133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Aðdragandi málsins er þingmönnum að sjálfsögðu vel kunnur og óþarft að rekja hann í löngu máli.

Viðræðum bandarískra og íslenskra stjórnvalda um framtíðarvarnir Íslands og skil á landi og aðstöðu lyktaði með samningum sem kynntir voru 26. september sl. og undirritaðir í Washington 11. október.

Samhliða viðræðunum við Bandaríkjamenn markaði ríkisstjórnin stefnu um það hvernig standa skyldi að því að koma varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not. Var ákveðið að fyrst um sinn færi utanríkisráðherra áfram með stjórnsýslu á öllu svæðinu til þess að engin óvissa væri um hvaða ráðuneyti eða stjórnsýslustofnun væri bær til að fjalla um mál. Svæðinu yrði síðan komið í áföngum í almenn not.

Var reglugerð um Stjórnarráð Íslands breytt 29. september sl. til að árétta að utanríkisráðherra færi með stjórnsýslu á varnarsvæðum uns birt yrði auglýsing um að slíkt svæði hefði verið tekið til annarra nota í heild eða að hluta. Enn fremur var ákveðið að stofna þróunarfélag með aðkomu sveitarfélaga á Suðurnesjum sem yrði leiðandi varðandi umbreytingu og þróun svæðisins.

Meginmarkmið þess frumvarp sem hér er flutt er að skapa skýran lagaramma utan um yfirfærslu varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli úr hernaðarnotum í almenn borgaraleg not. Í gildandi lögum eru engin ákvæði um það hvað verður um varnarsvæði eftir að því er skilað. Að mati ríkisstjórnarinnar er hyggilegast að sú umbreyting sem stefnt er að gerist ekki á einni nóttu heldur í áföngum og með skipulegum hætti eins og frumvarpið kveður á um.

Má benda á að þótt varnarliðið hafi farið af landi brott í lok september sl. er enn á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli fjöldi mannvirkja í eigu Atlantshafsbandalagsins sem lúta sérstöku skilaferli.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir tekur einungis til varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli en ekki annarra svæða sem bandaríska varnarliðið hefur skilað. Helgast það af sérstöðu Keflavíkurflugvallar vegna stærðar svæðisins og mannvirkja sem þar eru og starfsemi sem þar hefur farið fram. Önnur svæði mun utanríkisráðherra taka úr notkun, eða afmynstra ef svo mætti segja, með einfaldri auglýsingu. Hefur reyndar þegar verið gefin út auglýsing um að svæðið í Hvalfirði hafi verið tekið í borgaraleg not.

Varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli er samtals rúmlega 80 ferkílómetrar. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi verður svæðinu skipt í þrennt, í fyrsta lagi flugvallarsvæði, svæði A sem verður athafnasvæði alþjóðaflugvallarins, í öðru lagi öryggissvæði, svæði B sem verður ætlað til varnarþarfa, þar með talið heræfinga og eftir atvikum friðargæsluæfinga, og í þriðja lagi starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., svæði C sem er það svæði sem koma á hið fyrsta í borgaraleg not.

Samkvæmt frumvarpinu mun forsætisráðherra þegar þar að kemur gefa út auglýsingu um að varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli hafi verið tekið til annarra nota en varnarnota. Enn fremur er heimilað að tilteknir málaflokkar verði áfram á einni hendi þótt svæðið falli að öðru leyti undir almennar reglur. Þannig má gera ráð fyrir að fljótlega verði gefin út auglýsing um svæði C, þ.e. að það sé ekki lengur frátekið til varnarnota.

Víkjum þá nánar að hinum einstöku svæðum, virðulegi forseti. Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að yfirfærslu Keflavíkurflugvallar til samgönguyfirvalda. Flugvallarsvæðið er afmarkað á fylgiskjali en það hefur ekki áður verið skýrlega afmarkað landfræðilega. Mun nefnd sérfræðinga vinna tillögur um framkvæmd yfirfærslunnar og skila þeim ekki síðar en í febrúarlok á næsta ári. Þar verður m.a. tekið tillit til varnarþátta og varnarmálahlutverks utanríkisráðuneytisins en þess má geta að flugbrautirnar sjálfar eru að mestu leyti í eigu Atlantshafsbandalagsins.

Þegar samkomulag hefur náðst milli ráðuneytanna um yfirfærsluna mun forsætisráðherra gefa út auglýsingu þar að lútandi. Ekki eru fyrirhugaðar sérstakar lagabreytingar aðrar enda ráð fyrir því gert í 7. gr. frumvarpsins að ekki verði lengur talað um utanríkisráðherra sem æðsta yfirvald í lögum um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

Hvað varðar öryggissvæði samkvæmt 3. gr. þykir nauðsynlegt að taka frá afmarkað svæði til varnarþarfa. Samkvæmt samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna munu Bandaríkin halda árlega tvíhliða og/eða fjölþjóðlegar heræfingar hér á landi og verður öryggissvæðið m.a. frátekið til þessara nota.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um svæði sem falið verður Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. Inni á því svæði er m.a. íbúðabyggðin sem bandaríska varnarliðið skildi eftir. Er Þróunarfélaginu ætlað að annast umsýslu þessara fasteigna í umboði ríkisins. Félagið var stofnað 24. október sl., og undanfarið hefur verið unnið að gerð þjónustusamnings við félagið og er hann nú á lokastigi.

Gert er ráð fyrir að auk umsýslu fasteigna á umræddu svæði taki félagið við umsýslu tiltekinna fasteigna á flugvallarsvæðinu og jafnvel eftir atvikum á öryggissvæðinu. Eitt fyrsta verkefni félagsins verður að gera úttekt á fasteignum á svæðinu og tillögur um nýtingu þeirra. Enn fremur er félaginu ætlað að vera leiðandi varðandi þróun svæðisins í heild. Er ljóst að þarna er um að ræða eitt stærsta skipulags- og þróunarverkefni á Íslandi á síðari árum.

Fasteignir á varnarsvæðum hafa fram til þessa verið undanþegnar opinberum gjöldum. Í 5. gr. frumvarpsins er sú undanþága framlengd uns einstökum fasteignum hefur verið komið í almenn not með leigu eða sölu. Er ekki talið eðlilegt að ríkið greiði fasteignagjöld af ónýttu húsnæði eða húsnæði og mannvirkjum sem hugsanlega verða rifin að einhverju leyti.

Frú forseti. Ég legg til að máli þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.