133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

forsendur fyrir stuðningi við innrásina í Írak.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt munað hjá hv. þingmanni að stjórnarandstaðan þáverandi reyndi að gera sér heilmikinn mat úr þessu máli fyrir síðustu kosningar en hafði ekki erindi sem erfiði. Það sem liggur fyrir í málinu, eins og ég rakti hér í síðustu viku, er það að íslensk stjórnvöld samþykktu að leyfa yfirflug og lendingar ef á þyrfti að halda í tengslum við þetta mál en á það reyndi ekki sérstaklega að því er ég best man. Síðan samþykkti Alþingi með sérstakri fjárveitingu að veita 300 millj. kr. til uppbyggingarstarfs í Írak og til mannúðar- og neyðaraðstoðar. Þar var atbeini Alþingis að þessu máli.

Hvort Íslendingar hefðu síðan ekki átt að heimila að nafn Íslands færi á margumræddan lista, sem var einhliða gjörningur af hálfu Bandaríkjamanna, er síðan annað mál. Ég tel að sú afstaða sem tekin var af hálfu íslenskra ráðamanna á þeim tíma hafi verið réttlætanleg í ljósi þeirra upplýsinga og þess sem fyrir lá um þetta mál á þeim tíma.