133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef heyrt þessar ræður áður hjá hæstv. samgönguráðherra. Hann hélt nákvæmlega sömu ræðuna þegar hann mælti hér fyrir hinni glæstu samgönguáætlun sinni fyrir kosningar 2003. Hver hafa orðið örlög hennar? Þá átti að gera stórátak. Það er samtals búið að skera niður eða fresta framkvæmdum á þessu kjörtímabili fyrir 5,5–6 milljarða kr. 1,5–2 milljarða á hverju ári, 2004, 2005 og 2006. Er þetta ekki veruleikinn, hæstv. samgönguráðherra?

Það er hægt að setja upp glæstar áætlanir og hægt að halda svona ræður, en þegar veruleikinn er svona og hann birtist okkur m.a. í svona hentistefnu, svona hringli, og algjöru virðingarleysi fyrir þeim áætlunum sem menn hafa sjálfir sett, eins og hefur auðvitað reynst með hæstv. samgönguráðherra og samgönguáætlun hans. Hann hefur tætt hana í sundur aftur og aftur eða staðið að því með ríkisstjórninni. Þá er náttúrlega von að menn verði að lokum þreyttir á þessu.

Staðreyndin er engu að síður sú, þrátt fyrir þá tölu sem hæstv. samgönguráðherra nefndi, að það er að verða mikil seinkun á framkvæmdum eins og við höfðum gert okkur vonir um að þær gætu orðið á norðausturleiðinni og sérstaklega auðvitað því að verkið um Hófaskarð yrði boðið út. Það eru því nýjar fréttir fyrir mér ef það er orðið þannig núna að verkið verði ekki boðið út fyrr en undir vor.

Ég hef hringt nokkuð reglulega í Vegagerðina, ýmist í umdæmisstjórann á Akureyri eða Vegagerðina hér fyrir sunnan. Þetta átti að vera í haust, þetta átti að vera síðla í haust, þetta átti að vera snemma vetrar og síðustu fréttir voru að vonandi yrði þetta fyrir áramótin, alla vega ekki mikið lengur en hinum megin við áramótin. Það er því endalaust verið að bakka með þetta. Ég fer nú að efast um að það hafi verið sá kraftur á bak við undirbúninginn á þessari framkvæmd sem vera skyldi ef þetta gengur endalaust svona fyrir sig.

Ég endurtek, frú forseti, að það eru þá engin rök til annars en að leyfa fjárveitingunum að bíða á þeim verkefnum sem búið var að eyrnamerkja þær.