133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[20:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frumvarp en rifja aðeins upp tilurð þess. Við erum að ræða um breytingu á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands. Það frumvarp er frá því í október 2005 en sumarið á undan var Síminn seldur fyrir 66,7 milljarða kr.

Það hefur verið rifjað upp í umræðu um frumvarpið hve góð fjárhagsstaða þessa fyrirtækis hafði verið, en árið áður, árið 2004, skilaði Síminn í rekstri tæpum 7.400 millj. kr. — 7,4 milljörðum. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru þá nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr.

Við umræðuna um þetta frumvarp var rifjað upp hve miklum fjármunum Síminn skilaði árlega í ríkissjóð. Það var líka rifjað upp hver afstaða þjóðarinnar almennt var til sölunnar á Símanum. Í öllum skoðanakönnunum sem gerðar voru um sölu Símans og höfðu áður verið um hlutafélagavæðingu þessa fyrirtækis var þjóðin eindregið á móti þessari ráðstöfun. Þjóðin var eindregið á móti því að láta þessa gullkvörn af hendi.

Nú voru góð ráð dýr. Ríkisstjórnin ákvað að búa til sérstök einkavæðingarfjárlög þar sem hagnaðinum af Símanum yrði ráðstafað. Ég held að þetta frumvarp sem við ræddum hér haustið 2005, skömmu eftir að þing kom saman, sé eitthvert dæmalausasta frumvarp sem komið hefur til umfjöllunar Alþingis í sögu þess. Hér var ráðstafað fjármunum um ókomin fjárlagaár, allt fram til ársins 2012. Menn ræddu þetta hér í alvöru, menn ræddu í alvöru um Sundabraut, um fjármuni til Árnastofnunar, til geðfatlaðra, allt sem horfði til vinsælda í samfélaginu. Allir óvinsælu hlutirnir voru í hinum almennu fjárlögum en í þessum sólskinseinkavæðingarfjárlögum var bara það sem jákvætt var.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gagnrýndum þessi vinnubrögð, þennan loddaraleik. Við bentum á að það kæmi til ákvörðunar síðari þinga að ráðstafa þessum fjármunum. Niðurstaðan varð engu að síður sú að ákvarðanir voru teknar.

Við bentum á og vöruðum við því að menn kynnu að vera að vekja væntingar og nú riði á að staðið yrði við gefin fyrirheit, ella kæmi það í hlut síðari þinga og síðari ríkisstjórna að taka á þessum málum miðað við þær aðstæður sem þá voru uppi.

Hvað er að gerast núna? Nákvæmlega það sem við vöruðum við. Nú er byrjað að hringla í þessum einkavæðingarfjárlögum ríkisstjórnarinnar. Það er byrjað að skera niður og fresta framkvæmdum sem áður hafði verið lofað.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að endurtaka það sem félagar mínir, hv. þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, hafa farið rækilega yfir hér. En mig langar þó til að vekja athygli á einu atriði til viðbótar og það tengist yfirvofandi alþingiskosningum. Nú er aftur byrjað að lofa, nú er aftur byrjað að koma með stóru, digru loforðin. Nú á að tvöfalda veginn frá Reykjavík til Hveragerðis. Og hvernig? Að sjálfsögðu á að bjóða hann í einkaframkvæmd. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra eru byrjaðir að lofa vildarvinum sínum í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum framkvæmdum sem þeir koma til með að hagnast á. Er það í þágu skattborgarans? Nei. Ég hvet menn til að kynna sér úttekt Ríkisendurskoðunar á einkaframkvæmd í vegamálum og vegasamgöngum. Í þeirri skýrslu er komist að þeirri niðurstöðu að slíkar framkvæmdir séu ekki skattborgaranum til hagsbóta. Ég tel ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á þessu.

Ég vil einnig rifja upp og ítreka ummæli þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna að þessu sinni. Þar höfum við vakið athygli á því að stjórnarflokkarnir með hæstv. ráðherrana í broddi fylkingar eru aftur farnir að lofa langt fram í tímann. Þeir eiga eftir að sitja að völdum í örfáa mánuði. Engu að síður eru þeir byrjaðir að gefa loforð fram í tímann. Hver koma örlög þessara loforða til með að verða? Niðurskurður að öllum líkindum í einhverjum tilvikum sem þá fellur í hlut næstu ríkisstjórnar.

Hæstv. forseti. Á þessu vildi ég vekja athygli og rifja upp þetta dæmalausa frumvarp og loddaraskapinn og blekkingarnar sem því tengjast.