133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ef til vill ekki efni til að fara í langa ræðu um þetta mál. Hér er um heilmikla „bráðabirgða-bráðabirgðaráðstöfun“ að ræða. Ég hef ekki talið hversu oft orðin „til bráðabirgða“ koma fyrir en það eru nokkur skipti í þessu stutta frumvarpi. Það er umhugsunarefni út af fyrir sig, að þrátt fyrir þann tíma sem hefur verið til undirbúnings breytinganna sem tengjast brottför hersins þá virðist enn mikill bráðabirgðabragur á öllu sem snýr að framkvæmd íslenskra stjórnvalda á svæðinu, stjórnsýslu og verkaskiptingu.

Ég vil sérstaklega nefna að yfirfærsla flugvallarstarfseminnar og þess sem á að taka til borgaralegra er dálítið óljós eins og um þetta er búið. Reyndar segir í 1. gr. að markmið laganna sé að kveða á um skipan mála til bráðabirgða.

Svæðaskipting í flugvallarsvæði, öryggisvæði B og svo svæði sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur yfir að ráða, er í ekki eins hrein og ætla mætti þegar farið er að skoða ákvæði frumvarpsins. Þá kemur í ljós að í raun má rutta fasteignum og mannvirkjum fram og til baka samkvæmt sérstökum ákvæðum sem af einhverjum ástæðum eru sett í frumvarpið.

Þannig er t.d. í 3. gr. kveðið á um að utanríkisráðherra sé heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði B ef þörf krefur, þ.e. á svokölluðu öryggissvæði. Í næstu grein er kveðið á um að enn fremur sé heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar að annast í umboði ríkisins umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not og merkt eru sem C á fylgiskjalinu. Eðlilega, það svæði er beinlínis skilgreint sem starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar svo ég átta mig ekki á af hverju þarf að taka það fram í fyrri málsgrein 4. gr. frumvarpsins.

En seinni málsgreinin segir:

„Enn fremur er heimilt að fela félaginu umsýslu tiltekinna fasteigna á svæði A og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun og umbreytingu svæða A og C.“

Þar með eru komnar heimildir til að færa undir félagið verkefni, mannvirki eða svæði, á báðum hinum svæðunum, bæði svæði A og B. Þá fer þetta að verða dálítið grautarlegt. Af þessu verður ekki annað ráðið en að síðan eigi hæstv. ráðherrar, flugmálayfirvöld og aðrir sem koma við sögu eftir að setjast niður, sjálfsagt yfir kaffibolla, og möndla um það hvað fer hvert á svæðinu.

Ég held að þetta stafi fyrst og fremst af því, sem var ólánsniðurstaða, að ekki skyldi farið í hreint uppgjör á málinu og svæðin í raun aðeins höfð tvö, þ.e. flugvallarsvæðið og flugvallarstarfsemi og síðan allt hitt, sem Þróunarfélagið hefði fengið til að ráðstafa og koma í not. Þetta helgast af því að menn ætla að halda eftir svæði sem menn burðast við að skilgreina sem öryggissvæði sem verði frátekið undir heræfingar og að því virðist, m.a. á grundvelli samninganna við Bandaríkjamenn, bíður það bara eftir því að þeir noti það eins og þeim kann að sýnast. Þetta hindrar að farið sé í hreint uppgjör á málinu.

Utanríkisráðherra á að skipa í nefnd í samráði við samgönguráðherra, fimm sérfræðinga. Það er eins gott að það verði allt sérfræðingar, sem hafi það hlutverk að undirbúa snurðulausa færslu á stjórnun og rekstri Keflavíkurflugvallar. Þar er væntanlega átt við að undirbúa snurðulausa færslu á starfseminni á svæði A yfir til flugmálayfirvalda og frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis.

Ég hélt satt best að segja að þetta ætti að gerast fljótlega en hér kemur í ljós að málið er enn í þoku og nefnd þessi á að skila af sér tillögum um framkvæmd yfirfærslunnar fyrir febrúarlok 2007.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um flugstöðina. Nú var það svo að flugstöðin var byggð, illu heilli að mínu mati, í samstarfi við bandaríska herinn. Herinn reiddi fram tiltekna fjárhæð sem, ef ég man rétt, átti að nægja fyrir um 40% af kostnaði við bygginguna en dugði ekki til þess vegna þess að gríðarlegur umframkostnaður hlaust af ýmsu sem óhönduglega tókst til við þessa byggingu. Hún varð miklu dýrari en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Ég held því fram að þessi fjárstuðningur Bandaríkjamanna hafi verið býsna dýru verði keyptur þegar upp var staðið. Byggingin varð m.a. miklu dýrari í framkvæmd og óhentugri vegna krafna sem Bandaríkjaher setti í staðinn á móti framlagi sínu, um alls konar kúnstir sem ekkert áttu skylt við þarfir venjulegrar flugvallarstarfsemi og venjulegrar flugstöðvar. En böggull fylgdi skammrifi. Ákvæði var um það í samkomulaginu að bandaríski herinn gæti leyst flugstöðina til sín ef þeir tímar kæmu að herinn teldi sig hafa þörf fyrir aðstöðuna.

