133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

umferðarlög.

388. mál
[21:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gat þess í framsöguræðu minni að sá kostur að hækka aldursmörkin hefði verið skoðaður. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki, heldur lengja þann tíma sem bráðabirgðaökuskírteinið yrði gefið út og enn fremur herða viðurlög, takmarka í raun ökuréttindin á þessum fyrstu árum og gera þær kröfur að þeir sem brjóta af sér fari í endurhæfingu. Við nálgumst þetta en það kann vel að reynast nauðsynlegt að gera enn frekari breytingar. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að samgöngunefnd taki þennan þátt til sérstakrar skoðunar og meti hvort ganga eigi skrefið svo langt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefnir hér.

Ég tel að svo komnu máli ekki skynsamlegt að fara þá leið, heldur setja þessar takmarkanir á réttindi ungra ökumanna þannig að þeir sem standa sig vel og sýna að þeir eru vel færir til þess að aka bílum fái tækifæri til þess með öllum þeim takmörkunum sem frumvarpið gerir ráð fyrir.