráðast í núna á næstu mánuðum og við munum sækja fram af fullum krafti, fullri festu og til sigurs núna fyrir 12. maí í vor. Næstu sex mánuðina verður að eiga sér stað hvöss og gagnrýnin umræða um grundvallargildin í íslensku samfélagi. Þetta er þróunin síðustu 12 árin en hvernig viljum við að þróunin verði næstu 12 árin ræðst í vor vegna þess að með ríkisstjórnarskiptunum þá verður að sjálfsögðu ekki tjaldað til einnar nætur heldur kemur þar vonandi ríkisstjórn sem sitja mun lengi og hafa tíma og tækifæri til að snúa þróuninni við og hverfa af þessari ömurlegu braut ójafnaðar og misskiptingar og í átt að því að jafna verulega kjörin, lækka fjöllin og hækka dalina. Út á það á sókn okkar jafnaðarmanna að ganga í vor.

Ég hef farið töluvert yfir stöðu Háskóla Íslands og hve gríðarlega hin háleitu markmið Háskóla Íslands um að komast í hóp hinna 100 bestu háskóla eru á skjön við veruleikann. Það er himinn og haf á milli þeirra fjármuna sem nú er varið til Háskóla Íslands á fjárlögum ríkisins og þeirra metnaðarfullu markmiða sem skólinn og menntamálaráðherra lýðveldisins — þó að erfitt sé að trúa því að menntamálaráðherra hafi haft nokkra einustu aðkomu að málinu miðað við hve dapurlega, að ég segi ekki grátlega ráðherrann hefur komið að rekstri Háskóla Íslands þar sem skólinn hefur verið að heyja harða varnarbaráttu, ég tala ekki um Háskólann á Akureyri en þar þurfti að leggja niður tvær deildir í fyrra bara til að halda sjó. Nei, íslenski menntamálaráðherrann lætur hafa það eftir sér að hann sé þátttakandi í því að íslenski háskólinn eigi að komast í hóp hinna hundrað bestu í heiminum. Það er ekkert annað en skrum, virðulegi forseti, það er pólitískt orðagjálfur sem er ekkert að marka og um þetta munum við að sjálfsögðu kjósa í vor. Stórbrotið fjárfestingarátak í menntun, meira fé til menntamála, við eigum að fara finnsku leiðina, við eigum að fjárfesta á öllum skólastigum.

Mér hefur orðið tíðrætt um háskólastigið og Háskóla Íslands af því að þar brennur eldurinn kannski hvað heitast núna. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fjallaði ítarlega um hið handónýta reiknilíkan sem er notað í framhaldsskólanum. Það virkar sem skiptilíkan á fyrir fram ákveðna upphæð sem er úr tengslum við raunveruleikann og er notað til að hagræða, til að skera niður í rekstri framhaldsskólanna, til að mæta stærstu árgöngum Íslandssögunnar sem komu inn í framhaldsskólana í fyrra og núna, þá átti einfaldlega að skera eitt ár niður af framhaldskólunum.

Menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gert þrjár atlögur, þrjú áhlaup á íslenska framhaldsskólann, sem alltaf hefur verið hrundið sem betur fer, með skerðingar- eða styttingartillögum sínum sem endað hafa í ruslakörfunni hér eftir hvert þing, enda illa ígrundaðar og vondar tillögur. En í hvert einasta skipti hefur menntamálaráðherra ætlað að berja þær og þvinga í gegn en sem betur fer hefur m.a. menntasamfélagið komið í veg fyrir það og stjórnarandstaðan í þinginu og margir, margir aðrir.

