133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er fyllsta ástæða til að fara nokkrum orðum um tillögur sem er að finna í þessu lagafrumvarpi, sérstaklega hvað varðar að seinka framkvæmdum við vegabætur á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins og færa fjármagn til með lögum frá árinu 2007–2008.

Mér líst ekki vel á þær tillögur, virðulegi forseti, og ég á erfitt með að finna rökstuðninginn fyrir þeim. Ég hef hlustað vandlega á mál þeirra tveggja ráðherra sem hafa talað fyrir þessu máli og ég er ekki sannfærður um að rökin sem þeir hafa borið fram dugi til þess að réttlæta þessa tillögu sem er að finna í frumvarpinu.

Ég vil fyrst aðeins segja, til að því sé haldið til haga og menn njóti sannmælis í þingsal, að ávirðingar hæstv. samgönguráðherra á fyrirrennara sinn, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hér áðan voru ekki maklegar. Þær voru ekki maklegar, virðulegi forseti, þegar hann bar það á þingmanninn að hann hefði hvorki komist lönd né strönd í störfum sínum sem samgönguráðherra á sínum tíma.

Ég vil benda á tvennt sem tókst að leysa og leiða til niðurstöðu á þeim tíma. Það er annars vegar framkvæmdin um Hvalfjarðargöng, sem ég held að menn hljóti að vera sammála um að var þörf, og hins vegar, sem mér er þó ofar í huga, eru það Vestfjarðagöngin.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon má eiga það og njóta þess sannmælis að hann lagði mikið á sig á þeim tíma til að ná samkomulagi í þinginu til þess að gera þá framkvæmd að veruleika. Honum tókst það og honum tókst að ganga það vel frá málinu fyrir alþingiskosningarnar 1991 að ríkisstjórnin sem þá tók við gat ekki rift þeim samningum. Var þó fullur vilji til þess, virðulegi forseti.

Það var fullur vilji til þess hjá oddvita þáverandi ríkisstjórnar og þáverandi samgönguráðherra að rifta þeim samningum og skera af framkvæmdinni jarðgangalegginn til Súgandafjarðar. Enda töluðu menn með þeim hætti á þeim tíma að kannski væri heppilegast að borga fólkinu sem þar býr peninga til að flytja í burtu.

Þetta munum við enn sem búum á Vestfjörðum og held að engin ástæða sé til að þegja yfir því. Þessi sjónarmið voru uppi í flokki hæstv. samgönguráðherra og ég held að hann ætti að spara sig í því að bera ávirðingar á menn þegar þessi mál liggja undir. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í deilur á milli þeirra tveggja um samgöngumál. Það verða þeir að útkljá sín í milli. En þarna var um að ræða framkvæmd sem snerti fleiri en þá tvo, sem snerti Vestfirðinga. Ég vil a.m.k. halda því til haga sem ég tel satt og rétt í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Þau rök sem eru borin fram fyrir þessu frumvarpi er að slá þurfi á þensluna í þjóðfélaginu, það þurfi að fresta framkvæmdum til að slá á þensluna. Lítum aðeins á það mál og hvað frumvarpið hefur að geyma í þeim efnum.

Það er lagt til í frumvarpinu að fresta vegaframkvæmdum fyrir samtals um 500 millj. kr. Annars vegar um Arnkötludal eða Tröllatunguheiði og hins vegar á norðausturhorninu um svonefnda Hófaskarðsleið á árinu 2007 og færa þá fjármuni til 2008. Það er þá væntanlega hugsað til þess að slá á þensluna að draga úr þessum framkvæmdum um 500 millj. kr. Gott og vel. Það má skilja þau rök. En á móti kemur í sama frumvarpi að lagt er til að færa til fé frá árinu 2008 fram á árið 2007, annars vegar 500 millj. vegna varðskips og hins vegar 500 millj. í fjarskiptasjóð.

Það er því lagt til að auka útgjöld á árinu 2007. (Samgrh.: 2007 til 2006.) Gott og vel. Það er 2007 til 2006 sem fer yfir á þetta ár. Hvað ár er 2006? Það er árið sem þenslan og verðbólgan er. Er það árið sem menn geta bætt við framkvæmdum upp á 1 milljarð kr.? Ef menn geta það, þá spyr ég: Hvers vegna þarf þá að færa 500 millj. frá árinu 2007 og yfir á árið 2008 þegar verðbólgan á að vera lægri og þenslan er minni? Þarna finnst mér vanta skýringar. Ég vil bæta því við líka sem fram kom í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, 3. október sl. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun einnig leggja til við Alþingi að þegar í stað verði ráðist í sérstakt átak til úrbóta á umferðaræðum út frá Reykjavík“ o.s.frv.

