133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nákvæmlega sama og ég kom inn á í ræðu minni varðandi siglingar yfir Breiðafjörð. Ferjan Baldur er gott skip og lætur vel í sjó en hefur ítrekað orðið að hverfa frá höfninni á Brjánslæk vegna þess að ekki hefur verið hægt að lenda.

Ég legg því til að þetta verði forgangsmál sem tekið verði upp strax. Það kemur í ljós núna að þetta þarf að gerast. Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði þá er ekkert annað að gera en að ráðast þegar í að lengja þarna stálþilið og viðlegukantinn og rúnna hann af þannig að skapist var fyrir skipið til að leggja að.

Þetta er samgönguæð við heilan fjórðung. Klettsháls er iðulega ófær vegna hálku og veðra. Stórir bílar með flutning á fiski komast ekki um. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson áréttar einmitt það sem ég hef sett fram að þarna sé brýnna aðgerða þörf.