Nú spyr ég: Er þessi kvöð enn til staðar? Var henni komið út úr heiminum í uppgjörinu eða samningum við Bandaríkjamenn á haustdögum? Þetta hlýtur að skipta máli ef mannvirkið á loksins, og þótt fyrr hefði verið, að færast undir samgönguráðherra. Það hefur verið kúnstug staða allan þennan tíma að mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar, sem ég held að millilandaflugvöllurinn í Keflavík augljóslega sé, hefur ekki heyrt undir samgönguráðherra. En þegar það verður væri dálítið ankannalegt ef þessi gamla kvöð fylgdi enn með, ég tala ekki um ef henni fylgir líka að halda verði við engisprettugildrunum í niðurföllum og öllu því sem var áskilið af hálfu Bandaríkjamanna til að byggingin uppfyllti staðla bandaríska hersins. Jafnvel eins og þeir eru í hitabeltinu eða hvar sem þeir eru.

Vandræðagangurinn kemur kannski best í ljós þegar skoðuð er 7. gr. Þar er valin sú leið að setja orðið ráðherra í staðinn fyrir utanríkisráðherra. Þetta er væntanlega gert vegna þess að þar með skiptir ekki lengur máli hvað er hjá hverjum lengur eða skemur, utanríkisráðherra, samgönguráðherra eða jafnvel einhverjum fleirum. (Gripið fram í.) Það var nú enn þá verra með retúrinn. Það er þannig vegna hitans í Flórída að einangra verður retúrinn í bandarískum herstöðvum. Þess vegna varð að sjálfsögðu að gera það líka í flugstöðinni í Keflavík. En það hefur ekki þótt til siðs á Íslandi að gera slíkt.

Svo spyr ég hæstv. forsætisráðherra að lokum en hann nefndi það sem voru nýjar fréttir fyrir mér, en má vel vera að hafi komið fram áður, að búið sé að gera þjónustusamning við Þróunarfélagið: Þetta er svolítið skrýtið, er þetta ekki hreint ríkisfyrirtæki? Af hverju þarf að gera þjónustusamning milli ríkisins og þessa Þróunarfélags og um hvað er hann eiginlega? Ég hélt að þetta væri opinber sýslan, opinber framkvæmd, að koma þessu í gagnið. Er það vegna þess að mönnum er svo mikið í mun að reka þetta strax sem fyrirtæki í hagnaðarskyni, í samkeppni eða hvað?

Ég spurði um daginn hvaða fjármunir yrðu ætlaðir í hreinsun á svæðinu strax á næsta ári. Svarið var því miður að þeir væru engir, að minnsta kosti ekki í fjárlagafrumvarpi eða í fjárlögum næsta árs eins og til stendur að afgreiða þau. Ég spyr því enn: Er í þessum áformum, t.d. í nefndum þjónustusamningi, kveðið á um að hefjast handa um hreinsun svæða? Ef svo er, með hvaða fjármunum á þá að gera það? Hvernig á að standa þar að svona almennt?

Mér finnst þetta fara svolítið veiklulega af stað. Ég verð að segja eins og er. Félagið er stofnað með mjög litlu fé. Það yfirtekur að vísu í sjálfu sér, að nafninu til, verðmætar og miklar eignir eða fær þær til umráða. En þær eru ekki fé í hendi fyrr en þá eitthvað af þeim er farið að gefa þeim nytina sína. Einhverja fjármuni hlýtur félagið að þurfa að hafa á milli handa, ekki síst ef það ætlar að standa undir kostnaði af hreinsunarverkefni strax á næsta ári, sem á að sjálfsögðu að hefjast handa við. Það á ekki að láta það allt saman lenda í útideyðu.

Ég vildi gjarnan, annaðhvort nú við þessa umræðu eða áður en málið fer lengra, áður en það kemur úr nefnd og til 2. umr., að fyrir lægju svolítið skýrari línur og svör við spurningum af þessu tagi. Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram að mér finnst einboðið að setja kraft í málið, að láta Þróunarfélagið hafa fjármuni milli handa þannig að það hafi bolmagn til að standa myndarlega að málum, a.m.k. að passa upp á að húsin frjósi ekki og ekki verði þar skemmdir og vandræði eins og þegar er byrjað að bera á.

Mér finnst að menn þurfi að taka svolítið betur á að ýmsu leyti, frú forseti.