133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

boð lyfjafyrirtækja.

[15:19]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu fyrir síðustu helgi birtist athyglisverð grein. Það var frásögn af því að félag geðlækna á Íslandi hygðist efna til jólafagnaðar. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema það að til þessa fagnaðar var boðið í sameiningu af félagi geðlækna og lyfjafyrirtæki sem munu í sameiningu hafa auglýst þennan mikla gleðskap.

Það kemur jafnframt fram í fréttinni, virðulegur forseti, að það muni vera samkomulag alþjóðasamtaka lækna og lyfjaframleiðenda að ekkert sé athugavert við það að slíkir aðilar haldi sameiginlega fundi ef um fræðslu er að ræða. Ég á reyndar bágt með að sjá að það sé mikil fræðsla í því að efna til jólafagnaðar þar sem fyrst og fremst matur og drykkir eru á boðstólum en minna mun hafa farið fyrir fræðsluerindum í umræddum jólaboðskap.

Í umræddri frétt kemur jafnframt fram að formaður félags geðlækna hafi svarað þeirri spurningu blaðamanns hvort hann teldi þetta eðlilegt að engum kæmi við hvað gerðist innan félagsins. Er ég í sjálfu sér sammála því svo langt sem það nær. Það hlýtur hins vegar að koma okkur við sem skattborgurum hið nána samstarf lækna, lyfjaframleiðenda og lyfsala. Lyf á Íslandi eru mun dýrari, allt að því helmingi dýrari, en í nágrannalöndum okkar og það hlýtur líka að vekja okkur til umhugsunar að notkun geðlyfja á Íslandi mun vera miklu meiri en í nágrannalöndum okkar.

Því er eðlilegt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hæstv. ráðherrann telji að þetta nána samband geðlækna og lyfjafyrirtækja sé eðlilegt og hvort hæstv. ráðherra muni kanna þessa undarlegu frétt og bregðast við.