133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:13]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg sama hvað stjórnarandstaðan hér reynir mikið að kenna íslensku ríkisstjórninni um ástandið í Írak, það mun ekki takast. Allt venjulegt fólk, viti bornar manneskjur, sér að það er ekki hægt að láta eins og að það sem gerst hefur í Írak sé okkur hér í þessum sal eða ríkisstjórn Íslands að kenna. En þannig er nú talað. Borgarastyrjöld í Írak, er hún íslensku ríkisstjórninni að kenna?

Til að svara hv. þingmanni vil ég segja að ég tel mig ekki geta fullyrt hvort það ástand sem þar er núna skuli skilgreina sem borgarastyrjöld eða ekki. Hins vegar hafa losnað þarna úr læðingi mikil átök milli trúarhópa og milli annarra aðila í þjóðfélaginu sem náttúrlega hafa blundað undir lengi, eins og allir vita, áratugum og jafnvel öldum saman. Hins vegar er nú búið að koma á lýðræðisskipulagi í Írak. (Gripið fram í.) Þar er núna kosin ríkisstjórn, þar er kosinn forseti og ýmislegt horfir til betri vegar þar í landi þrátt fyrir allt.

Varðandi seinni spurninguna, varðandi lendingarleyfi og yfirflug hér, engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin um að afturkalla það, eftir því sem ég best veit. Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir sem við erum í bandalagi við hafa yfirleitt greiðan aðgang ef þær þurfa að koma hér við þannig að sú ákvörðun hefur, eftir því sem ég best veit, ekki verið afturkölluð frekar en fjárveitingin upp á 300 millj. sem búið er að veita í endurreisnar- og uppbyggingarstarf í Írak og hefur komið þar að góðum notum eftir því sem ég hef heyrt.