133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þarna er brýnna aðgerða þörf. Það er auðvitað ekki hægt að una við þetta þegar svo hagar til að Vegagerðin hefur lagt veg yfir Klettsháls sem því miður er oft ófær vegna veðurs og veðuraðstæðna. Það er ekki vegna þess að vegurinn sé illa lagður sem slíkur, heldur verður hann oft ófær vegna veðuraðstæðna og mjög fljótt í vondum veðrum. Það mun ekkert breytast meðan vegurinn liggur þar sem hann er.

Þess vegna er ekki nema eitt til ráða, það verður að bæta hafnaraðstöðuna þarna ef tryggja á að flesta daga við eðlilegar aðstæður sé fært fyrir fólk sem býr í Vesturbyggð að komast yfir Breiðafjörð eða fólk sem býr sunnan Breiðafjarðar að komast norður yfir. Það verður ekki leyst nema með bættri hafnaraðstöðu. Það verður ekkert undan því vikist að takast á við það ef ekki á að verða hreint vandræðaástand í vetur. Við virðumst oft gleyma því, Íslendingar, að það er engin áskrift til að góðum vetri. Hún er ekki til frekar en þegar menn ætla að taka veð í góðu sumri.