133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að játa að efasemdir mínar vaxa hratt um að menn hafi valið mjög gáfulega eða skilvirka aðferð í þessum efnum. Þetta er greinilega nokkuð snúið, að stofna einkahlutafélag sem starfar í einkaréttinum og þarf síðan að fá sérstaka heimild til að yfirfæra til þess opinberar eignir. Það á síðan að fá sem lögbundið verkefni að annast hluti sem í raun eru á sviði hins opinbera, eins og að hreinsa upp menguð svæði.

Ef þetta er einkafyrirtæki, þó að vísu í eigu ríkisins sé og starfar sem slíkt í samkeppni og á að reyna að afla tekna á móti útgjöldum sínum, þá er spurningin sú: Er þá eðlilegt að það sé jafnframt látið taka að sér verkefni, sem auðvitað eru hreinar skyldur ríkisins að hreinsa þarna mengað land á svæðum sem ríkið tók eignarnámi til að leggja undir herinn?

Hefði ekki verið alveg eins einfalt að hafa þetta fyrst og fremst umsýslufélag, að eignirnar héldust í eigu ríkisins, að þegar þær færu að afla tekna eða væru seldar fengi ríkið fjármunina og ríkið reiddi fram fé til að hreinsa svæði? Af hverju að fara með þessa fjármuni í gegnum félag í einkarekstri sem starfar á sviði einkaréttarins?

Ég er að sjálfsögðu sammála því að færa stjórnsýslu á þessu svæði til eðlilegs horfs og þó fyrr hefði verið. Það er fagnaðarefni ef svo er að kvöðin gamla á flugstöðinni sé fallin brott. Að sjálfsögðu á flugstöðin að færast yfir til samgönguráðuneytisins og önnur verkefni yfir til viðkomandi ráðuneyta. Og það hefði verið og væri hægt að gera þessi mál öll upp á hreinu borði ef ekki væri verið að þvælast með þessi svæði B, þessi svokölluðu varnarsvæði, leifar af dvöl hersins hér. (Forseti hringir.) Í því sambandi spyr ég einnig um Helguvík, hvað með hana?