133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[20:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af Helguvík. Því er til að svara að Helguvík er mannvirki sem er í eigu Atlantshafsbandalagsins og var ekki hluti af mannvirkjum í eigu Bandaríkjamanna. Það eru hins vegar í undirbúningi ráðstafanir til þess að íslenska ríkið geti yfirtekið Helguvík en það hefur ekki enn gerst. Helguvík á það sammerkt með ýmsum öðrum mannvirkjum, bæði innan vallarsvæðisins og utan, að þar hefur Atlantshafsbandalagið kostað mannvirkin. Þau eru formlega í eigu þess og það þurfa að fara fram viðræður um þann tilflutning og þá tilfærslu sem ég vona að geti gengið hratt og vel fyrir sig. Þá geri ég ráð fyrir að við munum taka það hafnarmannvirki til eðlilegra nota fyrir okkur og vonandi tekst að koma olíuflutningunum af Keflavíkurveginum inn á það svæði, svo ég nefni dæmi.

En hitt er varðar Þróunarfélagið er í sjálfu sér ekkert flókið. Þessi leið var bara valin. Þetta er fyrirkomulagsatriði til að tryggja að þetta verði sjálfbært með þeim hætti að tekjurnar af svæðinu geti staðið undir kostnaði og jafnvel gott betur.

Við höfum ákveðið að fara þessa leið og sú stefna var mótuð í yfirlýsingunni 26. september að gera þetta með þessu móti. Félagið var síðan stofnað mánuði síðar og nú er verið að afla þeirra lagaheimilda sem nauðsynlegar eru en auðvitað er heimilt að gera þjónustusamning, á grundvelli fjárreiðulaganna, eins og ég gat um áðan. En við viljum hafa þetta tryggt með þessum hætti og ég tel að það sé áhrifameiri leið að gera þetta svona en að ríkið sé sjálft með puttana í þessu, þó vissulega sé þetta nú allt á ábyrgð ríkisins á endanum.

Að öðru leyti vænti ég þess að við hv. þingmaður þurfum ekki að deila mikið um þetta þó svo ég geri mér grein fyrir að þetta svæði B fer mikið fyrir brjóstið á honum. En það ætti nú að vera alger óþarfi finnst mér.