133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að gefa mér tækifæri til að skýra þessi mál út. Ég vek athygli á að frumvarpið um ráðstöfun söluandvirðis Símans er um mjög miklar aðgerðir á sviði mikilla framfaramála svo sem samgöngumála. Ég tel að þingmenn, ekki síst stjórnarþingmenn, hafi mjög gott veganesti úr þinginu fyrir kosningabaráttuna varðandi þær ráðstafanir sem við erum að efna til hér með því að taka ákvarðanir um stórátak í vegagerð og út á það gengur ráðstöfun söluandvirðis Símans hvað varðar framlögin til Vegagerðarinnar. Við erum að fara í meira átak, meiri framkvæmdir en nokkru sinni áður.

Hins vegar er það þannig, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel, að við þurfum að taka ákvarðanir í ríkisfjármálum og við þurfum að taka tillit til aðstæðna í efnahagsmálum og það höfum við gert. Það er að koma fram að það voru hárréttar aðgerðir hjá okkur að hægja á framkvæmdum því að nú erum við að fá mjög góð tilboð, fín tilboð m.a. í vegagerð, og það er verðhjöðnun.

Hvað varðar norðausturveginn, sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni, þá höfum við 850 millj. til þeirra framkvæmda. Það liggur hins vegar fyrir, og hv. þingmaður veit það, að ekki verður hægt að bjóða út norðausturveginn fyrr en undir vor. Við höfum eftir sem áður 550 millj. til þeirra framkvæmda og við munum jafnframt geta sett af stað útboð til að klára veginn að Kópaskeri. Ég tel að þetta svæði geti því mjög vel (Forseti hringir.) við unað hvað varðar þau framkvæmdaáform sem hér eru upp á teningnum.