Um leikskólann og grunnskólann þarf að sjálfsögðu að fjalla mjög ítarlega í hinni pólitísku umræðu. Sveitarfélögin hafa með rekstur þeirra að gera. Þau hafa að mjög mörgu leyti staðið sig frábærlega vel við að umbylta innri og ytri gerð þessara tveggja skólastiga. Leikskólinn hefur þróast mjög hratt og vel. Það er búið að byggja yfir grunnskólann eins og hann leggur sig, það er búið að einsetja grunnskólann síðan sveitarfélögin tóku við honum. Það er hins vegar hægt að færa rök fyrir því að sveitarfélögunum hafi verið ansi naumt skammtað, það þurfi að jafna og koma á réttlátri tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélögin, mörg hver, berjast í bökkum. Skuldir sveitarfélaganna hafa aukist á síðustu árum úr 122 milljörðum í lok ársins 2003 í 136 milljarða í lok síðasta árs og hafa skuldir sveitarsjóða á hvern íbúa aukist úr 422 þús. í 455 þús. Afkoma sveitarfélaganna er því afskaplega breytileg, aðallega eftir stærð þeirra, og mörg þeirra eiga í verulegum erfiðleikum. Á síðasta ári skiluðu 60 sveitarfélög jákvæðri afkomu sem nam 6,4 milljörðum á meðan 37 sveitarfélög voru rekin með halla upp á einn og hálfan milljarð. Ef 48 þúsund manns eða 16% íslensku þjóðarinnar búa í sveitarfélögum sem standa ekki einu sinni undir rekstri hvað þá auknum fjárfestingum í framfaramálum eins og gjaldfríum leikskóla, sem er nokkuð þverpólitísk sátt um allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins að ráðist verði í, þá kallar það á endurskoðun á tekjustofnum og tekjuskiptin milli ríkis og sveitarfélaga. Það er ekki hægt að hverfa frá umræðu um fjáraukalög eða fjárlög nema rýrt hlutskipti sveitarfélaganna sé nefnt og það hve illa ríkisstjórn hægri flokkanna hefur komið fram við sveitarfélögin á síðasta ári og ekki síst þau 12 ár sem R-listinn var við völd í Reykjavíkurborg. Reykjavíkurlistinn stóð sig frábærlega vel og umbylti félagslegri þjónustu í borginni, byggði upp leikskólana, byggði upp grunnskólana. Minnisvarðar hans eru glæsilegir og hafa gerbreytt öllum infrastrúktúr sveitarfélaganna. Önnur sveitarfélög hafa fylgt í kjölfarið og svo eru mörg sem eru núna að ganga skref í nýjar áttir og bjóða upp á enn þá meiri þjónustu sem tryggir aukinn jöfnuð burt séð frá efnahag fólksins. Þar má nefna hvað Hafnfirðingarnir hafa verið að gera í frístundamálunum. Það eru glæsileg skref og það þarf að koma á móti sveitarfélögunum og tryggja þeim hlutdeild í veltusköttunum til að þau hafi nógu öfluga tekjustofna til að standa undir rekstri og til að ráðast í þau verkefni sem pólitískur meiri hluti á hverjum stað telur að ráðast þurfi í.

Það hefur sérstaklega borið á því í yfirstandandi umræðu um fjárauka- og fjárlög að sveitarfélögin hafa orðið fyrir tekjuskerðingu, t.d. vegna fjölgunar einkahlutafélaga. Þetta hefur rýrt útsvarstekjur þeirra um leið og það eykur tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti, jafnósanngjarnt og það nú er. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að gæta að tekjustofnaskiptingunni á milli ríkis og sveitarfélaganna. Nú hafa sveitarstjórnarmenn ítrekað farið fram á leiðréttingu á tekjustofnum í kjölfar þessara breytinga þó þeir hafi ekki enn þá haft, því miður, erindi sem erfiði. Til að draga upp mynd af þessu þá voru einkahlutafélögin 20 þúsund árið 2004 en á einu og hálfu ári, þ.e. um mitt árið 2006 voru þau orðin 25.600. Tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti höfðu aukist úr 9 milljörðum árið 2004 í 21,7 milljarða á síðasta ári. Það sama ár höfðu 6.600 fjölskyldur hærri fjármagnstekjur en launatekjur og 2.200 framteljendur höfðu engar tekjur aðrar en fjármagnstekjur.

Þannig hef ég komið inn á nokkra mjög áríðandi og mikilvæga þætti um stöðuna í stærstu, öflugustu og mikilvægustu málaflokkum okkar og ég mun fara betur yfir það síðar, virðulegi forseti.