Eftir mínum heimildum er þar um að ræða að bæta við framkvæmdum við Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um 500 millj. á hvorum stað á næsta ári. Það er samtals 1 milljarður kr. í viðbót í framkvæmd í vegamálum. Ef það er hægt, hvers vegna þarf þá að fresta þessum framkvæmdum fyrir 500 millj. á sama ári út af þenslu? Mér finnst vanta skýringar á því.

Ég fæ ekki betur séð, ef menn taka það sem útgangspunkt að þenslan sé svo mikil, að þá séu menn einfaldlega að færa til framkvæmdir til að skapa svigrúm fyrir nýjar framkvæmdir og þá þurfi að ryðja öðrum til hliðar. Þá kemur að því að maður spyr sig: Er það þá ný forgangsröðun hjá ríkisstjórninni, sem er ekki að finna í vegáætlun eða þeim samþykktum sem menn hafa gert, að seinka vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og norðausturhorninu en setja á sama tíma nýjar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu? Ef það er ný stefnumörkun sem ríkisstjórnin ber hér fram þá styð ég hana ekki. Ég segi það alveg hreint út, ég styð hana ekki.

Virðulegi forseti. Þessar tillögur eru viðkvæmar hvað varðar Vestfirði. Menn hafa beðið lengi eftir því að ná árangri í uppbyggingu vega. Þar hefur auðvitað margt gott gerst á undanförnum árum. Það skal dregin fjöður yfir það því að mikið hefur áunnist, en það er líka mikið sem varð eftir og þar er meira eftir en annars staðar á landinu. Þess vegna er það viðkvæmt að seinka mikilvægum samgöngubótum til þess eins, að því að mér virðist, að skapa svigrúm fyrir samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að tala gegn því í sjálfu sér. Ég vil bara halda því til haga að það er ósanngjarnt og ekki stefna sem mér finnst skynsamleg að seinka uppbyggingu vega vestur á firði.

Ég vil líka fara fram á það að hæstv. samgönguráðherra skýri betur áform sín varðandi Arnkötludal. Það kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði aflétt útboðsbanni á framkvæmdum í októberbyrjun vegna þess að náðst hafi góður árangur í baráttunni við verðbólguna og dregið úr þenslunni. Engu að síður er Vegagerðinni ekki heimilt að bjóða út framkvæmdir í Arnkötludal. Náði þá þessi aflétting á útboðsbanni ekki til þeirra framkvæmda? Eftir þeim upplýsingum sem ég hef um áform í þessum efnum er ekki gert ráð fyrir að bjóða út framkvæmdir í Arnkötludal fyrr en í febrúar/mars.

Þá leikur mér forvitni á að vita hvort búið verði að ganga frá samningum við lægstbjóðanda í því verki fyrir kosningar. Eða verður málið ófrágengið fram yfir kosningar? Það skiptir auðvitað verulegu máli því að ef það verður ófrágengið veit maður ekki hvað kann að dragast frekar í málinu. En reynslan sýnir okkur að eftir kosningar er tilhneiging til að hægja á framkvæmdum sem menn hafa talað fyrir fyrir kosningar að þyrftu að vinnast á tilteknum tíma.

Ég held því að það sé nauðsynlegt að fá skýrar yfirlýsingar samgönguráðherra um það hver áformin eru um útboð og verksamninga varðandi Arnkötludal. Ljóst er að verkið mun hefjast mun seinna en upphaflega stóð til. Gert var ráð fyrir að það yrði boðið út á þessu ári en það verður þá, miðað við það sem fyrir liggur, ekki fyrr en í febrúar/mars, þannig að menn byrja þá engin verk fyrr en með vorinu og það er ljóst að því seinkar alla vega um veturinn. Það má vel vera að takist að hafa verktímann styttri og menn ljúki verkinu á sama tíma og upphaflega var áætlað, eða á árinu 2008, þannig að menn geti tekið veginn í notkun á þeim tíma sem áætlað var með lögunum um ráðstöfun söluandvirðis Landssíma Íslands. En alla vega hafa menn seinkað því að byrja og mér sýnist vera nokkur óvissa um hvort menn nái að hnýta alla enda varðandi þetta verk fyrir næstkomandi alþingiskosningar.